VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

30.4.06

Ég lifi leiðinlegu lífi þessa dagana þ.e. próf-lífi... ég hef því ekki frá miklu að segja nema... jú annars Eurovision!!! Horfði á fyrstu tvo þættina "upphitun Norðurlanda" og skemmti mér konunglega. Já ég er svag fyrir söngvakeppnum og spurningakeppnum. Bestu lögin að okkar, hérna í Selvogsgrunni, mati eru Rússland (haba haba... sjá mynd) og Belgía þ.e. af þeim lögum sem að komin eru. (við erum svo commersíal hérna að það er ekkert lítið) Rosalega eru sum lögin og myndböndin samt fyndin. Þetta er hin besta skemmtun, ég segi það satt. Svo er mjög skemmtilegt að hlusta á Eurovision-spekingana kommenta á lögin... Eiríkur Hauks alveg að standa sig.... reyndar fíla ég ekki alveg þennan nýja Dana... hann blaðrar út í eitt!! En aftur að lögunum... þau verstu og hallærislegustu eru án efa Albanía (afarnir taka dans á sundlaugarbakka, sjá mynd til hægri), Hvít Rússland (gellan reynir að syngja á ensku en er illkskiljanleg), Kýpur (sílíkonbrjóst er það eina sem að ég man), Írland (þetta lag á að vera cry for love en ætti frekar að vera cry for help), Tyrkland (úff) og Pólland (hvað var málið með rauðu hárkolluna!!!).

Og meðan ég man þá eru hér aprílmyndir

|

28.4.06

Kosningar

Horfði á Kastljósið í gær. Þar voru oddvitar allra framboðanna í Reykjavík samankomnir til að ræða um daginn og veginn, aðallega veginn. Ég veit ekki hver ástæðan er en það virðist sem svo að pólitískur áhugi minn fari dvínandi með hverjum kosningum. Kannski er ég bara orðin almennt áhugalausari eða kannski hef ég bara heyrt þetta kvabb einum of oft.
Það sem að mér fannst merkilegt í þessari umræðu var það að VG og xbé menn virðast ekkert kannast við R-listann og það er því allt Samfylkingunni að kenna sem að úrskeiðis hefur farið á valdatíma R-listans. Í annan stað var sorglegt að heyra xbé röfla um flugvöll á Lönguskerjum sem að er ein fáránlegasta hugmynd sem að fyrirfinnst (og ég veit aksjúallí hvað ég er að tala um hér, búandi í sama húsi og flugmaður) já það er dáldið seif að tala bara um Löngusker (því það er enginn að segja mér að xbé menn viti ekki að þetta er óskynsamlegt) og þurfa þar af leiðandi ekki að taka afstöðu hvort að flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Í þriðja lagi er ég þreytt á því að það sé endalaust talað um "Landsbyggðina" sem einhverja eina heild og allir sem að henni tilheyri vilji nákvæmlega það sama!
Umræðurnar kveiktu ekki í mér á neinn hátt.... og ég bíð ennþá eftir því að fá sting þegar kosningar nálgast... ég verð verulega svekkt ef að ég verð ekki spenntari en ég er nú... æ kennum bara BS um þetta!

... og er það satt að Bubbi og Hrafnhildur Hafsteins séu par??
... og nei Sigrún Hjartar hélt ekki við Runólf rektor... ég get alveg lofað ykkur því :)

Efnisorð:

|

Auglýsing

Ég auglýsi hér með eftir manninum mínum. Hann hefur verið týndur i 10 ár. Allar vísbendingar um veru hans eru velþegnar.

Efnisorð:

|

26.4.06

Elsku blogglesendur mínir... eruði til í að taka þátt í þessu með mér???:
http://kevan.org/johari?name=Vanillagirl
þið eigið sem sagt að velja það sem að ykkur finnst passa við mig ... þá get ég séð hvort að sjálfsímynd mín sé alveg hreint út úr kú... nú svo er maður náttla líka svo sjálfhverfur og elskar að láta aðra fjalla um sig hehe...

|

Miðsvæðis í Evrópu-stutt í allar áttir


Við undirrituð sáum fljótlega, eftir að við hófum nám við Viðskiptaháskólann á Bifröst, að spennandi væri að skella sér í skiptinám. Við völdum skiptinám í Þýskalandi aðallega vegna staðsetningar en háskólinn er staðsettur í frekar litlum bæ, Luneburg. Okkur þótti stærð bæjarins kostur en stutt er þó í stórborgina Hamburg. Einnig þótti okkur ekki verra að Þýskaland liggur miðsvæðis í Evrópu og því stutt í allar áttir.

