Surprise partý!!
Surprise partýið hans pabba gekk vel. Við krakkarnir + tengdabörn + krílin biðum eftir mömmu og pabba þegar að þau komu heim frá útlöndum sl. laugardagskvöld. Við vorum búin að plana dýrindis kvöldverð og kaupa gjöf og láta yrkja um kallinn. Þegar að hann mætti á svæðið skáluðum við í kampavíni og gáfum honum blómvönd. Ég hélt smá ræðu og las upp nokkrar vísur sem að Unnur Halldórsd. vinkona samdi. Við gáfum honum svo bronsörn en þá styttu (risastór og mjög þung) hafði pabbi látið sig dreyma um í dálítinn tíma. Svo fengum við okkur humar í forrétt, nokkrar vísur í viðbót lesnar upp, átum lambafillet, nokkrar vísur lesnar upp og enduðum í súkkulaðiköku og ferskum berjum. Svo var kaffi og koníak á boðstólnum. Unnur samdi mjög flottar og skemmtilegar vísur um hann og ég bætti þremur vísum inní. Hér koma herlegheitin:
Eiríkur Briem 60 ára 30. janúar 2008
Í Svíaríki afmælið sitt hentugt er að halda
sú hagræðing ku takmörkuðum óþægindum valda.
Pabbi okkar upplifði þar ánægjuna ríka
en ekki skal hann sleppa, við viljum party líka.
Vatnsberinn í heimahúsi í janúar er fæddur,
fallegur og hraustur, mörgum kostum gæddur
Í Snekkjuvogi í uppvextinum átti góða daga
yfir árangri á landsprófi ekki þurfti að klaga.
Hjá ættingjum í Svíþjóð sumrunum hann eyddi
og sitt af hverju þroskandi af dvölinni þar leiddi
Hann týndist nú í “Molli”, löggan fékk að leita
ja, leikföng eru seiðandi , þvi er ekki að neita.
Um þrældóminn í sveitavinnu kappinn heyrist klaga
þar kepptist hann og svitnaði langa sumardaga.
Tíu ára guttinn hljóp á harðaspretti
og hraðametin daglega í fjallgöngunum setti.
Í Menntaskóla Reykjavíkur skruddurnar hann hræddi,
á sumrin svo í mælingunum fjallaslóða þræddi.
Hann er manna fróðastur um Íslands landafræði
bara ef nú boðið í Meistarann hann þæði. (MHB)
Yngismeyju himneska hann hitti á Austurvelli
og heim til sín í Snekkjuvoginn bauð henni í hvelli.
Hann þurfti ekki að erfiða né elta hana á röndum
enda svaka gæi sem kunni að ganga á höndum.
Á námsárum í Linköping frumburðurinn fæddist,
og faðirinn svo stoltur með veggjum ekki læddist
Á göngutúr með barnavagninn brjóstið út hann þandi
bleyjur þvoði líka og hafði allt í standi.
Í Breiðholti nú byggt var hús,
og bráðlega kom lítil mús.
Beint í fang til pabba sem huggar
gengur um gólf, hossar og ruggar. (MHB)
Fjölskyldan í Neðstabergi, síðan festi rætur,
fæddur var þá sonur og yndislegar dætur.
Fyrir sína fjölskyldu hann faðir okkar lifir
fóðrar vel og skaffar og hlýðir börnum yfir.
Kraftana í garðinum karlinn líka sýndi,
af kappi gróf hann holur og grjótið þunga tíndi.
Blómarækt í Selvogsgrunni bærilega gengur
og bústaður í Nesjum, það er mikill fengur.
Um pólitík og hlýnun jarðar feðgar gjarnan ræða,
Hinir eiga í erfiðleikum lambalær´að snæða.
á fótbolta hann horfir ef Poolararnir leika,
og skellir svo á vinina ef spurt er eftir Eika. (MHB)
Rafmagnsveitufjármálum faglega hann stýrir
og fjárhaginn hjá Landsneti verðbólgan ei rýrir.
Á starfssviði hans pabba síns farsællega fetar
því forfeðurna, Briemara, kann hann vel að meta.
Í knattspyrnunni Frammara hann faðir okkar styður,
og fer núna í Laugar, svo vigtin þokist niður.
Fréttasjúkur morgunhani, grillmeistari góður
um gang mála í Leiðarljósi afskaplega fróður.
Með mömmu hefur ástfanginn æviveginn gengið,
yndislega krakka og tengdabörnin fengið.
Afastráka flotta og frökenina fínu
Já, farsæll er hann pabbi í einkalífi sínu.
Á afmælinu fær hann nú heillaóskir hlýjar
hamingjan mun fylgja honum inn á tuginn nýja.
Innst í okkar hjörtum sú hugsun er á sveimi
að hann sé alveg örugglega besti pabbi í heimi.
UH (og MHB)
Efnisorð: Afmælisbarn dagsins
<< Home