VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

2.4.09

Lífið...

..gengur sinn vanagang hér í Arnarklettinum.
Við vöknum yfirleitt við það að Herdís María fær að skríða upp í til okkar. Stundum er Þóra Guðrún þar líka ef að ég hef t.d. verið að gefa henni. Við famelían kúldrumst þarna í rúminu saman og tökum okkur tíma í það að vakna. Eftir smá eltingarleik við Herdísi Maríu þá skunda þau feðginin til dagmömmu og vinnu og við Þóra Guðrún sitjum einar eftir heima. Þá taka venjulega við þessi almennu húsverk, taka úr uppþvottavél, búa um og setja í þvottavél ef að þarf. Ganga frá og þess háttar. Svo sörfa ég á netinu eða kíki í bók/video meðan að Þóra Guðrún leikur sér á teppinu. Svo er "spennandi" að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér. Stundum kemur einhver í heimsókn og stundum förum við mæðgur út t.d. í skoðun, mömmuhitting, labbitúr eða t.d. í bæjarferð. Við sækjum svo Herdísi Maríu kl 15:00 og þá fær hún smá tíma með mömmu sinni áður en að pabbinn kemur heim. Herdís María er orðin svakalega flínk í því að púsla og setja kubba í rétt göt. Svo vill hún lesa eina til tvær bækur eða horfa á skrípó. Ég sker niður fyrir hana ávexti eða poppa (það finnst henni mjög mikið sport) og við eigum góða stund saman mæðgurnar. Ef að Þóra Guðrún er vakandi þá fær hún að vera með... aðallega svona á hliðarlínunni samt. Herdís María vill hafa mömmu sína út af fyrir sig svona fyrst eftir að hún kemur heim frá dagmömmunni. Einar kemur svo heim kl 16:00. Tíminn frá 16:00-20:00 er bissí bissí. Stundum skreppum við út eða til ömmu og afa. Bónus er vinsæll áfangastaður! Svo stússumst við foreldrarnir í matargerð, böðum, lesum, burstum barnatennur og svæfum. Herdís María er voðalega dugleg að sofna sjálf í sínu rúmi. Alveg hætt að gráta en kallar dálítið í okkur... "maaammmma" heyrist reglulega úr rimlarúminu. Hún gefst á endanum upp og sofnar. Þóra Guðrún sofnar milli 21:00-22:00 svo það dettur allt í dúnalogn þá. Þá fær maður loksins smá tíma fyrir sig eða okkur foreldrana saman. Þá er vinsælt að horfa á Amazing race, American Idol eða bara dunda sér eitthvað. Ég reyni að nota þennan tíma til að halda í leifarnar af pæjuskap mínum og tek neglurnar mínar eða set á mig maska. Áður en að við förum að sofa tek ég fötin hennar Herdísar Maríu til og geri allt reddí fyrir morgundaginn. Set uppþvottavélina í gang, geng frá og bursta tennur. Jamm svona er lífið í Arnarkletti þessa dagana. Spennandi ekki satt??

Við fórum í sænskar kjötbollur til tengdó í gær. Anna Stína og Elías voru á Skypinu en þau koma til landsins í næstu viku. Anna Stína er komin rúmlega 20 vikur á leið og það fjölgar því í barnahópnum í haust. Við erum voðalega spennt að vita hvort að það komi strákur eða stelpa.

Eiríkur kemur heim frá USA í næstu viku í stutt stopp yfir páskana. Litli bróðir verður 30 ára 11. apríl believe it or not! ! !

Og að lokum. Herdís María heldur áfram að skemmta okkur. Um daginn var hún að stripplast með hvítt púður á rassinum. Hljóp um allt berrössuð. Svo sá ég hana gægjast fyrir horn og vissi að eitthvað væri í uppsiglingu. Svo mætti daman nema hún var ekki lengur algjörlega allsber heldur komin í stígvél. Svo beygði hún sig í baki og gekk eins og gamall karl um allt og hló með sínum brilljant ráma hlátri. Hvíti púðurrassinn naut sín vel og mig langaði ekkert meira en að éta hana upp til agna.

Efnisorð: ,

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com