VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

5.7.05

Ég fæddist á sunnudegi. Móðurafi minn, Sr. Ragnar Fjalar Lárusson, minnti mig ætíð á það þegar að hann og amma mín, Herdís Helgadóttir, óskuðu mér til hamingju með afmælið. Ennfremur bætti afi gjarnan við að þau hjónin hefðu nýverið komið heim úr messu í Hallgrímskirkju þegar að þeim var tilkynnt að fimmta barnabarn þeirra væri fætt í þennan heim. Að lokum bætti afi því við að núverandi biskup Íslands hefði einmitt hlotið prestvígslu þennan sama dag. Á sama tíma og ég þakkaði kærlega fyrir afmæliskveðjurnar, yljaði þessi stutta frásögn mér um hjartarætur.
Mér er margt minnistætt þegar að ég hugsa um móðurforeldra mína. Sem barni þótti mér alltaf hálfgert ævintýri að fara í heimsókn í Auðarstræti, fallegt heimili ömmu og afa. Barnabörnin hlupu upp og niður stigana og í mörgum herbergjum var hægt að koma sér fyrir og spjalla. Núna í seinni tíð fólst ævintýrið einna helst í því að skoða biblíusafn afa míns. Þar lét afi ljós sitt skína og sagði skemmtilega frá.
Ég fermdist í Hallgrímskirkju og afi minn leiddi fermingafræðsluna með miklum myndarbrag. Mér er sérstaklega minnistætt atvik þegar að ég valdi mér ritningarvers. Ég átti erfitt með að velja mér vers svo ég bað afa um aðstoð. Afi áleit aðeins eitt vers koma til greina: “Sælir eru hjartahreinir því þeir munu Guð sjá”. Mér hefur aldrei verið hrósað meira. Afi hafði ómælda trú á mér og hélt til að mynda glimrandi ræðu, eins og honum einum var lagið, þegar að ég fagnaði þrítugsafmæli mínu nú fyrir stuttu. Þeirri ræðu mun ég aldrei gleyma.
Afi kvaddi á sunnudegi. Ég þakka kærlega fyrir allar góðu stundirnar, minningarnar geymi ég í hjarta mínu. Afi var stórbrotinn maður, umburðarlyndur og hjartahlýr. Hann var dýravinur og góð fyrirmynd. Um leið og ég bið Guð um að styrkja ömmu mína þá veit ég að Guð geymir afa minn því sælir eru hjartahreinir, þeir munu Guð sjá.

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com