Fæðingarsagan okkar
Í mæðraskoðun þann 13. september 2007 sá Hafdís ljósan okkar að legvatnið var farið að leka. Reyndar hafði mig grunað það þar sem að ég var hriplek alla vikuna en á mánudeginum höfðum við farið niðrá Skaga og þá mældist ekki legvatnsleki heldur millibelgjavatnsleki. Nú Hafdís ljósmóðir mældi útvíkkun sem að var ennþá 2 og hringdi svo niður á Skaga og tilkynnti komu okkar. (Þegar að um legvatnsleka er að ræða er maður settur af stað ef að hríðir fylgja ekki í kjölfarið.) Við Einar sátum bara þarna hjá ljósunni og störðum á hana þegar að hún sagði að við myndum eignast barn þá um kvöldið eða næsta dag! Nú við fórum heim og tókum okkur til og brunuðum svo niður á Skaga. Þar tók yndisleg ljósmóðir á móti okkur hún Elín Sigurbjörnsdóttir og innritaði okkur. Setti mig svo í mónitor og allt leit vel út. Nú hún sagði okkur að reyna að sofa vel um nóttina og að ég yrði sett af stað næsta morgun. Einar fékk líka að sofa og mér fannst það æði. Nú um nóttina var ég með slæma túrverki en náði samt að sofa ágætlega. Einar svaf eins og steinn :) Við vöknuðum kl 8 og fengum okkur morgunmat og svo fórum við inn á fæðingarstofu þar sem að Elín setti upp dripp sem að var aukið á 15 mín. fresti. Á milli 9 og 12 jukust hríðarnar en voru svo sem ekki óbærilegar. Í hádeginu var borin fram dýrindis steik og Einar þvílíkt sáttur. Ég hins vegar var farin að finna verulega fyrir hríðunum og hafði enga matarlist. Þarna var ég komin með 3 í útvíkkun og leghálsinn alveg fullþynntur. Kl. 12:20 fékk ég HÖRKU-sótt eins og ljósan okkar kallaði það. Drippið var ekki einu sinni komið í botn og ég var gjörsamlega að farast og með glaðloftið á fullu. Minna en ein mínúta á milli hríða og þær stóðu lengi yfir. Kl. 13 var útvíkkun komin í 4 og kl 14 var ég komin með 8-9 í útvíkkun. Einhvern tímann á þessu tímabili kom svæfingalæknir og gaf mér deyfingu. Ljósan ráðlagði mér eindregið að fá hana og ég treysti henni fullkomnlega. Það var unaður að fá þessa deyfingu. Ég fann ennþá fyrir hríðunum en þær voru svo miklu veikari og ég gat hvílt mig aðeins. Klukkan 14:55 var útvíkkun búin og kollur fullsnúinn og kl. 15:10 fékk ég að rembast. Ég þurfti ekki að rembast lengi því litlan kom út kl. 15:26. Stúlkan okkar fór að skæla og var skellt á mömmu sína sem var alveg bara "hey, hver etu þú litla sæta??" Einar klippti svo á strenginn og við vorum alveg í skýjunum, klökk og glöð.
Þessi fæðing gekk rosalega vel. Mér blæddi voðalega lítið og spöngin alveg heil. (ath. spangarolían er óopnuð inn í skáp!!) Litlan fór svo í hitakassa í 2 klst. og fékk svo að koma inn á svítu til foreldranna þar sem að við sváfum öll saman fyrstu nóttina. Vil líka taka það fram hvað stuðningur Einars skipti rosalega miklu. Ég hefði ekki komist í gegnum erfiðustu hríðarnar án hans.
Jæja svona var fæðingarsagan okkar. Ég mæli með þessu ;) ;) ;)
ps. það er kominn linkur á prinsessuna hérna til hægri.
pps. TAKK ÆÐISLEGA fyrir allar kveðjurnar og heillaóskirnar. Prinsessan á bauninni hlakkar til að sjá ykkur og knúsa!!!
Efnisorð: meðganga
<< Home