Sjötta sóttin
Herdís María, litla skinnið, er svakalega slöpp. Hún fékk hita sl. föstudagskvöld, sem datt niður og rauk upp með ákveðnu millibili. Við fjölskyldan sváfum því lítið aðfaranótt laugardags. Útskriftin hennar Katrínar var svo á laugardeginum. Herdís María var hitalaus og við brunuðum í bæinn. Útskriftin var glæsileg, Katrín var rosalega sæt í nýja útskriftarkjólnum sínum með nýju klippinguna og allir í miklu stuði. Herdís María var í stuði fyrst um sinn en svo varð hún lítil í sér og ég mældi hana og litla greyið var þá komin með hita aftur. Við ákváðum að gista í Selvogsgrunni og nóttin var strembin. Lítil heit og sveitt dama grét og kjökraði á milli foreldranna. Okkur var hætt að lítast á blikuna kl 7 á sunnudagsmorgninum og hringdum á læknavaktina. Við vorum kölluð inn og læknirinn á læknavaktinni sendi okkur á bráðamóttöku barna á Landspítalanum. Þar fór Herdís í alls konar test og stóð sig eins og hetja. Sem betur fer kom allt gott út úr testunum og um enga bakteríusýkingu að ræða. Læknarnir sendu okkur heim og sögðu að Herdís María væri líklegast bara með flensu og beinverki. Nú í gær steyptist mín svo öll út í útbrotum. Hún er hitalaus en hræðilega hallærisleg með rauða flekki út um allt. Ég hringdi í lækninn og það er staðfest að hún er með Mislingabróður eða Sjöttu sóttina. Hún lýsir sér þannig að barnið fær háan hita í 2-3 daga og svo þegar að hitinn lækkar fær barnið útbrot. Þetta er veirusýking sem að gengur yfir svo ég get andað léttar. Þarf bara að fylgjast með stelpunni minni og knúsa hana xtra mikið.
Efnisorð: Barnahjal
<< Home