VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

15.6.06

Pössunarpía

Ég og Eiríkur Tumi eyddum eftirmiðdegi saman. Hann var nývaknaður þegar að ég mætti í Njörvasundið og leyfði mér að kíkja aðeins á netið meðan að hann sat á teppi og barði trommur og hristi hristur. Nú svo gerði hann örlitlar hundaleikfimiæfingar (lagðist á magann og velti sér) og svo fór hann á fjórar fætur eins og lítill hvolpur og ruggaði sér fram og til baka þar til að hann lenti á maganum. Leikfimin endaði á nokkrum skriðsundshreyfingum. Nú en svo fóru að heyrast einhver hljóð sem að ég túlkaði sem "jæja nú er nóg komið, hættu á netinu.. hér er ég" svo ég stóð upp og dansaði can can fyrir hann (sveiflaði pilsinu fram og til baka) en það fannst Tuma bráðfyndið og skellihló. Jæja, ég hafði fengið fyrirmæli um að gefa Tuma að borða á ákveðnum tíma. Við lölluðum okkur því inn í eldhús þar sem að ég fór að hræra í graut fyrir hann. Tumi æstist allur upp og fór að snúa höndunum í hringi og rugga sér fram og til baka í stólnum. Spenningurinn var hins vegar fljótur að hverfa eftir fyrstu skeiðina en ég náði að koma 5 skeiðum upp í hann áður en að hann lokaði alveg fyrir allt! Við ákváðum þá að fara inn í setustofu og setja eitthvað í dvd-spilarann. Ég leyfði Tuma að velja og hann valdi sér Baby Einstein dvd og við horfðum á hann saman, samanvafin í sófanum. Þegar að þátturinn var hálfnaður nennti Tumi ekki að horfa á hann lengur og tók fjarstýringuna. Fyrst skipti hann yfir á CNN. Við horfðu á fréttir í dágóða stund ( mikið gáfumenni augljóslega hér á ferð), næst skipti hann yfir á norska stöð en á henni var þáttur sem að fjallaði um kommúnisma í Finnlandi. Tumi nennti alls ekki að horfa á hann og skipti strax yfir á tónlistarstöð. Nú þarna sátum við og dilluðum okkur við Shakiru (Tumi var mjög hrifinn af henni) þegar að við hrukkum við og ég hélt að þjófavarnakerfi hefði farið í gang! Kobbi (hundurinn á heimilinu) rauk upp og við fórum öll þrjú fram á gang til að athuga hvaða læti væru eiginlega í gangi. Það er ekki orðum ofaukið að ég hafi fengið vægt taugaáfall þegar að við komum fram á gang. Á miðjum ganginum barðist skógarþröstur fyrir lífi sínu þar sem að Stjarna og Trotsky (kettirnir á heimilinu) léku sér að bráð sinni. Ég reyndi að skerast í leikinn, dauðhrædd með Tuma á handleggnum og Kobba í rassinum, og náði að reka kettina upp. Fuglinn hrökklaðist út í horn, titrandi og skjálfandi, þar sem að hann húkti og skeit! Ég grenjaði næstum af hræðslu (ég og dýr muniði) og hringdi í Marínu og Eirík. Marín sendi Daníel á svæðið en hann tók fuglinn og sem betur fer var hann ekki meiddur og flaug burtu. Úff......... Við Tumi höfðum það svo gott það sem eftir lifði dags... hann kúkaði, sprændi á mig og skellihló, át banana og sofnaði í fanginu mínu. Yndislegra barn er ekki hægt að hugsa sér en ég get ekki sagt það sama um kettina!!!!!!!

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com