VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

26.4.06

Miðsvæðis í Evrópu-stutt í allar áttir


Við undirrituð sáum fljótlega, eftir að við hófum nám við Viðskiptaháskólann á Bifröst, að spennandi væri að skella sér í skiptinám. Við völdum skiptinám í Þýskalandi aðallega vegna staðsetningar en háskólinn er staðsettur í frekar litlum bæ, Luneburg. Okkur þótti stærð bæjarins kostur en stutt er þó í stórborgina Hamburg. Einnig þótti okkur ekki verra að Þýskaland liggur miðsvæðis í Evrópu og því stutt í allar áttir.

Luneburg er fallegur bær og þar búa um 70 þúsund manns. Luneburg var ríkur bær á miðöldum og þar blómstraði verslun. Bæjarbúar framleiddu salt og seldu til annarra Evrópulanda og kaupmenn mökuðu krókinn. Í dag iðar miðbærinn af lífi líkt og á miðöldum. Í Luneburg eru mýmörg kaffihús og veitingastaðir, góðar verslunargöngugötur og fjöllistamenn spila og leika á götum úti. Í Luneburg er margt að skoða og eru íbúarnir stoltastir af ráðhúsinu sínu en elsti hluti þess er frá 14. öld. Skemmtanalífið í Luneburg er fjölbreytt. Við fórum t.d. í keilu flest þriðjudagskvöld, karókí á írskum pöbb á miðvikudagskvöldum og svo var gaman að skella sér á Vamos, stóran næturklúbb, á fimmtudagskvöldum. Nemendafélag Háskólans stóð líka fyrir ýmsum uppákomum, t.d. pöbbarölti, litlu jólum, campus partýum, böllum, grímudansleikjum o.s.frv. Við stóðum einnig sjálf fyrir nokkrum þemapartýum.

Meðan á dvöl okkar í Luneburg stóð bjuggum við þrjú við ólíkar aðstæður. Eitt okkar bjó inn á þýsku heimili, annað í íbúð miðsvæðis með þýskum stúdentum og það þriðja rétt fyrir utan campus. Við vorum öll ánægð með okkar húsnæði þótt ólíkt væri.

Við keyptum okkur fljótlega hjól. Í Þýskalandi eru strangar hjólareglur. Það er t.d. bannað að hjóla án ljóss á kvöldin, það verður að hjóla réttu megin götunnar, gefa stefnuljós o.s.frv. Það var því svolítið stressandi að hjóla fyrst en þetta kom allt með kalda vatninu. Það var einstaklega gaman að hjóla niðrí bæ á miðvikudags- og laugardagsmorgnum því þá var markaður á Ráðhústorginu. Þar kenndi ýmissa grasa: ávextir, grænmeti, blóm, hnetur, pylsur og ýmislegt annað í boði. Luneburg er einnig þekkt fyrir árlegan jólamarkað. Þá safnast fólk saman, drekkur heitt vín og röltir á milli sölubása.


Hamburg er í 30 mínútna fjarlægð frá Luneburg. Þar er hægt að versla, skoða ýmislegt og djamma. Vert er að minnast á 2 kirkjur. St. Nikolai kirkja, var sprengd í seinni heimstyrjöldinni og rústir hennar standa nú sem minnisvarði. Kirkjan er sótsvört og minnir einna helst á draugakirkju. Sótlyktin var mjög sterk sem að kom okkur á óvart þar sem að meira en hálf öld er liðin frá því að hún var sprengd upp. Hin kirkjan sem að við sáum var St. Michaelis kirkja en það er frægasta barokk kirkja N-Evrópu. Hún var byggð 1751-1762. Í Hamburg er fjöldi búða og margir veitingastaðir. Einnig er mikið stuð að djamma þar en hægt er að enda djammið á Fiskmarkaði, einum elsta markaði Þýskalands, en hann opnar kl 5 á morgnana.

Allan septembermánuð vorum við í þýskunámi en “alvöru” námið hófst ekki fyrr en í október. Námið fór allt fram á ensku. Við tókum áfanga í viðskiptafræði og lögfræði og fannst uppbygging námsins þægileg þótt stundum hefðum við viljað hafa örlítið meira að gera. Áföngunum lauk flestum með kynningum og það ætti ekki að vefjast fyrir Bifrestingum. Þar sem að tímasókn var ekki ýkja mikil náðum við ferðast talsvert. Við skelltum okkur t.d. til Munchen á Októberfest. Það var mjög gaman að aka suður Þýskaland á glænýjum Audi. Októberfest var staðsett í miðri Munchen, eitt stórt tívolí með sölubásum og bjórtjöldum. Annar hver maður var dauðadrukkinn! En okkur þótti merkilegt að sjá hvergi slagsmál, varla orðaskak!

Eina helgina skelltum við okkur 9 saman til Amsterdam. Þar fórum við á Heineken safnið, Van Gogh safnið og í Rauða hverfið. Já, þar er sko hægt að fara úr hámenningunni í lágmenninguna! Við skemmtum okkur konunglega í Amsterdam og upplifðum ýmislegt sem að líklegast telst ekki prenthæft. Við fórum líka í skólaferðalag til Berlínar. Við hófum ferðina á lestarstöðinni í Luneburg. Ville, finnski strákurinn, mætti þangað klukkan 3 um nóttina með Vodka flösku og auka sett af nærbuxum, til í tuskið! Við hin mættum klukkan 9 með heilmikinn farangur og ókum sem leið lá til höfuðborgar Þýskalands. Í Berlín er margt að sjá. Við byrjuðum á því að skoða Berlínarmúrinn. Múrinn (eða múrarnir, því þeir voru tveir) var reistur 1961 í kjölfar þess að 10% Austur-Þjóðverja höfðu flúið til V-Þýskalands í gegnum V-Berlín. Í stað þess að hörfa frá pólitísku skipulagi sem að fólk var augljóslega óánægt með þá reistu stjórnvöld bara múr. Það var virkilega átakalegt að sjá múrinn með berum augum og skynja þjáningu svo margra vegna hans. Við fórum einnig á söfn, skoðuðum Check point Charlie og Brandenburgar hliðið, fórum í verslunarleiðangra og sáum Carmen í Berlínaróperunni.

Við ferðuðumst einnig til Rómar, Parísar, Köben, Mílanó, Svíþjóðar og London því mjög ódýrt er að fljúga með Ryan Air til helstu borga Evrópu.

Dvöl okkar í Þýskalandi var ólýsanlega skemmtileg. Þar eignuðumst við góða vini sem að við söknum sárt. Við kynntumst nýrri menningu og öðrum siðum, ferðuðumst um Evrópu og skemmtum okkur konunglega. Dvöl okkar í Þýskalandi var einn stór skóli og við munum búa að reynslunni ævilangt. Við mælum hiklaust með skiptinámi í Luneburg og vildum óska að við gætum endurtekið ævintýrið

MajBritt, Ömmi og Bjarki

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com