VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

10.11.08


Minningakassi

Mig langar til þess að segja ykkur sögu. Kannski hafiði heyrt hana, kannski ekki. Ég heyrði hana sjálf í fyrsta skipti í Kastljósinu í sl. viku.

"Þetta var um 1900, fjölskylda bjó í litlu húsi við sjóinn og pabbinn dró að fisk í soðið. Börnin voru tíu. Langt fyrir aldur fram deyr pabbinn svo mamman stendur ein uppi með tíu börn. Hún gat engan veginn alið önn fyrir þessum stóra barnahópi svo hún varð að láta frá sér átta elstu börnin. Í þá daga voru engir sjóðir né sameiginlegar tryggingar til að leita í svo hún var upp á góðsemi nærsveitarmanna komin. Sorgin við föðurmissinn var sannarlega næg en börnin misstu líka móður sína og hvert annað. Þau tvístruðust milli bóndabæja. Móðirin þurfti því að finna ráð til að hjálpa börnunum að halda voninni og útbjó lítið skrín handa hverju þeirra. Í það setti hún hluti sem voru þeim kærir og efnisbút úr flík sem hún notaði mikið. Þegar hún kvaddi þau í túnfætinum sagði hún eitthvað á þessa leið: Í hvert skipti sem ykkur líður illa og saknið okkar skulið þið fara út undir fjósvegg eða eitthvert sem þið getið verið ein og ótrufluð. Þar takið þið hlutina upp úr skríninu til að minna ykkur á góðu stundirnar sem við höfum átt þegar við vorum öll saman. Skrínið á að einnig að minna ykkur á að ég mun koma aftur og sækja ykkur. Það liðu mörg ár áður en fjölskyldan sameinaðist á ný, en það tókst."

Yfir þessari sögu skældi ég og reyndar líka Jóhanna sjónvarpskona. Einari fannst það, held ég, soldið sætt en hann hristi samt hausinn glottandi og spurði hvað væri eiginlega málið með okkur?? ;) Nú hef ég búið mér til minn eigin kassa. Í honum eru m.a. ástarbréf frá Einari, mynd af Herdísi Maríu sem að mér er einkar kær, dagbók frá því að ég var 10 ára, mynd af okkur systkinunum, hárlokkur ofl. Mér verður bara hlýtt í hjartanu við að hugsa um dótið í kassanum. Ég hef þegar ákveðið að börnin mín fái svona kassa, ég ætla að setja nokkra hluti í þá fyrir þau en svo er það alfarið þeirra að setja hluti í þá.... hluti sem að lætur þeim líða vel.
Ég mæli með geðræktarkassanum.

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com