Roger Waters, umferðaröngþveiti og skítakuldi
Ég var svo heppin að vera boðið á tónleikana með Roger Waters. Íris vinkona hringdi í mig og bauð mér að vera deitið sitt og ég var ekki að lengi að játa því. Fyrst fórum við í forpartý þar sem að boðið var upp á frían bjór!!!! og snittur og veisluhaldarinn var ekki ófeiminn við að bera í okkur stallsystur áfenga drykki. Í partýinu voru víst margir flugmenn en ég tók ekkert eftir þeim þar sem að það eina sem að ég sá var bjórinn fyrir framan nefið á mér. Ég sá reyndar líka ógeðslega flott úr en það er allt önnur saga. Nú svo var liðinu skóflað upp í rútu sem sniglaðist áfram og tók nokkur pissustopp í Ártúnsbrekkunni. Ég var í þvílíkum spreng en daman í mér bannaði mér að fara út og láta allt flakka. Það er ekki oft sem að ég óska þess að vera karlkyns en í þessari rútuferð var ég farin að biðja Guð um alls konar vitleysu. Rútubílstjórinn var nörd af verstu gerð og var hálfgerð blanda af Woody Allen og Hómer Simpson. Honum var alls ekki skemmt þegar að fólk hleypti sér út til að skila bjórnum. Ég sagði honum að hann yrði að taka stjórnina og hætta að hleypa fólki út. Hann skalf á beinunum og barði í stýrið.. já já já... sneri sér við og hvíslaði skjálfandi röddu "ég ætla ekki að missa bílprófið út af ykkur" .....fólk hélt samt áfram að fara út og fá sér smók og því sem því fylgir. Bílstjórinn hálfpartinn grét, ég er ekki að ýkja og ég var næstum búin að knúsa hann þarna og hefði gert það ef pissublaðran mín hefði ekki verið farin að ýta á barkakýlið mitt. Daman í mér gafst upp þar sem að ég hljóp yfir bílastæðið fyrir framan Egilshöll og við nokkrar "dömur" földum okkur á bak við Musso-jeppa og léttum á okkur. Seinna skammaðist ég mín mikið fyrir að hafa ekki valið Landcruiser, hvað var ég að spá?!
Tónleikarnir voru flottir, verst hvað ég þekki lögin með Pink Floyd lítið. Það var samt magnað að sjá fólkið (aðallega miðaldra karlmenn) hálfslefandi yfir dýrðinni. Ég hefði getað komist á sjéns þarna án nokkurra vandræða, mennirnir voru eins og dáleiddir...
Umferðaröngþveitið að tónleikum loknum varð þess valdandi að ég bað aftur til Guðs en nú um að vera komin til Spánar. Vonandi urðu strákarnir ekki ófrjóir og við stelpurnar höfum ekki fengið blöðrubólgu þar sem að við gengum hundruðir kílómetra að rútunni í þvílíka skítakuldanum.
Heimferðin var án pissustoppa enda bjórinn löngu búinn.
Efnisorð: Tónlist og bækur
<< Home