VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

29.1.06

Áfram Bifröst


Laugardaginn 28. janúar urðu þau tímamót í sögu lögfræðimenntunar hér á landi að í fyrsta sinn útskrifast lögfræðingar með fullgilt meistarapróf frá öðrum skóla en Háskóla Íslands. Þá útskrifuðust 8 einstaklingar með ML gráðu í lögum frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst en hún veitir öll sömu réttindi og embættispróf eða kandídatsgráða hefur veitt, m.a. rétt til að þreyta prófraun til málflutningsréttinda.
Allt frá upphafi lögfræðimenntunar hér á landi og til dagsins í dag hefur HÍ verið eini skólinn sem útskrifað hefur lögfræðinga.

Fyrir fimm árum hóf Viðskiptaháskólinn á Bifröst fyrstur skóla utan HÍ kennslu í lögfræði. Síðan hefur skólinn útskrifað tvo árganga með BS gráðu í viðskiptalögfræði. Viðskiptalögfræði sameinar greinar á sviði lögfræði og viðskipta og er undanfari ML gráðu í lögum á Bifröst eða MS gráðu í viðskiptalögfræði.

Mér finnst þetta frábært!!!

|
Já ég er sætastur.. :)

Janúarmyndir hér

|

25.1.06

Hef nú lokið við lestur tveggja bóka. Fyrsta ber að nefna Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur. Þetta er glæpasaga sem að gerist í Reykjavík nútímans. Þýskur nemi finnst myrtur á hrottalegan hátt í HÍ og inn í atburðarásina fléttast galdrar og jamm örlítil ást. Mér fannst bókin fín, soldið svona sambland af Da Vinci code og Arnaldi. Stundum fannst mér samt ekki nógu mikið flæði í samtölunum en á heildina litið var þetta hin ágætasta afþreying. Nú ég lauk líka við Myndin af heiminum eftir Pétur Gunnarsson en hún var tilnefnd til ísl. bókmenn.verðlaunanna árið 2000. Sú bók er allt annars eðlis og synd að segja að hún sé spennandi. Hún er velskrifuð og myndræn en hélt mér samt ekki alveg alltaf vakandi. Hún er soldið heimspekileg ef að svo má að orði komast og þykir mér það fínt en ég get samt ekki sagt að ég hafi beðið spennt eftir að fletta henni þegar að tími gafst til.
Ég er líka alltaf að lesa smá í skaðabótarétti, ágætis lesning það (ég er ekki að djóka sko) en er ekki byrjuð á afleiðunum, vona að það fari að breytast.....

____________________________________________

Fyndið, við Bjarki og Ömmi hlógum dátt í bílnum á leiðinni í bæinn í dag þegar að ég galaði úr aftursætinu "Gjöra svo vel að aka hægar, 88. gr. umferðarlaga"!!!!! og við skellihlógum.... áttuðum okkur svo snögglega á því að við værum að hlægja að mjög svo aulalegum lögfræði "brandara".
Djókuðum líka heilmikið með framvirka samnninga um daginn og klínum "sennilegri afleiðingu" í aðra hverja setningu. Obbosslega fyndin... (as in alveg glötuð) Ég er viss um að enginn skilur þessa brandara okkar nema lögfræði og viðskiptafræðinemar!

___________________________________________

Við Tótla gerðum góðverk um daginn. (eitt af mörgum vil ég meina) Á aðfaranótt sunnudags c.a. hálf tvö þá ókum við fram hjá gangandi galaklæddu pari sem að barðist í vindinum. Það reif í rauðan kjól konunnar og hún var ábyggilega á 15 cm hælum í hálkunni. Við snerum við og pikkuðum þau upp. Ókum þeim, svakalega þakklátum, sem leið lá í Fossvoginn þar sem að kallinn skutlaði í okkur 5000 kall. "Smá" þakklætisvottur (það var ekki undan því komist að taka við peningnum) hann sagði svo orðrétt: " Ég er með margar milljónir á mánuði, held að ég geti launað ykkur góðverkið" Jamm ekki amalegt tímakaup þetta!! (gleymi alltaf að fletta kallinum upp en hann hlýtur að vera einhver stórlaxinn, annars eru svo sem svo margir komnir með millur á mánuði að það er næstum ekki í frásögur færandi)
En þetta þýðir bara eitt.... góðverksdjamm á næstunni!!