Luneburg er fallegur bær og þar búa um 70 þúsund manns. Luneburg var ríkur bær á miðöldum og þar blómstraði verslun. Bæjarbúar framleiddu salt og seldu til annarra Evrópulanda og kaupmenn mökuðu krókinn. Í dag iðar miðbærinn af lífi líkt og á miðöldum. Í Luneburg eru mýmörg kaffihús og veitingastaðir, góðar verslunargöngugötur og fjöllistamenn spila og leika á götum úti. Í Luneburg er margt að skoða og eru íbúarnir stoltastir af ráðhúsinu sínu en elsti hluti þess er frá 14. öld. Skemmtanalífið í Luneburg er fjölbreytt. Við fórum t.d. í keilu flest þriðjudagskvöld, karókí á írskum pöbb á miðvikudagskvöldum og svo var gaman að skella sér á Vamos, stóran næturklúbb, á fimmtudagskvöldum. Nemendafélag Háskólans stóð líka fyrir ýmsum uppákomum, t.d. pöbbarölti, litlu jólum, campus partýum, böllum, grímudansleikjum o.s.frv. Við stóðum einnig sjálf fyrir nokkrum þemapartýum.

Meðan á dvöl okkar í Luneburg stóð bjuggum við þrjú við ólíkar aðstæður. Eitt okkar bjó inn á þýsku heimili, annað í íbúð miðsvæðis með þýskum stúdentum og það þriðja rétt fyrir utan campus. Við vorum öll ánægð með okkar húsnæði þótt ólíkt væri.

Við keyptum okkur fljótlega hjól. Í Þýskalandi eru strangar hjólareglur. Það er t.d. bannað að hjóla án ljóss á kvöldin, það verður að hjóla réttu megin götunnar, gefa stefnuljós o.s.frv. Það var því svolítið stressandi að hjóla fyrst en þetta kom allt með kalda vatninu. Það var einstaklega gaman að hjóla niðrí bæ á miðvikudags- og laugardagsmorgnum því þá var markaður á Ráðhústorginu. Þar kenndi ýmissa grasa: ávextir, grænmeti, blóm, hnetur, pylsur og ýmislegt annað í boði. Luneburg er einnig þekkt fyrir árlegan jólamarkað. Þá safnast fólk saman, drekkur heitt vín og röltir á milli sölubása.


Hamburg er í 30 mínútna fjarlægð frá Luneburg. Þar er hægt að versla, skoða ýmislegt og djamma. Vert er að minnast á 2 kirkjur. St. Nikolai kirkja, var sprengd í seinni heimstyrjöldinni og rústir hennar standa nú sem minnisvarði. Kirkjan er sótsvört og minnir einna helst á draugakirkju. Sótlyktin var mjög sterk sem að kom okkur á óvart þar sem að meira en hálf öld er liðin frá því að hún var sprengd upp. Hin kirkjan sem að við sáum var St. Michaelis kirkja en það er frægasta barokk kirkja N-Evrópu. Hún var byggð 1751-1762. Í Hamburg er fjöldi búða og margir veitingastaðir. Einnig er mikið stuð að djamma þar en hægt er að enda djammið á Fiskmarkaði, einum elsta markaði Þýskalands, en hann opnar kl 5 á morgnana.

Allan septembermánuð vorum við í þýskunámi en “alvöru” námið hófst ekki fyrr en í október. Námið fór allt fram á ensku. Við tókum áfanga í viðskiptafræði og lögfræði og fannst uppbygging námsins þægileg þótt stundum hefðum við viljað hafa örlítið meira að gera. Áföngunum lauk flestum með kynningum og það ætti ekki að vefjast fyrir Bifrestingum. Þar sem að tímasókn var ekki ýkja mikil náðum við ferðast talsvert. Við skelltum okkur t.d. til Munchen á Októberfest. Það var mjög gaman að aka suður Þýskaland á glænýjum Audi. Októberfest var staðsett í miðri Munchen, eitt stórt tívolí með sölubásum og bjórtjöldum. Annar hver maður var dauðadrukkinn! En okkur þótti merkilegt að sjá hvergi slagsmál, varla orðaskak!

