Svefnleysi og annað stress
Ohoo, ég svaf ekkert í nótt. Ástæðan: Tveir spriklandi krakkaormar upp í rúmi hjá mér. Nýjársbomban var í trylltum stríðsdansi hálfa nóttina og prinsessan var eitthvað óróleg. Allir vöknuðu samt þvílíkt sprækir nema ég. Ég leit í spegil og fékk áfall. Ekki alveg upp á mitt besta... vægast sagt. Nú er því gott að geta tekið smá lúr áður en að ég held áfram að skrifa.
Ykkur að segja þá eru súkkulaðibitakökurnar búnar og lakkrístopparnir hálfnaðir. Fékk góða hjálp í gær en Egill Orri kom með mömmu sinni í heimsókn. Held að honum hafi alveg fundist smákökurnar mínar góðar sko. Held að ég prófi vanilluhringi næst.
Ég verð nú að viðurkenna að ég er dálítið stressuð yfir efnahagsástandinu. Næ suma daga að ýta þessu frá mér en svo koma fréttir af því að enginn vilji lána okkur pening nema við borgum skrilljónir. Finnst tilhugsunin að skuldsetja okkur óhóflega til framtíðar ekkert sérstaklega sjarmerandi. Eru fleiri stressaðir yfir þessu en ég?? En... ýta þessum hugsunum frá.... jólin á næsta leyti og svona. Hlakka ekkert smá til að hengja upp jólaskraut og jafnvel skella mér á fyrsta jólaballið í laaaaaaaaaaaaaangan tíma. Herdís María er alveg að fíla Adam átti syni sjö og Göngum við í kringum. Fín svona lög þar sem að er látbragð.
Í kvöld hef ég skráð mig á konfekt-námskeið. Það verður vonandi gaman.
Efnisorð: Barnahjal, Daglegt líf
<< Home