VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

29.9.07

Vippum bara brjóstinu út

Brjóstagjöfin gengur vel og já alls staðar. Maður vippar bara brjóstinu út alls staðar og fyrir framan alla. Allt í einu eru brjóstin bara "matur" en ekki eitthvað tengt kynferði. Sæi mig í anda taka brjóstið út fyrir framan Magga bróður hans Einars og Emma vin hans undir öðrum kringumstæðum. En af því að maður er með barn á brjósti þá er ok að vippa brjóstinu bara si svona út. Litla kella spyr svo sem heldur ekki hvar við séum þegar að hún er svöng.

Efnisorð: ,

|

28.9.07

Bæjarferð

Mikið er gaman að fá vinkonur sínar í heimsókn. Sigga og Diljá voru að fara rétt í þessu og Tinna kíkti við í gær. Litlan fékk fullt af pökkum. Ég bakaði skúffuköku eins og sannri húsmóður sæmir og Einsi gerði mexikanska ídýfu. Svo er ég mikið að velta því fyrir mér að fara með Einari í bæinn á morgun. Hann er að fara á fund og mig langar svo í heimsókn með litluna til afa og ömmu. Hún verður 2ja vikna á morgun, haldiði að það sé ekki fínu lagi að kíkja með hana í heimsókn?

Efnisorð: ,

|

26.9.07


Fallega stelpan okkar.
Það eru komnar nýjar myndir á síðuna hennar. Við læstum síðunni, endilega sendið póst á mig majb@bifrost.is ef að þið viljið fá leyniorðið.
Posted by Picasa

Efnisorð:

|

24.9.07

Lífið er brjóstagjöf

Ég get ekki neitað því, eins yndislegt og þetta barnastúss er, þá eru þetta þvílíku viðbrigðin. Maður er bara með eitt lítið viðhengi allan daginn. Litlan mín er líka brjóstasjúk (eins og flest börn get ég mér til) og vill súpa og sofa á brjóstinu ALLAN daginn ;) Í morgun kom hjúkka og skoðaði hana og það munar litlu að fæðingarþyngd sé náð. Gott mál. Daman kúkar reglulega og tottar snuddu svona þegar að henni hentar. Hún er þegar farin að vefja foreldrunum um fingur sér og fær að lulla upp í hjónarúmi allar nætur.
Á laugardagskvöldið eldaði Einar lambafillet handa okkur. Daman var mjög tillitsöm og leyfði okkur að eiga rómantíska kvöldstund meðan að hún svaf á sínu græna. Ég drakk 3 sopa af rauðvíni!! Ekki bragðað neitt áfengt síðan í janúar thank you very much. Yfir dinnernum ákváðum við svo nafn á litluna en það verður leyndó fram í nóvember. Það hefur verið töluverður gestagangur undanfarna daga og prinsessan fengið margt fallegt.
Nú svo eru Marín og Eiríkur búin að nefna litla kút en hann heitir Haraldur Nökkvi. Ekkert smá flott nafn. :)

Efnisorð: ,

|

23.9.07

"Bigfeet" , "Newbaby" og "Newphotos"

Þið sem átt hafið börn, stækkuðu fætur ykkar eitthvað? Fóruði upp um skónúmer??????

Nýjar myndir af prinsessunni á bauninni (sjá link til hægri)

og Eiríkur og Marín eignuðust dreng í gærkvöldi þ.e. 22. september. Allt gekk vel og allir hressir.
Innilega til hamingju með litla kall, hlakka til að hitta hann.

