VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

29.1.08


Fréttir af Herdísi Maríu


Nú er Herdís María að verða 4ra og hálfs mánaða gömul. Hún braggast vel og ég er voðalega spennt að fara með hana í 5 mánaða skoðun því mér finnst hún öll að blása út og stækka. Mér finnst hún gera eitthvað nýtt á hverjum degi þessa dagana. Hún er, eins og í fyrri færslu segir, farin að hlægja dátt. Ekkert smá krúttilegt. Hún hjalar ennþá af fullum krafti og stundum hreinlega öskrar hún, eins og hún sé að testa raddböndin. Hún öskraði voðalega mikið á páfagauk sem að hangir yfir leikteppinu, hreinlega þoldi hann ekki, en hún er farin að taka hann í sátt. Hún uppgötvaði tærnar á sér í sl. viku og núna eru þær sko AÐAL nr.2, grípur í þær og þegar að ég sting þeim upp í hana hlær hún eins og heljarinnar krúttíbolla. Við settum svona leiksokka á hana og henni fannst það drepfyndið! Nr. 1 eru hendurnar og hún er með þær á bólakafi upp í sér og slefar og slefar. Hana klæjar svo mikið í góminn greyinu.

Herdís María er farin að fíla það að liggja á maganum og reisir sig vel upp og spriklar heilmikið, alveg eins og hún vilji komast af stað. Á leikteppinu snýr hún sér næstum því yfir á magann en höndin er eitthvað að þvælast fyrir svo að hún stoppar á henni. Hún er líka voðalega góð í því að færa sig til á bakinu. Ég legg hana með höfuðið í norður og áður en að ég veit af er höfuðið komið í suður og lappirnar í norður! og svo er höfuðið komið aftur í norður!

Henni finnst skeggið á pabba sínum voðalega skrýtið og klípur í það og finnst líka heldur ekkert leiðinlegt að rífa í hárið á mér!

Hún hefur prófað Triptrap stólinn sinn en endist ekki lengi í honum, vill frekar vera í gamla góða ömmustólnum. Hún er líka mjög forvitin þegar að hún sér tölvuna og sjónvarpið. Stundum held ég að augun ætli út úr henni! Henni finnst fátt skemmtilegra en að sitja í fanginu á pabba sínum og fylgjast með honum í tölvunni. Ég leyfi henni að horfa á sjónvarpið stöku sinnum og set þá Baby Einstein á og Herdís María glápir á með munninn opinn!! Annars er ég mjög dugleg að leyfa henni að fylgjast með mér gera heimilisstörfin, henni finnst það ekki leiðinlegt. Foreldrarnir hafa ennþá ekki leyft Herdísi Maríu að fara í sund en hún fær það kannski bráðlega, verður að æfa sig fyrir Tenerife í sumar!

Jæja læt þetta gott heita í bili. Herdís María biður að heilsa ykkur öllum, knús í bala :)

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com