VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

22.9.06

Íranskar konur

Í gær fór ég í bíó (hérna á Bifröst) og sá mjög athyglisverða heimildarmynd "Divorce Iranian Style".
Í myndinni er fylgst með írönskum konum sem vilja lögskilnaði við eiginmenn sína.
Allar götur síðan 1979, eða þegar íslamska byltingin átti sér stað í Íran, hafa ákvæði sjaría laganna verið í gildi í Íran um hjúskaparrétt. Undir slíku kerfi er mjög erfitt fyrir konur að losna úr hjónabandi. Í því felst að til þess að konur geti fengið skilnað þá verður eiginmaðurinn annaðhvort að vera getulaus eða geðveikur! Báða þessa hluti er erfitt að sanna.
Mér fannst myndin mjög áhugaverð. Ég þekki persónulega ekki mikið til íransks samfélags en Magnús Þorkell Bernharðsson, sem sagður er sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, telur myndina veita góða innsýn í íranskt samfélag, um réttarfarið þar og stöðu kvenna. Hann tók samt fram (og ég horfði á myndina með því hugarfari) að þarna átti í hlut fólk sem að sjálfsögðu var tilfinningaríkt og í vissri geðshræringu. Það var jú að skilja. Þessi tilfinningahiti væri því ekki eins ríkjandi hjá fólki við aðrar aðstæður eins og gefur að skilja.
Í myndinni er fylgst með átökum hjóna í réttarsal dómara í Teheran og það sem að mér fannst athyglisverðast við myndina var það að giftingin er samningur milli manns og konu. Guð kemur þar málinu ekkert við. Samningurinn getur falið í sér alls kyns hluti, allt frá útivistartíma eða gjöfum til þessara venjubundnu heita. Til að mynda sömdu hjón á staðnum um að maðurinn yrði meira heima og sinnti konunni sinni betur. Þegar að það var komið á hreint og undirritað þá féll konan frá kröfu sinni um skilnað.
Mér fannst líka merkilegt hvað konurnar sem að komu fram í myndinni voru ákveðnar og líktust ekkert þeirri mynd sem oft er dregin upp af konum í Mið-Austurlöndum, þ.e. kúguðu þöglu konunni. Þær börðust af kjafti og klóm fyrir lögskilnaði eða forræði yfir börnum sínum. Mennirnir virkuðu oft á tíðum hálf utanveltu.
Að sama skapi blasti óréttlátt réttarkerfi við og mikið virðingarleysi fyrir rétti kvenna. Jafnrétti er ekki inn í myndinni. Eiginmaður getur skilið við konu sína hvenær sem er en eiginkona þarf að sanna getuleysi eða geðveiki eiginmannsins! Fyrir byltinguna 1979 var dæmt eftir lögum, líkum þeim sem að eru í Sviss, en nú er jafnrétti ekki fyrir hendi. Þannig varð á einu andartaki gjörbreyting á réttarkerfinu á kostnað kvenna. Það skiptir ekki máli hvort að konan sé óhamingjusöm, frelsi hennar til ákvarðana um sitt eigið líf er verulega takmarkað. Lögin eru karlmanninum í vil enda ráðamenn strangtrúaðir klerkar. Eftir myndina voru svo líflegar umræður um íranskt samfélag og gaman að sjá hve margir voru á myndinni og spurðu spurninga að henni lokinni.
Ég mæli hiklaust með þessari mynd ef að þið viljið sjá góða heimildarmynd.

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com