VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

24.5.06

Hvað skal kjósa?

Ég ákvað að kíkja á helstu stefnumálin fyrir komandi kosningar. Helstu áherslur flokkanna skv. heimasíðum þeirra er í stórum dráttum svipaðar en þó er áherslumunur. Segjast verður að Sjálfstæðisflokkurinn er með “raunhæfustu/ódýrustu” stefnuskrána þ.e. þeir lofa ekki gjaldfrjálsum leikskóla né niðurfellingu á öllum gjöldum í grunnskóla. Ekki lofa þeir því heldur að það verði frítt í strætó. Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir eru með skýrustu stefnuna í skipulagsmálum og Frjálslyndir eiga vinninginn í flugvallarmálinu (ég nenni ekki einu sinni að minnast á ruglið í Framsókn). Hvað varðar aldraða þá greinir nokkuð á milli framboða. Í samgöngumálum sýnist mér Samfylkingin hafa vinninginn. Sjálfstæðisflokkurinn talar t.d. hvergi um strætó en það er bráðnauðsynlegt að bæta leiðarkerfið. Hins vegar er Sjálfstæðisflokkurinn ef til vill raunhæfastur hvað varðar Miklubrautina.
Vinstri grænir eru með “fallegustu” stefnuna en það kemur ekki nægilega skýrt fram hjá þeim hvernig fjármögnun skuli háttað. (hækka skatta?) VG leggur einnig áherslu á jafnréttismál og umhverfið í meiri mæli en hin framboðin. Framsókn er klárlega með “vitlausustu” stefnuna en þeir mega eiga það að það er hægt að hlægja að henni!
Nú svo er það náttúrulega fólkið á bak við málefnin! Hvern vill maður sjá sem borgarstjóra??? Og hverjum treystir maður best til að gera Reykjavík að betri borg?

Leikskólinn
VG:
Vill gjaldfrjálsan leikskóla og stefnir að því að leikskólinn verði að fullu gjaldfrjáls á næsta kjörtímabili.
Sjálfstæðisflokkurinn: Boðar almenna gjaldskrárlækkun í öllum borgarreknum leikskólum, 25% 1. september 2006.
Foreldrar greiði aldrei fyrir fleiri en eitt barna sinna sem dvelja á leikskóla samtímis. Sérstakar smábarnadeildir í leikskólum. Gæsluvellir verði opnaðir á ný.

Samfylkingin: Vill gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum, fjölga leikskólaplássum fyrir yngsta aldurshópinn. Vannýtta gæsluvelli má nýta til að hýsa samrekstur áhugasamra dagforeldra.
Framsókn: Gjaldfrjáls leikskóli fyrir öll börn frá 18 mánaða aldri og uppbyggingu smábarnadeilda í leikskólum Greiða foreldrum barna yngri en 18 mán. 50 þúsund krónur á mánuði og brúa þannig bilið þar til leikskólavist fæst.
Frjálslyndir: Gjaldfrjáls leikskóli fyrir börn frá 2ja ára aldri og efla dagforeldrakerfið vegna þess að það sé gott fyrir börn að vera í smærri hópum meðan þau eru innan við eins árs aldur.

Grunnskólinn
VG:
Vill útrýma allri gjaldtöku úr grunnskólunum, þ.m.t. vegna skólamáltíða.
Sjálfstæðisflokkurinn: Vill raunverulegt val um skóla bæði hvað varðar rekstrarform og staðsetningu. Heilsuátak í öllum grunnskólum, þar sem öllum börnum verður m.a. tryggð heit gæðamáltíð í hádeginu sem aldrei skal kosta meira en nestisgjald.
Samfylkingin: Vill draga úr miðstýringu í menntakerfinu og auka sjálfstæði einstakra skóla til að móta eigin aðferðir og áherslur.
Framsókn: Vilja skólabúninga, hollustuna á oddinn og sálfræðiþjónustu inn í skólana.
Frjálslyndir: Engin skólagjöld og frelsi skóla til að velja sér skólastefnu og valfrelsi foreldra til að velja skóla aukið.

