VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

2.12.04

Einhleyp um jólin....

Rakst á þennan frábæra pistil á deiglunni eftir Guðfinn Sigurvinsson sem að birtist um jólin í fyrra.... skil ekki hvernig hann fór fram hjá mér en vá sumt af þessu er eins og talað úr mínu hjarta :-)

t.d.
Jólin miðast nefnilega við þetta snargeggjaða parasamfélag þegar á fullorðnisár er komið. ,,Það er allt breytt vegna þín, þú komst með jólin með þér...úúúú....ég vil eiga jólin með þéééér!!!” Eða þá ´Blue Christmas´ sem gengur út hvað jólin séu ömurleg ef maður er ekki með maka sér við hlið. Það er aldrei sungið um hvað það sé frábært að vera einhleypur um jól, enda er það ekkert frábært. Þegar haldið er svo til dæmis í jólaboðin komum við einhleypu oftar en ekki í bíl með foreldrum okkar og sitjum aftur í spennt niður í sætin eins og börn. Pörin koma hins vegar saman á litlum Toyota Corolla-bílum skælbrosandi og sæl.
Jólaboðin eru svo kjörið tækifæri fyrir pörin til að taka okkur einhleypu og negla upp við vegg, eins og gert var við spænska rannsóknarréttinn fyrr á öldum. ,,Jæja Guffi, hvað segirðu þú ert ekki kominn með konu?”, ,,Er ekki kominn tími á barnabarn fyrir mömmu þína, ha?” ,,Ha, nei, nei....” segir maður og getur ekki annað. Verð eins og Tumi Þumall. Hvað á maður annars að segja? ,,Nei, heldurðu að ég sæti þá hérna einn, fíflið þitt?” eða ,,Nei, en þrátt fyrir það hef ég haft samfarir 20 sinnum á árinu,og þá ekki alltaf með sama aðilanum eins og þið hin!” Nei, það gengur ekki. Myndi eyðileggja jólaboðið og maður sæti sjálfur uppi með skömmina. Það verður að láta sig hafa þetta og bíða eftir að pörin miskunni sig yfir mann og komi með náðarspurninguna; ,,Hvernig gengur annars í skólanum?” Svo er alltaf mesti spenningurinn hjá fólki að bera saman gjafirnar sem makarnir gáfu hvoru öðru, taka andköf yfir hversu rómantískur og rausnarlegur makinn var þessi jólin. Svo er gaukað að manni aumkunarverðu augnatilliti, eða bara ekki. Maður er víst ekki alveg kominn í heim hinna fullorðnu, nema í tvíriti sé.
Það má vel vera að ég sé orðinn bitur piparkarl þó einungis 25 ára sé, og ef til vill ekki öll von úti. En það er samfélagið sem hefur gert kröfu um það...ekki mér að kenna. Ég á annars frábæran tíma hina 360 dagana, þegar menn geta ekki lyft spönn frá rassi án þess að fá til þess samþykki makans. Og ekki er ég búinn að sjá allar myndirnar á leigunum og búinn að liggja upp í sófa kófsveittur í jogginggalla allar helgar. Nei, þá er ég frjáls sem fuglinn, og bara ansi flottur þó ég segi sjálfur frá.

og svo langar mig að við einhleypu tökum hann Guffa á orðinu:

En varðandi jólin þá er ég ekki einn um að ganga í gegnum yfirheyrslu, augngotur og vorkunn. Þess vegna legg ég til að við einhleypu stofnum með okkur samtök, og tökum upp hentistefnusambönd um jól. Kaupum e-ð handa okkur sjálfum sem okkur hefur lengi langað í og skrifum á jólakortin ,,Til mín frá þér.” Tækjum fullan þátt í hátíðarhöldunum og yfirborðssamræðunum með hinum pörunum, sem þá hafa misst öll vopn úr hendi sér og slítum síðan samvistum á Nýársdag. Þá verðum við aftur frjáls og öfundarefni kófsveittra joggingpara sem hafa misst eina tækifærið til að láta okkur hafa það. Einhleyp...pörum okkur saman um jólin og lýsum yfir stríði á hendur þessu geggjaða parasamfélagi.
Sameinuðu stöndum vér, sundruð djömmum vér!

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com