VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

10.10.06

Málstofa

Ég er að skrifa ritgerð um það hvort að riftun sé raunhæft vanefndarúrræði. En þetta blogg er ekki um það. (hjúkk segja sumir) Ég tók mér nefninlega pásu frá skrifum áðan og fór á málstofu um kynferðisafbrot. Ragnheiður Bragadóttir prófessor við lagadeild HÍ er ein þeirra sem að samdi frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Hún var fyrirlesari á málstofu í dag og kynnti þetta frumvarp. Í þessu frumvarpi voru 3 brotaflokkar skoðaðir:

1.Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks
2.Kynferðisafbrot gegn börnum
3.Vændi

Já, held að flestir geti verið sammála um nauðsyn þess að endurskoða löggjöfina varðandi þessi mál.
Í dag er refsirammi vegna nauðgunar byggður á verknaðaraðferðum. Í því felst að nauðgun er aðeins sá verknaður sem að felur í sér ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Refsing við þess konar brotum er fangelsisvist frá 1-16 ár. Hins vegar telst það ekki nauðgun ef að einhver notfærir sér ölvunarástand konu til að koma fram vilja sínum. Einnig telst það ekki nauðgun í skilningi laganna að koma fram vilja sínum við þroskaheftan einstakling. Þannig er refsiramminn 30 dagar- 3,4 eða 6 ár í þess háttar brotum. Í þessu nýja frumvarpi er hugtakið nauðgun skilgreint upp á nýtt og rýmkað mjög og þannig er refsiramminn fyrir brot eins og nauðgun á sofandi/áfengisdauðri manneskju eða það sem að áður flokkaðist undir misneytingu rýmkaður í 1-16 ár. Þetta er allt af hinu góða og fáránlegt að þetta hafi ekki allt talist nauðgun áður.
Ragnheiður fjallaði líka um fyrningu kynferðisafbrota og færði hún góð rök fyrir því að þau ættu að fyrnast. Hins vegar byrja þau ekki að fyrnast fyrr en um 18 ára aldur skv. frumvarpinu en þau byrja að fyrnast við 14 ára aldur í dag. Ég var sammála henni að þessi brot ættu að fyrnast eins og önnur brot en tel það vera mjög gott að fyrningafrestur hefjist ekki fyrr en eftir að þolandinn hefur náð "fullorðins" aldri. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gagnvart börnum verði hækkað um 2 ár og þannig lengist fyrningarfresturinn og fólk verður komið vel á fertugsaldur þegar að brotin fyrnast. Þetta er samt mikið hitamál og ég veit að það eru sko ekki allir sammála mér í þessu.
Að lokum fjallaði Ragnheiður um vændi. Með frumvarpinu var ákveðið að fara ekki svo kallaða sænska leið. Sænska leiðin felur í sér að kaupanda vændis er refsað. Tillögur frumvarpsins fela í sér að ákvæði um bann við sölu vændis til framfærslu verði afnumið og lögfest verði ákvæði um refsingu fyrir að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum í opinberum auglýsingum. Ég er ekki alveg búin að mynda mér skoðun á því hvort að þessi sænska leið sé góð eða slæm. Einhvern veginn finnst mér alveg rök fyrir því að það ætti að vera refsivert að kaupa vændi og ef að það er ólöglegt að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum, ætti þá ekki að vera ólöglegt að kaupa þau?? En eins og með allt þá eru rök með og á móti.

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com