Efnisorð: ,

|

22.9.07

IKEA-raunir

Einn góðan veður dag fyrir mörgum vikum fórum við Einar í IKEA. Þar sáum við kommóðu sem okkur langaði í. Nú þegar að við komum á lagerinn þá var okkur sagt að hún væri í pöntun. Hún var sem sagt ekki til. Nokkru síðar ákváðum við að kíkja aftur og tékka á kommóðunni. Nei ekki var hún til en þá var okkur sagt að við gætum skráð okkur og fengið sms þegar að hún kæmi. Við gerðum það. Nú viku síðar fengum við sms og við brunuðum í bæinn til að kaupa kommóðuna. En nei nei... hún var ekki til! Nú við skráðum okkur enn eina ferðina og fengum þær ráðleggingar að hringja þegar að við fengjum sms til að athuga hvort að kommóðan væri ekki örugglega komin! Nú á fimmtudaginn fengum við sms og hringdum og jú jú kommóðan var komin. Pabbi fór og keypti hana og foreldrar Einars brunuðu með hana upp eftir. Nú þegar að við opnuðum pakkningarnar þá VANTAÐI leiðbeiningarnar. Nú voru góð ráð dýr... en Einar fann sem betur fer leiðbeiningar á netinu. Reyndar þurfti hann að skrá okkur á IKEA-FANS síðu.....! Nú svo tók heillangan tíma að setja gripinn saman. Þegar að Einar kom að skúffunum tókum við eftir skemmd á 2 skúffum!!! Ég er ekki að djóka.... svo Sverrir og Katrín þurftu að taka þær með sér í bæinn til að skipta þeim. Finnst ykkur þetta eðlilegt??? Stórfelldur pirringur er vægt til orða tekið!!

Efnisorð:

|

21.9.07

Mjólkurbú Flóamanna

Já, nú má hún Dolly fara að vara sig!
Nú er það ekki bumban fyrst og svo ég, heldur .... brjóstin fyrst og svo ég! Litlan er samt dugleg að tæma og framleiðslan er greinilega komin á fullt því hún hefur ekki undan.

Fyrstu dagarnir heima hafa verið dásamlegir. Einar er í feðraorlofi og við erum bara að kynnast litlu snúllunni okkar og knúsum hana svo mikið að hún veit hvorki upp né niður :) Mikið rosalega er góð lykt af nýburum og þau eru svo mjúk... alveg yndislegt.

Skrokkurinn minn er svona óðum að jafna sig en mér líður svona hálfpartinn eins og ég sé lurkum lamin. Hafi verið á hestbaki í nokkra daga eða eitthvað! En talandi um Dolly og hesta. Þá var ég að spila "I will always love you" fyrir prinsessuna, flottustu útgáfuna af þessu lagi með henni Dolly. Svo þegar að hún vaknar ætlum við að dansa við "Nine to five" :) :) :)

