VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

12.8.07

Postulínsdúkkan

Ein jólin, fyrir mörgum árum, þá fékk ég postulínsdúkku í jólagjöf. Mér þótti einstaklega vænt um þessa dúkku enda frá afa og ömmu. Postulínsdúkkan var með fíngert andlit, glansandi hvítt hörund, rjóð í vöngum, með stór dökk augu og löng augnahár. Undan bleikri hettu læddust brúnir slöngulokkar og bleiki kjóllinn náði henni rétt niður fyrir hné. Fíngerðir fæturnir voru klæddir í svarta tátilju skó. Ég lék mér aldrei með postulínsdúkkuna og hafði hana upp á punt. Ég gætti þess alltaf að hún fengi góðan stað þar sem að færi vel um hana. Annað hvort sat hún í gluggukistunni í bleika herberginu mínu eða í ruggustól í horninu og seinna þegar að ég varð eldri þá sat hún á hillu og fylgdist með mér og vinkonunum spjalla um stráka. Síðar þegar að ég var flutt að heiman fékk hún enn sinn stað í nýjum húsakynnum.
Svo var það eitt dimmt desemberkvöld, fyrir ca. 3 árum, að brotist var inn í bílskúr foreldra minna þar sem að ég geymdi búslóð mína tímabundið. Litlu var stolið því þjófurinn tók aðeins nautalundir úr frystinum og svo postulínsdúkkuna mína. Þjófurinn leit þannig fram hjá mun verðmætari hlutum. Ætli þjófurinn hafi gætt sér á nautalundunum á aðfangadagskvöld og svo glatt dóttur sína með góðri gjöf síðar um kvöldið?
Mér er oft hugsað til postulínsdúkkunnar minnar og hvar hún sé niðurkomin núna. Skrýtið hvaða hlutir fá sess í hjarta manns.

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com