VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

26.9.08

Ritgerðarskrif (og með því..)

ganga hægt en ganga þó. Stefnan er tekin á það að senda prófessornum uppkast þann 3. október, svo næsta vika er tileinkuð ritgerðinni minni.

Anna Stína systir Einars og famelía hefur verið hér á Íslandi undanfarnar 2 vikur. Mads maðurinn hennar og hún buðu til svaka flotts kvöldverðar fyrr í vikunni og þar fengum við góðar fréttir ;) Say no more.

Ég gluggaði aðeins í bloggið hjá stúlkunni sem að var myrt (ég get næstum ekki skrifað það "myrt"). Hún virkaði lífsglöð og full af ævintýraþrá. Ég fæ sting í hjartað mér finnst þetta svo sorglegt. Hún fór í ferðalag út í heim og kom aldrei aftur. Hana hefur tæpast grunað að hún ætti ekki eftir að stíga aftur á íslenska grund þegar að hún flaug á vit ævintýranna.

En vá hvað það er mikið haustveður úti. Það var eiginlega dimmt í morgun þegar að við litla famelían í Arnarkletti vöknuðum. Það styttist í snjóinn svei mér þá. Næsta helgi verður kósýhelgi, það er á hreinu. Síðasta helgi var svo bissí bissí bissí að við eigum skilið að slaka á og hafa það bara þvílíkt rólegt. Hafið það gott um helgina rassálfarnir mínir. Ég sendi ykkur STÓRT helgarknús.

Efnisorð: ,

|

24.9.08

Naflastrengurinn loksins slitinn??

Já það er spurning hvort að naflastrengurinn sé nú loksins rofinn eða hvort að ég hafi náð að teygja hann úr Borgarnesi til Reykjavíkur?? Ég svaf allavegnna án litlu dísinnar minnar í nótt. Svaf í sama rúmi og Katrín systir. Ætlaði mér að fá rosalega góðan nætursvefn en Katrín sá um að vekja mig nokkrum sinnum. Pikkaði í mig um miðja nótt og spurði hvert að ég væri að fara! Svo blaðraði hún eitthvað meira upp úr svefni.
Einar sagði að hann og Herdís hefðu sofið rosalega vel og daman rumskaði ekki einu sinni ALLA nóttina!!!!! Ég er nú vægast sagt soldið móðguð. Ég nenni ekki að vera ómissandi en vil það greinilega samt!!
En allaveganna ef að þið eruð að fara út á land, viljiði þá passa að keyra ekki yfir naflastrenginn minn... hann liggur þarna meðfram þjóðvegi 1.

Efnisorð: ,

|

18.9.08


Hér sjáiði flotta boðskortið sem að Ólöf gerði handa prinsessunni :) Spennan magnast!! Mamman er að missa sig :o):o):o)
Ath: Afmælið verður tvískipt þ.e. í kvöld og svo annað á morgun. Bara svo boðskortið valdi ekki misskilningi :)

Efnisorð:

|

Tuskan á lofti!

Já undirbúningurinn fyrir afmæli prinsessunnar stendur sem hæst. Hún veit nú svo sem minnst af þessu litla kellingin en pabbinn kvartar. Hann bara skilur ekki hvers vegna það þarf að hafa allt svona fullkomið.. " þetta er eins og fermingarveisla" tautar hann meðan að hann fer með dót út í bílskúr og drasl á haugana. "Já, svona er að vera með mér" gjamma ég meðan að ég fægi silfrið. Nú er næstum því búið að þrífa allt, helmingurinn af herbergi dömunnar er tilbúinn og barnadótið því farið úr stofunni. Þvílíkur munur. Ég fékk næstum því víðáttubrjálæði þegar að því var lokið. Inná milli þrifa og tilfæringar húsgagna hef ég verið að aðstoðarkennarast, er að fara yfir verkefni í Almennri lögfræði hjá 1. árs nemum. Það er bara gaman en helst til ofmörg verkefni (sigh). Ég hef ekkert skrifað í ritgerðinni síðan á mánudag en það verður bara að hafa það. Þvottahúsið er allaveganna þvílíkt fínt núna og enginn óhreinn þvottur :o) ég get glaðst yfir því í nokkra daga hehe. En jæja, best að halda áfram að tuskast. Bónus tæmir svo budduna mína á eftir. Ekkert venjulegt hvað matarreikningurinn hefur hækkað.