Efnisorð: ,

|

20.9.07

Fæðingarsagan okkar

Í mæðraskoðun þann 13. september 2007 sá Hafdís ljósan okkar að legvatnið var farið að leka. Reyndar hafði mig grunað það þar sem að ég var hriplek alla vikuna en á mánudeginum höfðum við farið niðrá Skaga og þá mældist ekki legvatnsleki heldur millibelgjavatnsleki. Nú Hafdís ljósmóðir mældi útvíkkun sem að var ennþá 2 og hringdi svo niður á Skaga og tilkynnti komu okkar. (Þegar að um legvatnsleka er að ræða er maður settur af stað ef að hríðir fylgja ekki í kjölfarið.) Við Einar sátum bara þarna hjá ljósunni og störðum á hana þegar að hún sagði að við myndum eignast barn þá um kvöldið eða næsta dag! Nú við fórum heim og tókum okkur til og brunuðum svo niður á Skaga. Þar tók yndisleg ljósmóðir á móti okkur hún Elín Sigurbjörnsdóttir og innritaði okkur. Setti mig svo í mónitor og allt leit vel út. Nú hún sagði okkur að reyna að sofa vel um nóttina og að ég yrði sett af stað næsta morgun. Einar fékk líka að sofa og mér fannst það æði. Nú um nóttina var ég með slæma túrverki en náði samt að sofa ágætlega. Einar svaf eins og steinn :) Við vöknuðum kl 8 og fengum okkur morgunmat og svo fórum við inn á fæðingarstofu þar sem að Elín setti upp dripp sem að var aukið á 15 mín. fresti. Á milli 9 og 12 jukust hríðarnar en voru svo sem ekki óbærilegar. Í hádeginu var borin fram dýrindis steik og Einar þvílíkt sáttur. Ég hins vegar var farin að finna verulega fyrir hríðunum og hafði enga matarlist. Þarna var ég komin með 3 í útvíkkun og leghálsinn alveg fullþynntur. Kl. 12:20 fékk ég HÖRKU-sótt eins og ljósan okkar kallaði það. Drippið var ekki einu sinni komið í botn og ég var gjörsamlega að farast og með glaðloftið á fullu. Minna en ein mínúta á milli hríða og þær stóðu lengi yfir. Kl. 13 var útvíkkun komin í 4 og kl 14 var ég komin með 8-9 í útvíkkun. Einhvern tímann á þessu tímabili kom svæfingalæknir og gaf mér deyfingu. Ljósan ráðlagði mér eindregið að fá hana og ég treysti henni fullkomnlega. Það var unaður að fá þessa deyfingu. Ég fann ennþá fyrir hríðunum en þær voru svo miklu veikari og ég gat hvílt mig aðeins. Klukkan 14:55 var útvíkkun búin og kollur fullsnúinn og kl. 15:10 fékk ég að rembast. Ég þurfti ekki að rembast lengi því litlan kom út kl. 15:26. Stúlkan okkar fór að skæla og var skellt á mömmu sína sem var alveg bara "hey, hver etu þú litla sæta??" Einar klippti svo á strenginn og við vorum alveg í skýjunum, klökk og glöð.
Þessi fæðing gekk rosalega vel. Mér blæddi voðalega lítið og spöngin alveg heil. (ath. spangarolían er óopnuð inn í skáp!!) Litlan fór svo í hitakassa í 2 klst. og fékk svo að koma inn á svítu til foreldranna þar sem að við sváfum öll saman fyrstu nóttina. Vil líka taka það fram hvað stuðningur Einars skipti rosalega miklu. Ég hefði ekki komist í gegnum erfiðustu hríðarnar án hans.
Jæja svona var fæðingarsagan okkar. Ég mæli með þessu ;) ;) ;)

ps. það er kominn linkur á prinsessuna hérna til hægri.

pps. TAKK ÆÐISLEGA fyrir allar kveðjurnar og heillaóskirnar. Prinsessan á bauninni hlakkar til að sjá ykkur og knúsa!!!

Efnisorð:

|

19.9.07


Svissneska súkkulaðibaunin okkar....

......er komin í heiminn. Hún mætti á svæðið kl 15:26 þann 14. september. Algjör skvísa, nett, fíngerð og algjör dama. Við erum að springa, við erum svo stolt. Fæðingin gekk rosalega vel og allir stóðu sig eins og hetjur. Prinsessan okkar var 13,5 merkur og 50 cm og allt gengur eins og í sögu.


Nánari upplýsingar á nýju síðunni hennar hér

Efnisorð:

|

12.9.07

Big Love

Sit hérna fyrir framan tv og er að horfa á einhvern fjölkvænisþátt. Ekki alveg að ná honum. Þetta er sem sagt um mann sem að er giftur 3 konum og á með þeim einhvern slatta af börnum. Nú konurnar eru allar vinkonur og elska hvor aðra (það er alltaf að koma fram í þættinum). Nú yngsta eiginkonan er 5 árum eldri en sonur elstu eiginkonunnar og þeirra samband er eitthvað of náið að því er elstu eiginkonunni finnst. Á meðan þær þ.e. eiginkona 1 og 3 rífast um það eru eiginmaðurinn og eiginkona nr. 2 í einhverju fjölkvænissamfélagi (í heimsókn held ég) og já gerðu það undir þvotti (að mér sýndist). Samt snýst þátturinn og sambönd þeirra ekki um kynlíf heldur bara BIG LOVE... hvernig getur fólk horft á svona?? Þetta er svo óraunverulegt og þetta er bókað eini þátturinn sem að ég á eftir að horfa á.
En núna er Oprah að byrja, það kalla ég alvöru sjónvarpsefni!!!!!!

