VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

28.3.07

Baunapóstur
Við Einar fórum í sónar fyrir rúmlega viku. Þá var baunin 13 vikna og voða hress. Hún hoppaðist og skoppaðist þarna í leginu enda ennþá nóg pláss. Veifaði og geiflaði sig. Ljósan sagði að hún væri mjög mikil ljósmyndafyrirsæta enda sýndi hún sig á alla kanta. Eftir sónarinn fórum við þar sem að taka átti blóð úr mér. Við rötuðum ekkert þarna um spítalann og sveimuðum um gangana eins og tveir villuráfandi sauðir. Að lokum fundum við réttu deildina og þurftum að bíða heillengi eftir að komast að. Á móti okkur á biðstofunni sat ein sú feitasta manneskja (miðað við hæð) sem að ég hef séð. Hún var líklega líka bara rétt yfir tvítugu og ég var mikið að spá í því hvort að hún væri ólétt eða ekki. Ég vorkenndi henni en auðvitað á maður ekkert að vorkenna öðrum út af útliti, kannski fílar hún sig vel svona? Annars efast ég nú um það því henni virtist ekki líða vel. Svo leið nú yfir eina þarna útlenska sem að var með manninum sínum. Henni var rúllað út úr blóðtökunni á rúmi. Allt gekk nú samt vel hjá mér og í verðlaun bauð kallinn mér á Reykjavík pizza company. Þar fékk ég mér pizzu með kjulla, sólþurrkuðum tómötum og furuhnetum. Pizzurnar þarna eru eldbakaðar og þvílíkt ljúffengar. Þjónustan var fín og ég mæli með þessu. *** stjörnur.
Á efstu myndinni liggur baunin á hliðinni og beint fram, á miðju myndinni liggur hún á bakinu og á síðustu var hún hoppandi eins og á trampólíni og hló og veifaði, mjög fyndið :) Hafiði séð hallærislegri baun? Nei ég hélt ekki. Fyrir þá sem að ekki vita á baunin að líta dagsins ljós í september.

Um daginn var ég að ganga niður stigann hjá Grábrók/Rauðbrók og allt í einu kúgaðist ég bara alveg hræðilega mikið. Þurfti að stoppa og upp úr mér komu ómennsk hljóð. Ég hljómaði verr en 150 kg. sjóari nýkominn af massa fyllerí. Ég bara réð ekkert við þetta og var fegin að enginn var þarna nálægt. Ég rétti úr mér og hélt áfram niður tröppurnar en um leið og ég kem úr beygjunni sé ég 3 stráka standa og glápa upp stigann. Voru líklegast að velta því fyrir sér hvaða ógeðslegu hljóð þetta væru. Held nú að þeir hafi búist við stærri manneskju en mér.... ég blakaði bara augnhárunum og reyndi að líta út eins og ég væri jafn hissa og þeir... held samt að ég hafi roðnað....

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com