Eina helgina skelltum við okkur 9 saman til Amsterdam. Þar fórum við á Heineken safnið, Van Gogh safnið og í Rauða hverfið. Já, þar er sko hægt að fara úr hámenningunni í lágmenninguna! Við skemmtum okkur konunglega í Amsterdam og upplifðum ýmislegt sem að líklegast telst ekki prenthæft. Við fórum líka í skólaferðalag til Berlínar. Við hófum ferðina á lestarstöðinni í Luneburg. Ville, finnski strákurinn, mætti þangað klukkan 3 um nóttina með Vodka flösku og auka sett af nærbuxum, til í tuskið! Við hin mættum klukkan 9 með heilmikinn farangur og ókum sem leið lá til höfuðborgar Þýskalands. Í Berlín er margt að sjá. Við byrjuðum á því að skoða Berlínarmúrinn. Múrinn (eða múrarnir, því þeir voru tveir) var reistur 1961 í kjölfar þess að 10% Austur-Þjóðverja höfðu flúið til V-Þýskalands í gegnum V-Berlín. Í stað þess að hörfa frá pólitísku skipulagi sem að fólk var augljóslega óánægt með þá reistu stjórnvöld bara múr. Það var virkilega átakalegt að sjá múrinn með berum augum og skynja þjáningu svo margra vegna hans. Við fórum einnig á söfn, skoðuðum Check point Charlie og Brandenburgar hliðið, fórum í verslunarleiðangra og sáum Carmen í Berlínaróperunni.

Við ferðuðumst einnig til Rómar, Parísar, Köben, Mílanó, Svíþjóðar og London því mjög ódýrt er að fljúga með Ryan Air til helstu borga Evrópu.

Dvöl okkar í Þýskalandi var ólýsanlega skemmtileg. Þar eignuðumst við góða vini sem að við söknum sárt. Við kynntumst nýrri menningu og öðrum siðum, ferðuðumst um Evrópu og skemmtum okkur konunglega. Dvöl okkar í Þýskalandi var einn stór skóli og við munum búa að reynslunni ævilangt. Við mælum hiklaust með skiptinámi í Luneburg og vildum óska að við gætum endurtekið ævintýrið

MajBritt, Ömmi og Bjarki

Efnisorð:

|

24.4.06


Hrista af sér slenið !!!

Já nú þýðir ekkert annað en að hrista af sér slenið... 1, 2 og 3 og koma svo! Ég er nefninlega orðin morkin yfir BS-skrifum og Kata skvís er horfin ofaní lífrænan pytt hérna á móti mér! Gærdagurinn var ekki nógu góður lærdómslega séð, ég var hálf slöpp og náði ekki að einbeita mér en í morgun vaknaði ég fyrir allar aldir (í mínum kokkabókum er það kl 8) og byrjaði að læra sem sagt klukkkustund fyrr en ég vakna venjulega, klapp klapp... nú svo er ræktin eitt þessara tækja til að hrista af sér slenið en það er staðreynd að manni gengur betur að læra ef að maður hleypur af sér spikið á hverjum degi... og já mín ætlar náttúrulega að vera ómótstæðileg á útskriftinni sinni.
Ég er sem sagt farin að spá alvarlega í útskriftardressi, hef reyndar ekki skellt mér í búðir ennþá en efst á óskalistanum eru MJÖG háhælaðir bandaskór og rómantískur blúndu/silkikjóll í svona ´30 stíl.. svo langar mig í laaaaaanga perlufesti .... já það er gaman að láta sig dreyma... veit sko ekki alveg hvar ég á að finna þetta dressl mitt??? Einhverjar hugmyndir?
Nú svo er það veisla eða ekki veisla?? Ég hef nú ákveðið að fara beint í mastersnám og var að pæla í því hvort að ég ætti að sleppa veislunni núna og hafa eina stóra þá?? Hvað finnst ykkur?