Í dag á mamma mín afmæli. Ég vona að hún eigi góðan dag. Ég veit að pabbi ætlar að dekra við hana í kvöld ;)

Efnisorð:

|

11.9.07

Posted by Picasa 37. vikur

Efnisorð:

|

....ég er hagstæð!....

jæja þá er maður að skríða í 38 vikur. Lífið gengur fínt og skólinn "kláraðist" á föstudaginn. Núna er bara eitt stykki mastersritgerð eftir. Um helgina fór ég í fótanudd og spa með Dill og það var yndislegt. Fékk svona svakalega fínar tær. Á laugard.kvöldinu, eftir fordrykk hjá Sóleyju, fórum við í æskusaumó út að borða á DOMO. Stelpurnar pöntuðu sér sushi og fengu að smakka ostrur en ég ólétta konan varð að horfa á... þ.e. ostruátið.... ég sjálf pantaði mér nautakjöt sem að smakkaðist líka svona rosalega vel. Ameríkanar á næsta borði splæstu kokteilum á stelpurnar og kvöldið var í alla staði velheppnað.
Í gær fórum við Einar niðrá Skaga, ég hélt að ég hefði kannski misst vatnið þá um nóttina, en það kom í ljós að þetta var ekki legvatn heldur eitthvað annað. Millibelgjavatn var líklegasta niðurstaðan. Í skoðuninni kom þó í ljós að ég er komin með 2 í útvíkkun og leghálsinn velþynntur og barnið alveg skorðað. Ljósan reyndi að "dúa" því en það var alveg pikkfast í grindinni. Nú svo var manni skellt í mónitor. Ein blaðka mældi hjartsláttinn og önnur samdrætti. Hjartslátturinn var í kringum 130-140 en jókst í samdrætti. Ég fékk einn nokkuð kröftugan samdrátt en alveg verkjalausan og nokkra minni. Ljósan sagði að ég væri mjög hagstæð... skv. línuritinu hehe. Nú við fórum svo heim og héldum jafnvel að það væri eitthvað að fara að gerast. Ljósan svona gaf það í skyn. En nóbb... ekkert að gerast. Baunin sparkar bara og sprellast, þvílíkt ánægð með lífið þarna inni. Soldið svekkjandi svona "false alarm"... væri alveg til í að eitthvað væri að fara að gerast.

Efnisorð:

|

6.9.07


Eiríkur Tumi

Já litli vesenisgangurinn á afmæli í dag. Orðinn 2ja ára! Ég óska honum innilega til hamingju með daginn. Hann er bestastur. Nú verður hann bráðum stóri bróðir og stóri frændi. Hann á eftir að standa sig vel í því. Góða skemmtun í dag, við í Borgarnesi sendum þér STÓRT knús og milljón kossa.

Efnisorð: ,

|

5.9.07

Á sama tíma að ári... eða þannig...
Í september 2004 var ég á Portúgal að slaka á. Geggjað útsýni.

Í september 2005 var ég í Róm. Hér er ég hjá Fountain Trevi. Óskabrunnur!
Í september 2006 var ég í Genf, ung og ástfangin hehe....
Og hvar er ég í september 2007??? Í Borgarnesi, nafla alheimsins...... með bumbu út í loftið, kókosbollu í kjafti og að læra!!! Ohhh lífið gæti ekki verið betra !!!!!



