Haust og fyrirvaraverkir
Já það er komið haust. Rigningin hérna í Borgarnesi var lárétt í dag og regnið dynur á rúðunum hérna í Klettinum. Þá er gott að kúra upp í sófa með kertaljós, vatnsglas og kókosbollu!! Já ég er með æði fyrir kókosbollum og búin að smita Einsa. (Til að friða samviskuna vegna kókosbolluátsins þá elduðum við fisk í kvöldmatinn.)
Ég hreinlega elska haustið. Þá fer daginn að stytta og kvöldin koma snemma með öll sín kósýheit. Haustlitirnir prýða landið og það verður sérstaklega fallegt hérna í Borgarfirðinum. Nú svo fer að styttast í jólin. Gaman, gaman.
Í sl. viku fórum við Einar niðrá Skaga og skoðuðum fæðingadeildina. Okkur leist ekkert smá vel á hana. Þar eru tvær fæðingastofur, baðkar, hjónasvíta og svo fín herbergi fyrir sængurleguna. Hjúkkan sýndi okkur sogklukku, glaðloftstækið, útskýrði hvernig útvíkkun er mæld, fræddi okkur um nálastungur og fleiri verkjameðferðir. Þetta var rosalega fróðlegt og fínt að hafa farið svona áður og skoðað aðstæður. Skrýtið að hugsa til þess að ég eigi eftir að vera emjandi þarna á annarri fæðingastofunni innan fárra vikna!
Ég held að ég sé komin með fyrirvaraverki. Ég fæ samdrátt í kúluna og svo þrýsting niður í leg sem að leiðir út í bak. Er það ekki fyrirvaraverkur? Ekkert óbærilegur sársauki en samt frekar óþægilegt.
Ég er farin að undirbúa málflutninginn næsta föstudag. Ég er að stefna Íslenska ríkinu fyrir hönd einhvers kalls sem að telur sig eiga inni orlof hjá Vegagerðinni. Vonandi að maður geti staðið þarna í skykkjunni og flutt þessa ræðu án þess að þurfa að pissa eða setjast út af samdráttum ;)
Birna vinkona gifti sig á laugardaginn. Ég er svakalega svekkt að hafa ekki komist en brúðkaupið var á Egilstöðum svo ég hélt mig heima. Frétti að það hefði verið æðislegt og brúðhjónin voru stórglæsileg! Rosa flottar myndir :) Innilega til hamingju Birna mín.
Afmælisbarn dagsins er svo Marín. Marín mágkona átti afmæli 3. september (það er víst kominn 4. sept núna) og óska ég henni, barninu, til hamingju með að vera komin í fullorðinna manna tölu :) Marín er gjafmild, góð, sæt og rosaleg dugleg og klár stelpa. Eiríkur bróðir er heppinn að hafa náð í hana. Svo ungar hún út eins og henni sé borgað fyrir það, ekki amalegt það Eikibro!! :):) Takk fyrir gjöfina frá því í gær, Marín. Te-ið og lavenderdótið á eftir að koma sér vel og ég er þegar byrjuð að blaða í bókinni. (veit að bókin er samt bara í láni;)
Jæja læt þetta gott í bili og ætla að reyna að sofna. Einar er löngu sofnaður en ég ákvað að blogga eftir eina klósettferðina.
Efnisorð: Afmælisbarn dagsins, Daglegt líf, meðganga, Skóli
<< Home