Efnisorð:

|

21.4.06

já hvað haldiði.. það er komið sumar enda er rigining úti! Ég sit í borðstofunni heima og við stóran suðurglugga og það er sunnanátt og regnið dynur á rúðunum. Ég kveikti á kerti og hef það kósý, ritgerðin komin í tæp 11.000 orð og fótnóturnar komnar vel yfir 300... já ég er ekki kölluð fótnótudrotting fyrir ekki neitt! Ég er sem sagt ekki í neinu sumarskapi akkúrat núna heldur í svona "skrif-próf-kósý-skapi" ef að þið kannist við það?

Í gær var ég hins vegar í sumarskapi en við grilluðum lax og með því og fögnuðum komu sumarsins. Tumi er að fara að upplifa sitt fyrsta sumar og virtist hann mjög spenntur hehe..
Mikið rosalega er ég samt farin að hlakka til að skila þessari ritgerð og klára þetta próf. 9. maí......... get ekki beðið!




Já og í pásum drekk ég Pepsi Max og surfa á fasteignavefnum... komin í Kópavoginn núna, margar flottar íbúðir þar, og farin að skoða Volvo bíla... samt ekki með neinu parketi sko þ.e.a.s bílarnir :)

en allaveganna GLEÐILEGT SUMAR!!!!! (einum degi of seint!)

Efnisorð:

|

19.4.06

Um páskana lögðum við systur land undir fót og drifum okkur austur fyrir fjall. Foreldrar hans Sverris eru að byggja bústað með dyggri hjálp Sverris sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að bústaðurinn er svona miðaldabústaður! Það er t.d. ekki einn einasti nagli í honum og hann er allur í útskurði og með gamaldags hurðum og þannig... hann er alveg meiriháttar flottur og á sér engann sinn líkan ... ja nema kannski Auðunarstofu.. en pabbi hans Sverris byggði hana líka.
Það var meiriháttar að koma og fá að skoða og bústaðurinn er mikil listasmíði. Við grilluðum líka og átum góðan mat saman við langborð og horfðum á eldinn í kamínunni. Yndislegt!

Efnisorð:

|

18.4.06

Íbúðarmál, dúnsokkar og Jens

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér íbúðarkaupum upp á síðkastið. Ég vil kaupa mér íbúð sem að er nýuppgerð í húsi sem að vel er við haldið eða þá nýja íbúð í nýju húsi. Ég er til dæmis núna mjög heit fyrir Bryggjuhverfinu í Reykjavík, finnst það mjög smart hverfi og margar íbúðanna þar henta mér vel, held ég? Ég hef mikinn áhuga á hönnun og þess konar hlutum og hef þegar innréttað "draumaíbúðina" í huganum en það eru nokkrir hlutir sem að ég mun kaupa mér þegar að ég flyt inn í nýtt húsnæði... en á meðan að ég læt mig dreyma um nýja flotta íbúð sit ég og læri.. og nú hef ég ákveðið að halda áfram og verða lögfræðingur og svo lögmaður. Held að draumar mínir séu bara að rætast hvað þetta allt varðar :) Maður verður nú á grænni grein.. orðinn lögfræðingur í íbúð í Bryggjuhverfinu...keyrandi um á já hverju????? BMW! Ætli maður verði ekki uppi í lagi.... en þið sem þekkið mig vitið nú að ég er snobbuð á góðan hátt..... ég veit hvað skiptir mestu máli og það er ekki dýra húsið og bíllinn ónei..... bara svo við höfum það alveg á hreinu!

Annars er þetta nýja æðið hjá mér:
Svona dúnsokkar... en það er rosalega kósý að liggja í þeim upp í sófa og horfa á tv. Ég þjáist nefninlega af miklum fótkulda og finnst þvílíkt gott að hafa svona dúnsokka til að hlýja táslunum....Eigiði svona?

