VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

14.2.05

Sælt veri fólkið

Nú er bróðir minn giftur og ekki konu af verri endanum skal ég nú segja ykkur. Brúðkaupsdagurinn þeirra var æðislegur og mér brást ekki bogalistin eins og fyrri daginn og grét í kirkjunni.... já þetta var svo fallegt, sérstaklega þegar að Marín gekk inn kirkjugólfið og þegar að brúðhjónin kysstust og ég sá svipinn á Eiríki þegar að hann gekk út. Ég hef ALDREI séð hann svona hamingjusaman! Nú svo var skundað á Grand-hótel í brunch. Þar voru fullt af góðum ræðum og skemmtiatriðum og mín hélt ræðu og flutti brag til brúðhjónanna:

Eiríkur Briem og Marín Rós Tumadóttir
brúðkaupsdagurinn 6. febrúar 2005


Nú hefur elsku bróðir minn að altarinu gengið,
sem eiginkonu til lífstíðar Marínu þar fengið.
Mér finnst þá vel við hæfi að horfa ögn til baka
og hella úr sjóði minninga, af nógu er að taka.

Þegar ég var fimm ára, fékk ég Eirík bróður
og feikilega var hann nú rólegur og góður.
Mér fannst voða gaman að kitla hann og kjassa,
og krakkinn var svo þægur að allir vildu passa.

Elsku litli bróðir minn var aldrei sér að flýta
hann ók á hraða snigils, svo ég fór bara að ýta.
Það endaði með skelfingu, hann skall á litla munninn,
og skartaði síðan framtönn sem var eins og brunnin.

Svo hóf hann nám í grunnskóla og var þar ei til vansa
og vinurinn hafði taktinn og lærði fljótt að dansa.
Hann keppti þar til sigurs og kunni réttu trikkin
og kom því heim með bikar, sigraði þá Hnykkinn.

Menntaskólaárin svo ágætlega gengu
en elsku mamma og pabbi samt áfall aðeins fengu
er pólitískar skoðanir lét hann þar í ljósi,
því líklegt er að Davíð alls ekki hann kjósi.

Rólegheit og geðprýði einkenna hann Eika,
þó æsir hann sig gjarnan er Poolararnir leika.
Í knattspyrnu og pólitík keppnisandann sýnir
en klókur þess á milli í líffræðina rýnir.

Því óteljandi hluti um örverurnar veit og vann
en upp úr sinni smásjá þó einu sinni leit hann,
og kom þá auga á Marínu, kynni tókust náin
það kom í ljós að þetta var ekki út í bláinn.

Því ömmur þeirra í Vogahverfi vináttuna ræktu,
og vildu að barnabörnin í góða maka kræktu.
Sænska blóðið örugga í æðum þeirra rennur
og íslenska ástarbálið kraumar líka og brennur.

Af námsafrekum Marínar mætti hérna segja
í marga ljóðabálka þau hægt væri að teygja.
Mannúðina og réttlætið hún ofar öðru setur,
og iðkar það í verki, hvenær sem hún getur.

Þau una sér í Lundi, læra þar og nema
og lífið gengur sjálfsagt eftir traustu skema.
Þau elska bæði ketti, en væntanlega er vonin
að vitji þeirra storkurinn bráðlega með soninn.

Ég óska þess að brúðhjónunum heilladísir hossi,
og hamingjan á hverjum degi veki þau með kossi.
Þau brosa hérna alsæl, í allra bestu málum
fyrir Eiríki og Marínu nú samtaka við skálum!!

Nú um kvöldið var svo etinn góður matur í Njörvasundinu og brúðhjónin opnuðu pakkana... já maður sér það á öllu að best sé að drífa sig að ná sér í kall og gifta sig... því VÁÁÁ allar gjafirnar ...... ég bara svitna núna á staðnum við tilhugsunina he he he....

En allaveganna þá óska ég Eiríki og Marínu bjartrar framtíðar og hamingju alla ævi.

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com