VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

22.8.08

Áfram Ísland

Hvað haldiði að margir bloggarar bloggi um landsleikinn í dag?? Ábyggilega bara ég. Ég er allaveganna komin í gallann og tilbúin upp í sófa með fána og flautu. Ein heima.

Herdís María hefur nú verið 1 1/2 viku hjá dagmömmu. Það gengur mjög vel og barnið er þvílíkt sátt. Dagmamman hrósar dömunni í hástert og mamman fer bara hjá sér. Herdís María hlær allan daginn, fer að sofa 1, 2 og 3 og hlýðir öllu. Hún leikur fallega og er hvers manns hugljúfi. Foreldrarnir eru að rifna úr stolti. Hún var nú samt eitthvað grumpí í morgun þegar að ég rölti með hana yfir, sjáum hvernig dagurinn verður.

Fór í mæðraskoðun í gær. Hjartslátturinn fannst ekki strax. Ég fann hins vegar vel fyrir bombunni spriklandi þarna inni. "Getur verið að barnið sé á fullu þótt enginn hjartsláttur finnist??" spurði ég. Ljósan hló bara og gafst ekki upp fyrr en við heyrðum þennan fína hjartslátt. Bomban lá bara eitthvað asnalega þarna inní kúlunni. Annars líður mér dásamlega, mér finnst voða gaman að vera ólétt með kúluna út í loftið. Maður verður eitthvað svo fallegur, húðin svo mjúk og brosið svo breitt.

Í kvöld er Einar heima. Já ég sver, það er í frásögur færandi. Kallinn minn er svo bissí í fótbolta, vinnu og formannsstörfum að ég sé hann varla. Ég pantaði því kósýkvöld í kvöld. Eldum góðan mat og höfum nýtínd bláber og rjóma í desert. (Takk Guðný og Fannar).

Efnisorð: , ,

|

16.8.08

Litla jólabarnið orðið að nýársbombu

Fórum í 20 vikna sónar í vikunni. Allt gekk svona ljómandi vel. Okkur var seinkað til 30. des svo það lítur út fyrir að það að jólabarnið breytist í eina litla nýársbombu :) Barnið var sprækt og sýndi sig á alla kanta. Ég var alltaf að vona að Einar myndi spyrja um kynið en nibb.... hann spurði ekkert svo ég fæ ekkert að vita :) Bomban okkar var með svoooo kyssulegar varir og japlaði þarna og brosti til okkar. Hér er sónarmynd.
Æ, ég veit að hún er pínu óskýr en ég tók mynd af henni. Þarf að skanna hana inn. Jæja eftir sónarinn settumst við niður með Herdísi Maríu og sögðum henni að nú tæki alvara lífsins við. Hún væri að verða stóra systir og þyrfti að fara að taka meira til hérna heima og svona.
Hún tók bara vel í það og heimtaði litla systur í staðinn. Við sjáum nú til með það!

Hér er ég gengið 20 vikur með Herdísi Maríu.Myndin tekin á klósettinu í Ásgarði.
Og hér er ég gengið 20 vikur með nýársbombuna okkar. Myndin tekin í stofunni í Arnarkletti.

Efnisorð: ,

|

11.8.08

Ólétt og vitlaus

Ohoo ég er eitthvað orðin svo ólétt. Og já bara allt að gerast í bumbunni. Spörk og pot og hamagangur bara. Ég sem að var búin að panta rólegt barn! Við förum í sónar í vikunni og erum svakalega spennt yfir því. Samt verð ég að viðurkenna að ég gleymi því stundum að ég sé ólétt.... er ekkert að liggja yfir því hvað er að gerast í hverri viku eða neitt þannig. Þarf oft að pæla í því á hvaða viku ég sé. Maður er líka svo bissí að elta krílið sem að þegar er fætt.

Ritgerðin er á hold og fer ekki í loftið fyrr en í haust. Krílið byrjar hjá dagmömmu í vikunni og þá verður lagst í skrif. Ritgerðin verður allaveganna að vera búin fyrir fæðingu næsta krílis. Annars er ég í vondum málum *ræsk*.

Núna er ég að horfa á einhverja 12 ára sirkusstelpu í Kastljósinu beygja sig og snúa eins og hún sé liðamótalaus.. get fullvissað ykkur um að ég get þetta líka!

Horfði á strandblak kvenna áðan. Þetta er nú meira kroppashowið? Verð að segja að mér finnst þetta frekar hallærisleg grein, af hverju ekki að spila bara venjulegt blak? Svo dönsuðu þær allar í hóp eins og klappstýrur.. ekkert skrýtið að karlpeningurinn fjölmenni á pöllunum.

Annars er óvissuferð hjá vinkvennahópnum um helgina, það verður speheeees.

Efnisorð: , ,

|

7.8.08


Við fórum með Herdísi Maríu til ljósmyndara í júlí og hér er afraksturinn. Hún stóð sig svo vel, hló allan tímann, algjör ljósmyndafyrirsæta!

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com