Annars er Jens frændi að spá í viðskiptalögfræðinni uppá Bifröst og ég samþykkti með glöðu geði að vera meðmælandi hans á umsókninn hans. Ef að hann ákveður að skella sér þangað mun hann skemmta sér konunglega, á því er enginn vafi :)


Efnisorð:

|

16.4.06

Horfði á myndina um göngu Keisaramörgæsanna í gær. Hún var stórkostleg!!!! Ég hafði eitthvað heyrt um hvernig þær haga sér þarna í kuldanum en vá ekki vissi ég alla söguna... þvílíkt ótrúleg dýr!
Keisaramörgæs er ein af 17 tegundum mörgæsa sem finnast á suðurhveli jarðar og er stærst þeirra. Fullorðnir fuglar geta verið allt að 120 cm á hæð og vega 21-40 kg.... ha ha næstum jafnstór og ég :)

Atferli keisaramörgæsar er mjög frægt en kvenfuglarnir verpa eggjum og skilja þau eftir hjá karlfuglunum sem halda á þeim hita yfir veturinn, í hörðustu veðrum sem þekkjast á jörðinni, án þess að nærast. Hitastigið yfir köldustu mánuðina getur farið niður fyrir -60° C !!!! Mörgæsirnar para sig í eitt ár í senn og fer mamman að veiða og kemur til baka og finnur nákvæmlega sinn maka og sinn unga!

Stofnstærðarrannsóknir hafa sýnt að fjöldi para keisaramörgæsarinnar er á bilinu 135.000 - 175.000. Talan er ekki nákvæmari vegna ýmissa náttúrulegra sveiflna hjá keisaramörgæsinni, til dæmis vegna breytileika í fæðuframboði. Myndin var hrikalega mögnuð og aðdáunarvert að sjá mörgæsirnar passa ungana sína í öllum veðrum og vindum. Svo fór ég líka að pæla í því hversu mikið þrekvirki þessi mynd er... að fylgjast með þessum dýrum í langan tíma í þvílíkum kulda... og bíða eftir réttu skotunum. Ég á eftir að horfa á heimildarmyndina um tökurnar á myndinni og hlakka til að sjá hana.

Núna langar mig bara í eitt stykki mörgæsarbangsa til að kúra með... þær voru svo dúllulegar :)

Ég hvet ykkur eindregið að sjá þessa mynd, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!

Efnisorð:

|

14.4.06

Langur föstudagur

Voðalega er eitthvað leiðinlegt veður úti. Ég og Kata skvís sitjum bara og lærum. Ég er að skrifa BS-ritgerðina mína og er einmitt núna að gera sambanburð á íslenskum raforkumarkaði við önnur lönd og Katrín teiknar upp hvarfganga!
Í dag er hollustudagur og veitir ekki af þar sem að skírdagur var einn stór sukkdagur. Einhver sem að þið kannist við var nefninlega þunnur í gær og skrifaði þar af leiðandi ekki staf í ritgerðinni sinni og át bara óhollustu út í eitt!! Miðvikudagskvöldið var mjög skemmtilegt... en þá var Tinna að fagna próflokum og Tótlan hélt partý. Hér getiði séð myndir.
Yours forever drakk 1 glasi of mikið og var í obbosslegu stuði og gerði skandala... hér eru nokkrar setningar :

-eru þetta dætur þínar? (sagt við eina í hópnum)
-eru þið tvíburar?
-þið eruð bara á undirfötunum!
-voðalega ert þú lítil!
-fyrirgefðu að ég kleip þig í rassinn en ég hélt að þú værir systir þín, þið eruð alveg eins að aftan!
-ég drekk bara spænsk rauðvín
-Tumi er YNDISLEGUR maður

Nú svo lá við slagsmálum þegar að ég var að grípa taxa heim en þá ruddist strákur fyrir framan mig .. þvílík frekja og ég varð nett sturluð! Hann reyndi þá að fá okkur með í bílinn en ég fnæsti bara og froðufellti.. DÓNI! Svona var svo stemmarinn þegar að heim var komið, ég í hláturskastinu!!!!!