Efnisorð: ,

|

14.9.08


Þú ert yndið mitt

Þú ert yndið mitt yngsta og besta,
þú ert ástarhnossið mitt nýtt,
þú ert sólrún á suðurhæðum,
þú ert sumarblómið mitt frítt,
þú ert ljósið sem lifnaðir síðast,
þú ert löngunnar minnar Hlín.
Þú ert allt sem ég áður þráði,
þú ert ósk, - þú ert óskin mín.

Þórarinn Guðmundsson / Gestur


Elsku besta, yndislega og fallega Herdís María á afmæli í dag. Hún er 1 árs. Hjörtu foreldranna eru að springa úr gleði og stolti. Við erum svo lukkuleg og teljum okkur svo heppin að hafa fengið að kynnast og njóta Herdísar Maríu. Hlökkum til ókominna fjölmargra ára með dömunni, yndinu okkar besta sem að við elskum svo heitt.

Efnisorð: ,

|

9.9.08

Ritgerðin.....

... er komin á fullt skrið. Hjúkk að ég sé komin í gang. Ég hef ákveðið að skipta henni upp í 3 hluta og ætla að hafa fyrsta hlutann um 7000 orð. Ég er komin með 5700 orð. Ég á samt eflaust eftir að henda einhverju út og þannig en þetta er komið í gang. Svo er undirbúningurinn fyrir 1 árs afmæli prinsessunar í fullum gangi. Borgarnesprinsessan fær flott afmæli.. ekki á hverjum degi sem að móðirin á 1 árs barn! :)

Efnisorð: , ,

|

6.9.08

Ég var..

.. aðeins of fljót á mér þegar að ég tilkynnti að veikindavikunni miklu væri lokið. Veikindin héldu áfram og við enduðum með Herdísi Maríu á barnaspítalanum. Eftir alls konar test og skoðanir, röntgen og annað þvíumlíkt var hún sett á lyf við tvenns konar sýkingum, öndunarfæra og meltingarfæra. Við höfum enn ekki fengið niðurstöður úr öllum prufum svo það er bara að krossleggja fingur. Herdís hefur lagast mikið síðan hún byrjaði á lyfjakúrnum og hefur verið hitalaus í 2 daga núna og hin hressasta bara. Hún sefur samt ennþá mikið og er eins og lítill límmiði á móður sinni. Algjört knúsudýr.
Annnars á Eiríkur Tumi sætasti afmæli í dag. Hann er orðinn 3ja ára kallinn. Ég man eftir því þegar að ég sá mynd af honum í fyrsta sinn. Þá var ég stödd á þvottahúsi í Róm. Sat og beið eftir að þvottavélin kláraði og las póstinn minn á meðan. Þá sá ég ET í fyrst sinn, fríðan og feitan... obbossleg fínan. Hann er fínni í dag ef það er hægt :)
Fjölskyldudagur á morgun. Við famelían ætlum að dúlla okkur eitthvað saman, fara í sunnudagsbíltúr og kannski smá göngutúr ef að veður og veikindi leyfa. Kannski við grillum líka.

Efnisorð: , ,

|

1.9.08

Veikindavikan

mikla er loksins búin... úff það tekur á að vera með veikt barn heima. Sérstaklega barn sem að vill alls ekki hanga inni daginn út og daginn inn. Snúllan er mætt til dagmömmunnar núna svo ég get hoppað í sund og hrist af mér slenið.
Nú hefjast ritgerðarskrif á fullu og aðstoðarkennsla með. Verður því nóg að gera í haust sem er auðvitað bara gaman. Svo er nú að vanda sig að búa til barnið... baka kökuna vel ;)
Helginni var eytt í Reykjavík. Fór í útskrift, út að borða, í leikhús, Grasagarðinn svo eitthvað sé nefnt.
Nú er bara að bíða eftir að Katrín sys komi brún og flott heim frá L.A. Það verður gott að knúsa hana. Mjööööög gott.

Annars gerðist náttúrulega ekkert í veikindavikunni miklu nema að strákarnir okkar komu heim, ráðherrann fór aftur til Kína, fálkaorðugerðarmaðurinn brann yfir um, alþingismenn gistu á hóteli 5 km frá heimili sínu, verðbólgan tæp 15%..... sem sagt týpísk vika á Íslandinu.... svona fyrir utan handboltaskrákana. Annars þá er nú nóg komið með Dorrit og "stórasta" landið. Þetta var fyndið í 1 dag.

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com