VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

30.1.08

Ég og pabbi

Á milli okkar pabba eru náin tengsl. Þegar að ég fæddist voru foreldrar mínir í námi í Svíþjóð og hann varð strax rosalega mikill pabbi og hugsaði um mig til jafns á við mömmu. Ég varð strax mikil pabbastelpa og fannst fátt betra en að spjalla við hann og kúra í hálsakotinu hans. Sem barn var ég stríðin og eitt sinn bannaði hann mér að stinga steinvölu upp í mig. Ég gerði það hins vegar samt og hljóp af stað, vitandi að hann myndi elta mig. Hann þaut á eftir mér, náði mér og píndi mig til þess að opna munninn. En hann fann enga steinavölu þar, ég var bara að stríða og var með hana í lófanum. Þegar að ég byrjaði í skóla hlýddi hann mér undir próf og mér fannst hann vita svarið við öllum heimsins spurningum. Pabbi var duglegur að hvetja mig áfram og þess vegna fannst mér allir vegir færir, ætlaði á tímabili að verða forsætisráðherra! Ein af uppáhaldssögum hans er þegar að ég lærði sjálf að lesa, hann segir þá sögu mjög stoltur :) Þegar að ég komst á gelgjuna fannst mér hann hins vegar oft alveg ómögulegur. Mér fannst hann of strangur og hann þurfti ekki annað en að hækka róminn örlítið og ég fór öll úr sambandi, grenjaði og öskraði á hann. Pabbi lét það hins vegar ekki á sig fá og þegar að ég tók skróptímabilið mitt í MR tók pabbi sig til og keyrði mig í skólann. Eftir að síðasta bólan hvarf og hormónarnir "róuðust" var ég fljót að sættast við hann aftur og í dag spjöllum við oft saman í símann og ræðum saman um heima og geima við eldhúsborðið í Selvogsgrunni. Ég hringi strax í hann þegar að eitthvað skemmtilegt gerist í mínu lífi og líka þegar að eitthvað verra gerist.. t.d. þegar að ég hef verið rænd (hefur gerst í Amsterdam, Barcelona, Mílanó svo eitthvað sér nefnt) Í dag á pabbi minn afmæli. Hann fæddist á Barónstígnum fyrir 60 árum, var svo mikið að flýta sér í heiminn að enginn tími var til þess að fara á sjúkrahús. Ég vona að hann hafi átt góðan afmælisdag með mömmu en þau eru stödd erlendis. Ég er voðalega heppin með foreldra mína, hefði ekki getað fengið betri jafnvel þótt að ég hefði fengið að velja þá sjálf!

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com