|

22.1.06

Bíódagar. Hef nú séð Brokeback Mountain og Pride & Prejudice. Ég hef sem sagt farið oftar í bíó í sl. viku en frá sep-des í fyrra. Jamm og jæja. Þessar myndir voru fínar. Ekkert meira og ekkert minna. Brokeback Mountain olli mér vonbrigðum en nokkur atriði í henni voru virkilega velheppnuð. Hins vegar náði heildin ekki að heilla mig. Ég bjóst við að ég myndi grenja úr mér augun en sú varð nú ekki raunin. Í staðinn þá át ég fullan poka af nammi og drakk sykurkók! P&P var rómantísk. Ég skældi smá yfir henni því ég er sykurpúði fyrir nettri væmni og herramennsku. Hins vegar var hún soldið *ARG* og *PIRR* og ég hefði greinilega betur séð hana í USA en þeir fengu aðra útgáfu en við hin. Gleymi því aldrei þegar að ég sá ameríska endann á Three of hearts. Muniði eftir henni? Í bíó var breski endirinn en þá ók Sherilyn Fenn burt frá William Baldwin og hann stóð örvilnaður eftir á götunni. Í amerísku útgáfunni, sem að ég sá á video, stoppar Sherilyn hins vegar bílinn og Willi kallinn sest upp í bílinn og sjúg og slef.. allir happy. Ég átti ekki orð.

________________________________________

Ekki skil ég hvers vegna ég fékk 2 sms í dag þar sem að ég var beðin um að styðja ákveðna aðila í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég hef ALDREI búið í Kópavogi!

________________________________________

Fór á Vegamót með Tinnu í vikunni. Voða næs. Við reyndar fengum vont hvítvín og ég er hætt að panta mér hvítvín á Vegamótum. Ekki að fíla hvítvínið sem að er þar á boðstólnum. Ætlaði svo að panta mér hvítvín á B5 með Ólöfu en við enduðum í bjórnum. Fengum voða fansí pansí glös og vorum svakalega miklar pæjur og átum nautalundir. Idolstjarna afgreiddi okkur.
Hitti líka Bibburnar mínar og eldaði Bibbis aka Íris voðalega góðan kjulla handa okkur hinum. Úff... ég er sjálf orðin leið á þessum matarsögum mínum.. segi því over and out

knús
Bæbba

|

19.1.06

Muniði, maður fékk stundum að vera umsjónarmaður í bekknum sínum í grunnskóla. Þegar að maður var umsjónarmaður hjálpaði maður kennaranum að safna saman úrlausnum og þurrka af töflunni. Aðalsportið fólst, hins vegar, í því að ná í drykkina í nestistímanum. Þá safnaði maður saman trópí/svala/kókómjólkur-miðunum og fór með þá fram og kom svo færandi hendi með drykkina.
Snemma beygist krókurinn því ég snobbaði þá líkt og núna og fannst flottara að fá Trópí en Svala. Svali var mun ódýrari og foreldrar mínir sáu ekki sama dýrðarljóma yfir Trópí og ég og ég sat því uppi með sítrónusvalamiða. (Sítrónusvali var skör hærri en appelsínusvali) Er líða tók á vetur, þarna forðum daga, þá sá ég þó við þessu hallæri og tilkynnti því foreldrum mínum einn daginn að nú væri ég hætt í þessum ávaxtadrykkjum og vildi kókómjólk.
Kókómjólkin var nefnnilega súkkulaði í snobbleik drykkjanna í nestistímunum.
_________________________________________________

Ég sá fáránlega flotta íbúð á netinu og langar núna að fara að vinna og kaupa mér hana. Fresta mastersnámi, vinnu í London eða hjálparstarfi í S-Amríku fyrir flotta íbúð og gott starf. Já nr. hvað eru þessar nærbuxur? Ég þarf hjálp... skipti um skoðun eins og ja... ég segi það aftur nærbuxur!

_________________________________________________

Fór í leikhús ekki alls fyrir löngu og sá Eldhús eftir máli. Gott leikrit þar á ferð. Fjallaði um stöðu/ímynd/stereotýpu kvenna. Margir góðir punktar og ég hló oft. Mér fannst leikararnir standa sig mjög vel og urðu þeir oft dáldið "kreisí" í túlkun sinni. Jarmið í lífsgæðakapphlaupsádeilunni var brill (þeir skilja sem að hafa séð). Ég elska að fara í leikhús, þ.e. þegar að leikritin eru góð. Mér finnst hins vegar fátt verra en að sitja á hundleiðinlegu leikriti. Himin og haf, himnaríki og helvíti... svo mikill er munurinn.

|

17.1.06

Ja, ég sit ekki auðum höndum.. synd að segja það. Ýmislegt sem að drífur á daga manns. Tók próf í síðustu viku. Þetta var próf í samkeppnisrétti en ég tók hann í fjarnámi meðan að ég var úti í Þýskalandi. Prófið gekk skítsæmilega, hefði reyndar viljað fá meiri tíma og hljóma núna eins og rispuð plata.
Skilaði svo 25% verkefni á laugardaginn. Reyndi að drusla mér í gegnum 137 bls. í skaðabótarétti svo ég hefði eitthvað viturlegt fram að færa. Sofnaði hvað eftir annað í kaflanum um þróun skaðabótaréttar og sá ekki að sá kafli kæmi þessu verkefni við.
Annars er fínt að skella sér 2 daga í viku upp á Bifröst. Skrýtið að rölta um gangana og reyni ég að heilsa öllum sem að ég gæti mögulega einhvern tímann hafa séð eða heyrt. Mar er að reyna að halda skólanum í “kammó” stemmningunni, bara svona upp á gamla tíma.
Virðist sem svo að ég sé samt í heldur leiðinlegum/strembnum afleiðukúrsi á mánudagsmorgnum! Kannski að hann sé leiðinlegur af því að ég skil ekki boffs, vona að ég fari nú að líta í bók í þeim kúrsi.
_______________________________________