Efnisorð: ,

|

4.9.07

Haust og fyrirvaraverkir

Já það er komið haust. Rigningin hérna í Borgarnesi var lárétt í dag og regnið dynur á rúðunum hérna í Klettinum. Þá er gott að kúra upp í sófa með kertaljós, vatnsglas og kókosbollu!! Já ég er með æði fyrir kókosbollum og búin að smita Einsa. (Til að friða samviskuna vegna kókosbolluátsins þá elduðum við fisk í kvöldmatinn.)
Ég hreinlega elska haustið. Þá fer daginn að stytta og kvöldin koma snemma með öll sín kósýheit. Haustlitirnir prýða landið og það verður sérstaklega fallegt hérna í Borgarfirðinum. Nú svo fer að styttast í jólin. Gaman, gaman.

Í sl. viku fórum við Einar niðrá Skaga og skoðuðum fæðingadeildina. Okkur leist ekkert smá vel á hana. Þar eru tvær fæðingastofur, baðkar, hjónasvíta og svo fín herbergi fyrir sængurleguna. Hjúkkan sýndi okkur sogklukku, glaðloftstækið, útskýrði hvernig útvíkkun er mæld, fræddi okkur um nálastungur og fleiri verkjameðferðir. Þetta var rosalega fróðlegt og fínt að hafa farið svona áður og skoðað aðstæður. Skrýtið að hugsa til þess að ég eigi eftir að vera emjandi þarna á annarri fæðingastofunni innan fárra vikna!
Ég held að ég sé komin með fyrirvaraverki. Ég fæ samdrátt í kúluna og svo þrýsting niður í leg sem að leiðir út í bak. Er það ekki fyrirvaraverkur? Ekkert óbærilegur sársauki en samt frekar óþægilegt.

Ég er farin að undirbúa málflutninginn næsta föstudag. Ég er að stefna Íslenska ríkinu fyrir hönd einhvers kalls sem að telur sig eiga inni orlof hjá Vegagerðinni. Vonandi að maður geti staðið þarna í skykkjunni og flutt þessa ræðu án þess að þurfa að pissa eða setjast út af samdráttum ;)

Birna vinkona gifti sig á laugardaginn. Ég er svakalega svekkt að hafa ekki komist en brúðkaupið var á Egilstöðum svo ég hélt mig heima. Frétti að það hefði verið æðislegt og brúðhjónin voru stórglæsileg! Rosa flottar myndir :) Innilega til hamingju Birna mín.
Afmælisbarn dagsins er svo Marín. Marín mágkona átti afmæli 3. september (það er víst kominn 4. sept núna) og óska ég henni, barninu, til hamingju með að vera komin í fullorðinna manna tölu :) Marín er gjafmild, góð, sæt og rosaleg dugleg og klár stelpa. Eiríkur bróðir er heppinn að hafa náð í hana. Svo ungar hún út eins og henni sé borgað fyrir það, ekki amalegt það Eikibro!! :):) Takk fyrir gjöfina frá því í gær, Marín. Te-ið og lavenderdótið á eftir að koma sér vel og ég er þegar byrjuð að blaða í bókinni. (veit að bókin er samt bara í láni;)

Jæja læt þetta gott í bili og ætla að reyna að sofna. Einar er löngu sofnaður en ég ákvað að blogga eftir eina klósettferðina.

Efnisorð: , , ,

|

1.9.07


Rosalega eru Stelpurnar fyndnir þættir. Ég er alveg búin að grenja yfir þessum tveim fyrstu þáttum. Mér finnst eila allir sketsarnir fyndnir og Ilmur alveg hillaríus. Get eiginlega ekki gert upp á milli atriða. Mér finnst íslensku gellurnar sem að "work and work and work and are sooooo crazy" megafyndnar, sleikurinn úr Réttó, snobbhænan sem að meikaði ekki RL-vöruhús ha ha, misheppnuðu auglýsingagellurnar og æ þetta var bara allt fyndið. Svo er Friends-tvenna á undan Stelpunum svo ég er alveg að því komin að fæða af hlátri. Sem minnir mig á það að í dag er 1. september = fæðingarmánuðurinn okkar!!

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com