VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

3.4.07

Allt er vænt sem er grænt

Nú er álhelgin mikla liðin. Ég viðurkenni að ég fylgdist grannt með kosningunum og var spennt á kjördegi þótt ég búi ekki í Hafnarfirði. Mér var svo sem í sjálfu sér sama hvernig þetta færi en ef að ég byggi í Hafnarfirði þá hefði ég kosið með stækkun. Fyrir því eru margar ástæður. Stærstu rökin, í mínum huga, voru sú að þarna er verið að kjósa um stækkun en ekki nýtt fyrirtæki. Ég hefði svo skilið það ef að Hafnfirðingar hefðu sagt nei við nýju álveri þarna inn í bæjarjaðrinum en þetta álver hefur verið þarna lengi og gert Hafnarfjarðarbæ gott. Þeir sem búið hafa lengi í Hafnarfirði muna hvernig ástandið var í atvinnumálum áður en að álverið kom. Nú svo eru fjölmörg fyrirtæki í Hafnarfirði sem að byggja afkomu sína á álverinu og sjá nú fyrir endalok rekstrar síns. Svo fannst mér auðvitað skipta miklu máli að álverið mengar sama sem ekkert, Keflavíkurvegurinn mengar margfalt meira. Hins vegar er ég sammála því að sjónmengunin sé til staðar en iðnaðarhverfi eru ljót og þetta er skipulagt sem iðnaðarhverfi. Það kemur líklegast bara eitthvað annað ljótt fyrirtæki þarna í staðinn. Svo er spaugilegt að fylgjast með því hvernig stjórnmálamenn bregðast við úrslitunum. Ríkisstjórnarflokkarnir gera lítið annað en að skammast út í Samfylkinguna í Hafnarfirði, segja hana ekki þora að segja skoðun sína á stækkuninni. Það hefði hins vegar verið dálítið fáránlegt, í mínum huga, ef að bæjarstjórnin hefði tekið afstöðu með eða á móti. Hún var að leggja þessa ákvörðun í dóm kjósenda.
Flestir fagna þessu íbúalýðræði en ég hef ekki alveg myndað mér skoðun á því ennþá. Þarf aðeins að pæla í því betur. Íbúarnir höfðu áður fengið að kjósa þ.e. í sveitastjórnarkosningunum og Alcan hafði þegar keypt lóð af Hafnarfjarðarbæ undir stækkunina og eytt miklum peningum í hana.

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com