35. vika að hefjast
Nú er meðgangan farin að taka sinn toll. Fyrir utan fyrstu mánuðina þegar að ég var með ógleði dauðans þá hefur mér liðið vel. Núna er ég hins vegar farin að finna verulega fyrir krílinu. Kúlan mín er svo framstæð að ég held að litla baunabarnið mitt ætli bara út um naflann. Svæðið í kringum naflann er marið vegna þrýstings. Krílið er þvílíkt sprækt og hreyfir sig mikið og mér líður vel að finna hreyfingarnar jafnvel þótt að rifbeinin séu notuð sem gítarspil.
Á næturnar sef ég illa og vakna oft upp með sinadrátt, náladofa í handleggjum og á morgnana er verulega sárt að hreyfa sig. Ég er með sinaskeiðabólgu, líklegast út af bjúg, en ég er samt ekki mjög bjúguð svona utan á. Ég hef verið að skófla í mig vatnsmelónum (minnir mig á Spán) til að stemma stigu við bjúgmyndun. Reyni að vera dugleg að taka vítamín og þarf að fara að slaka á.
Í fyrrinótt þá hélt ég að ég væri komin af stað. Ég var með samdrætti og fyrirvaraverki enda var dagurinn strembinn. Ég hreinlega meika ekki að gera mikið yfir daginn þá verð ég ómöguleg og það bitnar á skólanum. Skólinn er á milljón og ég verð hreinlega að gera eingöngu það sem að viðkemur honum ef að ég ætla að klára dæmið. Skóli og ólétta næstu vikurnar og lítið annað!
Núna er baunabarnið að verða létt bakað, eina sem vantar upp á er að lungun þroskist smá meira. Það á svo eftir að þyngjast og stækka þessar vikur sem að eftir eru. Í þessari viku fær það neglur og getur því farið að klóra sér í hausnum. Obbosslega fínt!
Efnisorð: meðganga
<< Home