Núna er sumarbústaður næstur á dagskrá. Rólegheit og afslappelsi og "löglegt" frí frá ritgerð... það þýðir hins vegar að ég verð að skrifa fram á kvöld.
P.s. Ég er búin að fá tvö páskaegg og málshættina:
-Fiskur tekur beitu en öngull fisk
-Betur vinna hyggindi en harðindi
Mér finnst þessi fyrri mjög viðeigandi þar sem að ég er að leita mér að laxi og er sko sjálf beitan... en svo er ég bara öngull ha ha ha ha... djók ... (bs að gera mig nett geggjaða)

|

12.4.06

Við hvað eruði hrædd? Ég er logandi hrædd við hákarla og rottur. Ég horfði um daginn á Jaws III og varð alveg hreint um og ó! Svo sá ég einu sinni mynd um fólk sem að flutti inn í nýtt hús með nýfætt barn sitt en milli þilja leyndist risarotta. Hún var ógeðslega viðbjóðsleg ... ég fæ rosalegan hroll núna þega að ég skrifa þetta... já og þessi risarotta var sko svöng og vildi éta mannfólk.. úff.
Ég er eiginlega meira hrædd við þessi dýr en t.d. drauga. Ég fæ nefninlega ekki svona viðbjóðshroll þegar að ég sé draugamyndir. En ég hef heldur ekki gert það upp við mig hvort að ég trúi yfirhöfuð á drauga... en ég veit að hákarlar og rottur eru til! (ekki það að ég mæti þessum kvikindum daglega). En ég trúi hins vegar á örlög. Ég veit að hver er sinnar gæfusmiður en ég held að sumt eigi hreinlega að gerast, sérstaklega hvað varðar ástina. (kannski er maður bara svona rómantískur?) Ég fékk þannig tilfinningu um daginn, hún var þvílíkt sterk og hluti af mér trúir ennþá að hún hafi verið rétt.
Hvort ætli örlög mín séu að verða étin af hákarli eða risarottu?

Efnisorð:

|

11.4.06


Eiríkur bróðir minn á afmæli í dag. Hann er orðinn 27 ára kallinn :) Já ég gæti sagt ykkur margt um hann bróður minn.. en það eina sem að ég ætla að segja í þessum pistli er að hann er SNILLINGUR! Hann lagaði tölvuna mína og hún er betri en ný í dag.... JIBBÍ!!!! Í kvöld er svo rosalegt matarboð í Njörvasundinu.... get ekki beðið eftir að knúsa afmælisbarnið :)

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ EIKIBRO!!!!!!

Efnisorð:

|

10.4.06


Ég brá undir mig betri fætinum og fór niður í miðbæ Reykjavíkur sl. laugardagskv. Ég tróð mér í partýdress og Kata skvís krullaði á mér hárið svo ég var fær í flestan sjó. Fyrst lá leiðin á æskuslóðirnar í Breiðholti þar sem að ég og Íris vinkona sötruðum hvítvín og horfðum með öðru auganu á Söngkeppni framhaldsskólanna. Ég hef varla komið upp í Breiðholt síðan að ma og pa fluttu þaðan 1996... mjög spes að vera ALLTAF einhvers staðar og svo allt í einu aldrei. Nú við vinkonurnar urðum fljótlega dáldið tipsy og tilbúnar í slaginn. Við byrjuðum á Thorvaldsen. Þar var fullt af liði og fín stemmning. Ég bjóst einhvern veginn við að staðurinn yrði fullur af útlendingum en svo var nú ekki þetta kvöldið. Fyrstan á svæðinu hittum við Sigga leikfimikennara... hann dansaði sem óður væri við okkur á dansgólfinu og vildi draga okkur á Nasa. Svo hittum við ungan mann sem að var óhræddur við að bjóða okkur í glas og ég drakk Mohijto á methraða! Nú svo hittum við annan ungan mann sem að mér leist voðalega vel á. Hann bauð mér í glas, sagðist heita Siggi og vera viðskiptafræðingur. Áður en ég vissi af var ég búin að stinga Írisi og unga manninn af og mætt á Dubliners!! með Sigga. Þar bauð hann mér upp á annan drykk og við vorum á heljarinnar trúnó. Svo segir hann allt í einu... "ég þarf að segja þér soldið, ekki vera brjáluð" "ég á sko konu" !!!!! ....ég meina það... ég starði á hann og sagði "þú heitir kannski ekki Siggi?" jú jú hann sór það og svo kom sagan um að það gengi illa á milli hans og konunnar en hann gæti ekki yfirgefið hana út af barni þeirra æ þið kannist við þessa sögu.. allaveganna hef ég heyrt hana milljón sinnum og ég gæti ælt. Jæja ég stóð upp og sagðist vera að fara á salernið... "Ætlarðu að stinga mig af?" Ég horfði blákalt á hann og svaraði "Nei, nei" og gekk beint út. Þá hitti ég Írisi aftur en hún hafði skellt sér á Nasa. Þá urðu nú fagnaðarfundir :) við vinkonurnar sameinaðar á ný og héldum við áfram að mála bæinn rauðan... fram á rauða nótt!

