VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

5.10.05

Luneburg
Luneburg er fallegur staður. Miðbærinn er fullur af lífi. Hér eru mýmörg kaffihús og veitingastaðir, verslunargöngugötur og fjöllistamenn spila og leika á götum úti. Íbúar Luneburgar eru stoltastir af Ráðhúsinu sínu en elsti hluti þess er frá 14. öld. Luneburg var ríkur bær á miðöldum en hér var framleitt salt og selt til annarra Evrópulanda. Luneburg gerði það því gott og hér blómstraði verslun. Hins vegar fóru viðskiptin versnandi þegar að Spánverjar herjuðu á saltmarkaðinn en það var þeim mun auðveldara að vinna saltið í samvinnu við sólina. Borgarstjóri Luneburgar bauð okkur skiptinemunum í Ráðhúsið um daginn. Þar sýndi borgarstjórinn, sem er kona, okkur Ráðhúsið og sagði okkur að borgarstjórnin noti Ráðhúsið enn og vinni því í hálfgerðu safni. Ráðhúsið er afskaplega fallegt og gaman að fá að koma í heimsókn og sjá.
Fljótlega eftir að ég kom hingad keypti ég mér hjól, rautt hjól í stærðinni 24!! En hjólastærðir eru mjög mikilvægar hér í Luneburg og alveg óhæft að kaupa hjól í rangri stærð!!! Ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að hjól væru til í svona mörgum stærðum, hélt að maður færði sætið bara upp og niður!!!! Hér eru mjög strangar hjólareglur, bannað að hjóla án ljóss á kvöldin, verður að hjóla réttum megin, gefa stefnuljós o.s.frv. Ég var því svolítið stressuð að hjóla fyrst en nú er ég alveg í essinu mínu og hjóla út um allt. Mér finnst sérstaklega gaman að hjóla niðrí bæ á miðvikudags og laugardagsmorgnum því þá er markaður á Ráðhústorginu. Þar kennir ýmissa grasa, ávextir, grænmeti, blóm, hnetur, pulsur og ýmislegt annað. Þar kaupi ég blóm og ávexti, set í körfuna mína og hjóla heim... alveg hreint yndislegt!

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com