VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

16.4.06

Horfði á myndina um göngu Keisaramörgæsanna í gær. Hún var stórkostleg!!!! Ég hafði eitthvað heyrt um hvernig þær haga sér þarna í kuldanum en vá ekki vissi ég alla söguna... þvílíkt ótrúleg dýr!
Keisaramörgæs er ein af 17 tegundum mörgæsa sem finnast á suðurhveli jarðar og er stærst þeirra. Fullorðnir fuglar geta verið allt að 120 cm á hæð og vega 21-40 kg.... ha ha næstum jafnstór og ég :)

Atferli keisaramörgæsar er mjög frægt en kvenfuglarnir verpa eggjum og skilja þau eftir hjá karlfuglunum sem halda á þeim hita yfir veturinn, í hörðustu veðrum sem þekkjast á jörðinni, án þess að nærast. Hitastigið yfir köldustu mánuðina getur farið niður fyrir -60° C !!!! Mörgæsirnar para sig í eitt ár í senn og fer mamman að veiða og kemur til baka og finnur nákvæmlega sinn maka og sinn unga!

Stofnstærðarrannsóknir hafa sýnt að fjöldi para keisaramörgæsarinnar er á bilinu 135.000 - 175.000. Talan er ekki nákvæmari vegna ýmissa náttúrulegra sveiflna hjá keisaramörgæsinni, til dæmis vegna breytileika í fæðuframboði. Myndin var hrikalega mögnuð og aðdáunarvert að sjá mörgæsirnar passa ungana sína í öllum veðrum og vindum. Svo fór ég líka að pæla í því hversu mikið þrekvirki þessi mynd er... að fylgjast með þessum dýrum í langan tíma í þvílíkum kulda... og bíða eftir réttu skotunum. Ég á eftir að horfa á heimildarmyndina um tökurnar á myndinni og hlakka til að sjá hana.

Núna langar mig bara í eitt stykki mörgæsarbangsa til að kúra með... þær voru svo dúllulegar :)

Ég hvet ykkur eindregið að sjá þessa mynd, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com