Efnisorð:

|

8.4.06


Loksins, loksins, loksins...... loksins vann sá sem að ég hélt með í Idolinu!!
Ég hef nefninlega alltaf haldið með þeim sem að lenti í 2. sæti eða já því 3. .... allaveganna gaman að þessu! Mér fannst úrslitin þrælskemmtileg. Snorri hafði betur að mínu mati í fyrstu umferð og eins og Sigga orðaði það svo pent þá rann ég til þegar að hann tók Robbie :) Nú í 2. umferð þá söng Ína Joplin sig upp aftur og tók þá umferð. Í lokaumferðinni sungu þau frumsamið lag og ég sver það... lagið var samið spes fyrir Snorra...!! Það hentaði honum fullkomnlega og gerði útslagið að mínu mati. Go Snorri! En vá sáuði Andreu Róberts... hún var að taka viðtal við misdapurlegt lið á Players... og spurði svo einn ágætan mann "Hvernig Idol verður svo hann Snorri?" "Nú bara svona eins og hann er á sviðinu" var svarið.... "Já, leiðinlegur" svaraði Andrea þá!!!!!!!!!!! Ég meina það.. þetta var svo hallærislegt... Nú svo söng Hildur Vala lag. Hún hefur horast svo niður greyið að mér eila bara brá. Hvað fannst ykkur? Ég fékk nett sjokk að sjá hana þarna.. svo kunni hún ekki textann á laginu sem að mér finnst mjög spes. En eins og ég segi þá var kvöldið MJÖG skemmtilegt og einhvern veginn held ég að kvöldið í kvöld gæti jafnvel orðið betra!!

Efnisorð:

|

6.4.06



Fór í sumarbústað um síðustu helgi með æskuvinkonum mínum í saumó. ( Á myndinni hér að ofan erum við í Amsterdam :) Sumarbústaðarferðin var alveg yndisleg. Við vorum í flottum bústað á Flúðum og fengum alveg hreint frábært veður. Við stoppuðum í Hveragerði og versluðum ... alveg hreint tróðum í körfurnar...

Helgin leið svo eins og í draumi. Potturinn, grill, göngutúrar, "fjall"göngur, Sex&City, slúður, Kani, G&T, bjór, freyðivín... hikk hikk ;) svefn og bara almenn yndislegheit.

Sjokk helgarinnar: Ég, Anna M og Íris í pottinum fengum þær fréttir að Silvíu Nótt hefði verið vísað úr keppni! (hvernig áttum við að vita að það væri 1. apríl)

Óheppni helgarinnar: Ólöf þegar að hún fékk höfnun á kortið sitt og síðar át einhver hraðbanki kortið hennar!!!!

Uppáhalds helgarinnar: Grillaður lax og með því.... ég át svo mikið að ég var eins og ein af þessum ófrísku!

Vonbrigði helgarinnar: Léleg drykkja! (get kennt sjálfri mér um það)

Kokkur helgarinnar: Sóley sérstaklega þegar að kakan brann ;)

Fréttir helgarinnar: Íris færði okkur þær... úff

Upprifjun helgarinnar: Þjóðhátíð í Eyjum... Margrét stoppaði Mylluna og fannst í úldinni peysu ;)

Efnisorð:

|

5.4.06

  1. Ytri maður: Ljóshærður, sætur, ekki alveg í formi, köflótt skyrta. Innri maður: hress, fyndinn, djammari, menntaður
  2. Ytri maður: Dökkhærður, bóhemtýpa, feitlaginn, úlpa. Innri maður: leikhúsmaður, listamaður, óöruggur, feiminn
  3. Ytri maður: Skolhærður, í formi, karlalegur, jakkaföt. Innri maður: vel menntaður, fjárhagslega vel stæður, metnaðargjarn, rólegur
  4. Ytri maður: Rauðhærður, kjútt, lítill, gleraugu. Innri maður: gáfumenni, vel menntaður, óöruggur, fróður, skemmtilegur
Hver af ofantöldum týpum finnst ykkur passa við mig?????