Aldraðir
VG: vill að velferðarþjónustan sé rekin á samfélagslegum grunni enda sýni reynslan að einkavæðing hennar er iðulega á kostnað jafnaðar og félagslegs réttlætis og er þar að auki dýrari = enga einkavæðingu.
Sjálfstæðisflokkurinn: vill gera eldri borgurum kleift að búa á eigin heimili svo lengi sem þeir kjósa og efla og samræma heimaþjónustu og heimahjúkrun
Lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði
Gera stórátak í byggingu hjúkrunarheimila í samvinnu við ríkið og byggja 200 þjónustu- og leiguíbúðir fyrir eldri borgara.
Samfylkingin:Vill að öll málefni aldraðra verði færð til sveitarfélaganna og bæta þannig þjónustuna með þvi að
efla heimaþjónustu og heimahjúkrun, byggja fleiri hjúkrunarheimili. Vilja þjónustutryggingu. Sem þýðir: Ef þjónustan dregst óeðlilega skapast réttur til greiðslu.
Framsókn: Tryggja rétt aldraðra til einkalífs og ókeypis í strætó fyrir þá.
Frjálslyndir: Lækka fasteignaskatta aldraðra og öryrkja og gera þeim kleift að búa í sínu eigin húsnæði. Fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimaþjónustu.

Skipulagsmál
VG: Skipulagsmál eru umhverfismál.
Sjálfstæðisflokkurinn: Geldinganes: Fyrstu lóðum úthlutað á árinu 2007, íbúafjöldi getur orðið um 10 þúsund. Vatnsmýri: Flugvellinum verði fundinn annar staður á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu lóðunum úthlutað utan helgunarsvæðis flugvallar i byrjun árs 2008. Íbúafjöldi getur orðið um 8 þúsund. Örfirisey: Skipulagi fyrir 1. áfanga eyjabyggðar verði lokið árið 2008, íbúafjöldi getur orðið um 6 þúsund.
Samfylkingin: Vill hefja undirbúning að flutningi flugvallarins úr Vatnsmýri á næsta kjörtímabili og vill vinna að því að 6000 íbúðir og sérbýli af öllum stærðum og gerðum rísi í Reykjavík á næstu árum, á Slippasvæðinu, í miðborginni, við Elliðaárvog, í Úlfarsársdal, Vatnsmýri og við Hlemm.
Framsókn: vill úthluta 1200 sérbýlislóðum. Í desember á þessu ári verður úthlutað 600 lóðum fyrir sérbýli í Úlfarsárdal.Í maí 2007 verður úthlutað 400 sérbýlislóðum til viðbótar í Úlfarsárdal. Í desember 2007 verður úthlutað 200 sérbýlislóðum í Úlfarsárdal. Flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík en færður út á Lönguskerin.
Frjálslyndir: Í Vatnsmýri á að rísa öflugt vísinda- og þekkingarþorp og flugvöllurinn á að vera þar áfram.

Samgöngumál
VG:
vill stórauka og bæta hlutdeild almenningssamgangna, svo og gangandi og hjólandi umferðar.
Sjálfstæðisflokkurinn: Vill Sundabrautina alla leið upp á Kjalarnes i einum áfanga.
Mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og vill leggja Miklubraut í stokk að hluta þar sem byggðin er næst

Samfylkingin: vill fjölgun samgönguæða til borgarinnar og frá með Öskjuhlíðargöngum og Sundabraut alla leið upp á Kjalarnes. Vilja öflugar almenningssamgöngur og setja Miklubraut í stokk og tryggja öruggar göngu- og hjólaleiðir í öllum hverfum.
Framsókn: Sundabraut. Botngöng á ytri leið. Fjórar akreinar alla leið upp á Kjalarnes.Miklabraut lögð undir Kringlumýrarbraut og þannig greitt fyrir umferð á hættulegustu gatnamótum landsins. Vatnsmýrin. Aðgengi að Vatnsmýri tryggt til framtíðar með Öskjuhlíðargöngum
Frjálslyndir: Sundabraut verði lögð á ytri leið, eins fjarri íbúabyggð og mögulegt er. Sundabraut verði í göngum með góðum tengingum við stofnbrautakerfi borgarinnar. Fyrsti áfanginn verði í göngum undir Elliðavog með uppkomu við Gufunes. Þá taki við brú yfir Eiðisvík í Geldinganes, til að varðveita viðkvæma náttúru og lífríki við Blikastaðakró, en þar fari Sundabraut aftur í göng undir Leiruvog með uppkomu í Víðinesi og loks á brú yfir Kollafjörð.
Frítt í strætó fyrir börn, ungmenni, aldraða og öryrkja. Hraðvagnar aki á milli hverfa og eftir aðalleiðum en fari ekki um íbúðahverfin.

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com