Hugleiðingar um fóstureyðingar
Hugmyndin um réttinn til lífs hefur verið fyrirferðarmikil í umræðum um fóstureyðingar. Flestir virðast aðhyllast réttinn til lífs í einni eða annarri mynd. Hins vegar er afstaða fólks til þessarar hugmyndar mismunandi. Flestir eru á því að dráp á hvítvoðungum sé siðferðislega rangt því börn hafi rétt til lífs. Deilurnar snúast því meðal annars um hvenær börn öðlist þennan rétt. Sumir myndu segja að þau öðlist réttinn til lífs við getnað og enn aðrir þegar að okfruman hefur fests í slímhúð konu. Sumir telja að fóstrið öðlist ekki rétt til lífs fyrr en það getur lifað utan kvenlíkama meðan enn aðrir telja fóstur ekki öðlast réttinn fyrr en við fæðingu. Burt séð frá því hvenær að fóstur telst vera manneskja þá eru flestir sammála um að fóstureyðingar séu réttlætanlegar að uppfylltu því skilyrði að þungunin ógni heilsu eða lífi móður. Þeir lífsverndarsinnar sem að ganga einna lengst í andstöðu sinni gegn fóstureyðingum telja það skilyrði þó ekki nægja, þungunin verði að ógna lífi móður og þeir sem að eru hvað harðastir í afstöðu sinni leyfa ekki undir neinum kringumstæðum að fóstri sé eytt. Ég get að mörgu leyti tekið undir rök lífsverndarsinna um að fóstur sé mannvera og rétt hennar til lífs. Hins vegar þá tel ég ekki annað hægt en að taka tillit til þess hvort að réttur til lífs sé alltaf mikilvægastur. Ég get ekki verið tilbúin til þess að taka réttinn til lífs, alltaf, fram yfir t.d. almenna velferð, nauðganir og félagslega bágar aðstæður. Það er einnig ómögulegt að taka afstöðu til fóstureyðinga án þess að tengja þær jafnréttisbaráttu. Staða kvenna er á mörgum stöðum ansi bágborin og ekki annað hægt en að líta til hins félagslega þáttar.
Á málþingi um réttarheimildir sem haldið var á Bifröst 31. október sl. fjallaði Skúli Magnússon dósent við Lagadeild Háskóla Íslands um meginreglur laga. Þar nefndi hann dæmi hvernig meginreglur um gildi lífsins og sjálfákvörðunarrétt vegast á. Í dæmaskyni nefndi hann Hæstaréttardóm frá árinu 1974. Þar kom fram í máli meirihluta dómara að það væri meginregla íslensks réttar að fóstur mætti ekki deyða. Hins vegar taldi minnihlutinn nauðsynlegt að túlka ófullkomin ákvæði eftir réttarþörf á hverjum tíma. Löggjöf um fóstureyðingar hefur tekið breytingum í átt að frekara frjálsræði frá því að fyrrnefndur dómur var kveðinn upp. Löggjöfin hefur því tekið breytingum í takt við tíðarandann. Þetta segir okkur meðal annars að þegar löggjafinn hyggst setja löggjöf um umdeild siðferðisleg málefni, þá standi hann frammi fyrir ákveðnum vanda. Á réttarþróun að fylgja samfélaginu? Verður meirihluti þegnanna ekki að vera sammála löggjafanum hvað varðar löggjöf um t.d. fóstureyðingar? Hvernig getur löggjafinn tekið afstöðu til siðferðilegra atriða við löggjöf, siðferðilegra atriða sem menn eru ekki sammála um? Burt sé frá fyrrnefndum þáttum tel ég mikilvægt að halda siðferðilegu réttmæti fóstureyðinga aðskildu frá lögmæti þeirra.
Mér dettur núna í hug ákveðin bíómynd. Kvikmyndin fjallaði um þungaðar konur sem allar veltu fóstureyðingu fyrir sér. Konurnar lifðu á mismunandi tímum, félagsleg staða þeirra var ólík og efnahagur þeirra mismunandi. Margir ólíkir þættir spiluðu stórt hlutverk við mat þeirra á því hvort að fóstureyðing væri réttlætanleg. Ég tel að þegar að rætt er um löggjöf um fóstureyðingar vakni oft álitamál er varða annað en siðfræðilegt réttmæti þeirra. Vandamál sem viðkoma t.d. læknisfræðilegum þáttum, efnahagsmálum, jafnréttisbaráttu og trúarskoðunum. Þannig tel ég það mikla einföldun að halda því fram að sá sem að sé fylgjandi fóstureyðingum virði á engan hátt líf ófædds barns og sá sem að sé andvígur fóstureyðingum virði rétt konu til ákvarðana um líf sitt að vettugi.
Efnisorð: heimspeki og já lífið, Hugleiðingar um pólitík
<< Home