VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

20.3.09

Systrafréttir

Nú er Þóra Guðrún orðin 11 vikna og Herdís María 18 mánaða. Í tilefni af því fóru þær í skoðun í ungbarnaeftirlitinu. Það er óhætt að segja að það hafi tekið tímann. Fyrst var Þóra Guðrún vigtuð og lengdarmæld og allt í góðu þar. Hún hafði þyngst vel frá 9 vikna skoðun en þá hafði hún ekki þyngst neitt frá 6 vikna skoðuninni út af veikindum. Þóra Guðrún var 5.265 gr. og 60 cm. Þóra Guðrún brosti mikið til Írisar hjúkku sem hafði orð á því hversu mannaleg og glaðleg ÞG væri. Herdís María hafði nú varla tíma í þessar mælingar, hún var svo bissí að leika sér og vesenast þarna allsber. Henni var samt skellt á vigtina og daman var 8.990 gr. 9 kg. múrinn sem sagt ekki rofinn enn! Hún hafði hins vegar lengst um 6 cm frá síðustu skoðun (14 mánaða) og er orðin 79 cm. Hjúkkunni fannst hún ekki vera að þyngjast neitt brjálæðislega vel en við foreldrarnir höfum nú alveg heyrt þá vísu kveðna. Hún bætti hins vegar upp fyrir þyngdina með stanslausum skemmtiatriðum fyrir lækninn og hjúkkuna en þau skellihlógu að henni. Svo fékk hún 18 mánaða sprautuna sína og kveinkaði sér varla.

Þegar að Þóra Guðrún var 6 vikna fékk hún RS vírusinn. Þrjár vikurnar þar á eftir voru strembnar því litla ÞG átti erfitt með svefn og drakk illa. Herdís María var líka með slæman hósta og barnalæknirinn gaf okkur púst til að hjálpa þeim. Pústið virkaði strax á HM sem að lagaðist fljótlega en ÞG hóstaði í 3 vikur en er núna hin hressasta.

Herdís María er farin að sofa í sínu eigin rúmi og herbergi. Pabbi hennar fór inn með hana 17,5 mánaða og setti í rimlarúmið. Herdís María grét eins og ég veit ekki hvað og teygði hendurnar í áttina að pabba sínum og þrýsti andlitinu milli rimlanna stokkbólgin og voteygð. Já þetta tók á pabbann en hann gafst ekki upp. Það tók nokkur kvöld að venja hana við. Fyrstu kvöldin spurðum við hana hvar hún ætti að lulla og þá arkaði hún alltaf rakleiðis að hjónaherberginu. Þá sögðum við nei þú átt að lulla í þínu herbergi. Þá hengdi hún haus og lallaðist inní sitt herbergi. Núna hefur hún sofið í sínu herbergi í 2 vikur og allt gengið vel. Við foreldrarnir söknum hennar samt pínu því HM er svo mikill kúrari. Hún hefur samt komið uppí um 6 leytið á morgnana í nokkur skipti og þá fær mamman kúrið sitt :)

Þóra Guðrún er lögð í vögguna sína kl. 22 á kvöldin og sofnar sjálf enn sem komið er. Hún ambrar aðeins en mamman stingur bara snuddunni aftur upp í hana og strýkur henn og þá sofnar hún fljótt. Við ætlum að reyna að halda þessu áfram með hana og venja hana ekki á millið eins og stóru systur. Það er bara svo gott að hafa þessi kríli upp í hjá sér að það er svakalegt.

Herdís María er farin að segja mörg orð og skilningurinn mikill. Nýjustu orðin eru bíll, auga og húfa og sparar hún þau ekki. Svo er hún á nei tímabilinu og segir hástöfum nei þegar að hún vill ekki eitthvað. Í bílnum á leiðinni heim áttum við þetta spjall við hana:

Mamma: Herdís María viltu fara heim?

Herdís María: NEI!

Mamma: viltu fara til ömmu?

Herdís María: NEI!

Mamma: viltu fara til afa?

Herdís María: DAAAAAA AFA.... (Da er já)

Það er ekki að spyrja að því en daman dýrkar afa sína :)

Jæja nóg í bili af heimasætunum í Arnarkletti.

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com