Á öldum ljósvakans
Jamm ég var mætt í útvarpsviðtal kl. 16:00 í gær á Talstöðina. Ég og Bjarki mættum til að rökræða niðurstöður skýrslu okkar um STEF við Magnús Kjartansson. Þetta var frekar skondið viðtal og var það mál manna að við hefðum komið mjög vel út úr þessu viðtali. Magnús Kjartansson var helst til æstur að mínu viti og kallaði okkur óvildarmenn og að við hefðum skrifað þessa skýrslu um STEF af illum ásetningi. Það er nú hin mesta firra.
Mikil ólga hefur löngum verið tengd starfsemi STEFs og tekist á um mörg
álitaefni. Höfundaréttur er óhlutbundinn eignaréttur, en getur samt sem áður verið
mjög verðmætur. Er því mikilvægt að vel sé staðið að innheimtu og öllum séu tryggðar sanngjarnar tekjur fyrir notkun á verkum sínum. Hér takast því á hagkvæmnis- og sanngirnissjónarmið.
Í skýrslunni okkar er staða og hlutverk STEFs ásamt úthlutunum skoðuð auk þess sem málið er rannsakað með hliðsjón af félagafrelsisákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Eftir að hafa rannsakað efnið og leitað heimilda komust við svo að þeirri niðurstöðu að verulegur vafi leiki á að núverandi tilhögun höfundarréttargreiðslna standist stjórnarskrá Íslands.
Strax eftir viðtalið fengum við rosalega góð viðbrögð og nokkrir tónlistarmenn hafa þegar lofsamað þessa umræðu og eru hæstánægðir með þessa skýrslu. Nú er bara að bíða og sjá hvort að Ísland í dag hafi ekki samband við okkur :-)
<< Home