Rannsóknarlögreglumaðurinn í Kópavogi hafði aftur samband við mig... hann heitir samt ekki Erlendur...... væri alveg til í að hann héti Sigurður Óli (finnst hann svona virka dáldið sætur)
Þar sem að rannsókn er ekki lokið get ég ekki ljóstrað upp neinu sem að viðkemur þessu máli enn sem komið er..... get þó sagt ykkur það að ég verð ekki fangelsuð í kjölfarið.

Efnisorð:

|

4.4.06

Good times, bad times.....

Ég hef tekið eftir því í gegnum tíðina að þegar að eitthvað slæmt gerist þá gerast oft nokkrir slæmir hlutir í einu og það sama ef að eitthvað gott gerist.... hafiði tekið eftir þessu?
Núna er slæmur tími hjá mér:
-Tölvan mín er ennþá í steik
-Rannsóknarlögreglan í Kópavogi vill eiga við mig orð
-Ég fékk lægstu einkunn sem að sögur fara af fyrir verkefni í INCL
-Ég hef verið slöpp og veik
-Ég hef verið leið og tekið upp nafnið Blúsína
-Ég datt í hummus
-Ég hef ekki efni á þeim bílum sem að mig langar í
-Ég er óvenju blönk
-Ritgerðin gengur hægt
Ég bíð spennt eftir næsta góða tíma......

Efnisorð:

|

3.4.06

Ýmislegt

Í þessum pistli verður smá gagnrýni á Kaffibrennsluna, Te og kaffi og veitingastaðinn í IKEA.
Ég fór á deit ekki alls fyrir löngu og við völdum að hittast á Kaffibrennslunni. Þetta var á eftirmiðdegi og þess vegna var tilvalið á fá sér köku. Ég fékk mér 2falda súkkulaðiköku og gat valið mér rjóma eða ís með. Hann valdi sér peacan-pie með ís. Kökurnar voru báðar mjög góðar og sneiðarnar rosalega ríflegar... eila ofstórar ef að eitthvað er... ég fékk líka jarðarber með minni sneið og gat ekki fyrir mitt litla líf klárað skammtinn minn. Svo fékk ég mér líka swiss mocca. Niðurstaðan:
Kaffibrennslan: *** (núna er ég að gefa fyrir kökur ekki mat) þjónustan var fín og kökurnar góðar og stórar sneiðar, hins vegar sýndist mér þetta vera soldið dýrt.

Nú ég fór líka á deit á Te og kaffi (mætti halda að ég byggi í Amríku) og þá fékk ég mér líka köku. Í það skiptið varð ostakaka fyrir valinu og fengum við okkur bæði það sama. Ostakakan var mjög góð en þjónustan frekar hæg.. verðið var skárra en á Kaffibrennslunni Niðurstaða:
Te og kaffi: *** (hér er líka bara verið að tala um kökur)

Nú við Katrín og Sverrir röltum í gegnum IKEA ekki alls fyrir löngu. Vorum svo allt í einu voða svöng og ég fór í 1. skipti inn á matsölustaðinn þar. Ég fékk mér beyglu, Katrín samloku og Sverrir sænskar kjötbollur. Kjötbollurnar voru bestar og ekkert varið í þetta brauð. Sænsku kjötbollurnar hjá ma og pa voru samt svo þúsund sinnum betri. Þetta er náttla svona mötuneyti og kannski ekki sanngjarnt að bera þetta saman við matsölustað... hins vegar verð ég að segja að ég held að ég kaupi mér bara pulsu við útganginn næst þegar að ég verð svöng í IKEA. Niðurstaða:
IKEA: *

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com