3. nóvember
Þann 3. nóvember sl. hefði Eiríkur afi minn átt afmæli ef að hann væri á lífi. Hann dó i febrúar 1989 en þá var ég bara 14 ara gömul. Ég hugsa oft til þess hve gaman hefði verið ef ad hann hefði lifað lengur. Ég vildi óska þess að ég gæti rætt við hann um allt milli himins og jarðar og efast ekki um að ég hefði fengið góð ráð hjá honum.
Ég er mjög stolt af afa minum og finnst hann hafa verið afar merkilegur maður. Hann var bæði farsæll í starfi og einkalífi, algjör sjarmör og heillaði alla upp úr skónum.
Ég varð yfirmáta stolt þegar að ég las minningarorð Jóhannesar Nordal þáverandi seðlabankastjóra í hans garð:
"Með Eiríki Briem, rafmagnsverkfræðingi og fyrrverandi rafmagnsveitustjóra ríkisins og síðar forstjóra Landsvirkjunar, er fallinn frá einnaf brautryðjendum tækniframfara og betri lífskjara á Íslandi á síðara helmingi þessarar aldar. Vinir hans og samstarfsmenn eiga á bak að sjá heillandi persónuleika, sem með fjölþættum gáfum sínum, skarpri hugsun og leiftrandi skopskyni brá birtu hins óvænta jafnvel yfir hversdagslegustu hluti. Eiríkur var höfðingi í lund og stórlyndur, og það leyndi sér ekki, að að honum stóðu merkar ættir fjölhæfra gáfumanna."
Afi lærði rafmagnsverkfræði í Svíþjóð og þar kynntist hann ástinni og tók ömmu mína með sér heim til Íslands. Amma sagði mér síðar frá því að hún hefði fyrst séð hann hjólandi í hálku með skrýtna húfu á hausnum. Vinkona hennar benti henni á hann og sagði "þarna er skrýtni Íslendingurinn". Svo virðist sem að ömmu hafi ekki fundist hann svo skrýtinn. :)
Heima hja afa og ömmu i Snekkjuvogi var yndislegt að vera og heimili þeirra yfirfullt af fallegum hlutum, málverkum og skemmtilegri hönnun. Ég hugsa oft með söknuði til sunnudagsmáltíðanna. Þá var mikið hlegið. Afi sat við borðsendann, virðulegur og glettinn og sagði oft gamansögur eða fór með stökur. Hann knúsaði okkur barnabörnin oft og mikið og um leið og við komum inn um dyrnar hlupum við inn á skrifstofuna hans, þar sem að hann sat iðulega við skrifborðið sitt, og knúsuðum hann og fengum nammi. Skrifborðið hans var yfirfullt af leyndardómum og ekki sjaldan sem að hann gróf upp muni frá fjarlægum löndum til að sýna okkur eða gefa. Um páska fórum við oft á Búrfell. Þar var nú ýmislegt brallað t.d. veiddum við síli niðrí læk, klifruðum upp á fjall, fórum í sund og skoðuðum Þjóðveldisbæinn og virkjunina.
Ég sakna afa mins og ömmu mikid og vildi óska þess að Herdís María og Einar hefðu fengið að kynnast þeim. En ég veit að þau eru saman núna og halda yfir mér verndarhendi. Til hamingju með afmælið elsku afi minn. Þú att RISAstóran stað i hjartanu minu.
Efnisorð: Afmælisbarn dagsins
<< Home