Skellti mér á tónleika í Laugardalshöll ekki alls fyrir löngu. Þeir voru fínir. Ég þurfti náttúrulega samt áfallahjálp eftir áróður mikinn um að virkjanir væru runnar undan rifjum Satans og Illvirkjun stefndi lífum og limum í hættu.
Heyrði líka skemmtilegt spjall í sætaröðinni fyrir aftan mig:
Stelpa: Það er bara nokkuð til í þessu sem að verið er að segja hérna
Strákur: Já ég er ekki frá því bara
Stelpa: Ég meina maður náttla býr bara niðrí bæ og lætur sér fátt um finnast að það sé verið að reisa eitthvað ferlíki fyrir austan.. ég meina maður myndi segja eitthvað ef að það kæmi bara allt í einu álver á Reykjanesi!
Strákur: já immit, þá yrði maður fyrst brjálaður
Stelpa: já pældu í því ef að það yrði bara reist álver rétt fyrir utan Reykjavík!!!!

Já maður getur ekki annað en glaðst yfir æsku vor lands

ps. trúbadorarnir voru bestir og ég er ekki frá því að mér hafi vöknað um augun þarna í einu laginu.
______________________________________

Mér veittist sá heiður á dögunum að halda á Eiríki Tuma undir skírn. Það tókst vel þótt ég segi sjálf frá en ég barðist þó við harðsperrur í nokkra daga á eftir. Bjóst ekki við að 8,2 kg. tæku svona í og svo er gaurinn svo sterkur líka. 20 mínútna work out á laugardagseftirmiðdegi, ekki slæmt það. Veislan var annars vel heppnuð og litli kútur algjör stjarna eins og við var að búast.

|

5.1.06

Rútína?

Nei hún er nú kannski ekki alveg komin ennþá þessi blessaða rútína en hún nálgast. Nú er allaveganna ræktin dottin inn og er ég farin að hlaupa daglega eins og vitleysingur í Laugum aftur eftir "hjólahléið" mitt í Germany!
Nú skólinn byrjar ekki fyrr en á mánudaginn og ég fer í PRÓF, takið eftir, PRÓF í næstu viku... já maður þarf víst að byrja að gera eitthvað hérna eftir rúmlega 4 mánaða dásemdarlíf.
Ég á alveg rosalega erfitt með að rífa mig á lappir á morgnana og þeir sem að mig þekkja vita að það er skynsamlegt að halda sig fjarri þegar að ég er að "vakna" svona "eldsnemma" á morgnana. Synd að segja að ég sé morgunhani eða hæna! en ég er að reyna að snúa sólarhringnum við hægt og bítandi.
Snæfinnur gerði mér heldur betur grikk í gær því allt í einu virkuðu rúðuþurrkurnar ekki og ég gat með mínum ótrúlega sjarma troðið honum inn í viðgerð í dag. Ég þurfti að borgað f***** 28.000 kr. fyrir þessa viðgerð! Var ekki að búast við þessu og setur þetta heldur betur strik í skemmtanaáætlun mína út mánuðinn. Vatn og brauð fyrir mína.
Hannes Hólmsteinn fer líka óendanlega mikið í taugarnar á mér þessa dagana með þessu þvaðri um að Nóbelsverðlaunin hafi hreinlega verið "hrifsuð" frá Gunnari Gunnarssyni og gefin Laxness. Það er enginn að segja mér að einhverjir kallar hérna á klakanum hafi getað stjórnað því hvernig einhverjir sérvitringar í sænsku akademíunni kysu. Æ mér finnst bara óþarfi að vera að skíta út "allt" sem að viðkemur Laxness og mér sýnist sem að það sé mission nr. 1 hjá Hannesi. Bögg..
Jæja úr neikvæðninni í eitthvað skemmtilegra. Marín og Eiríkur báðu mig að halda á Eiríki Tuma undir skírn nk. laugardag. Þetta er mikill heiður og ég er í skýjunum yfir þessu. Hlakka mikið til á laugardaginn. Held á þessu krútti og hitti famelíuna og skunda svo niðrí Laugardagshöll á tónleika og er spennt að sjá Damian Rice.
jæja bið ykkur vel að lifa ... og vona að árið fari eins vel af stað hjá ykkur eins og hjá mér!
Komnar inn mýjar myndir frá gamlárs

|

1.1.06

***************Gleðilegt nýtt ár***************

2005 horfið á braut og 2006 gengið í garð. Eins og siður er lítur mar um öxl og skoðar árið sem er að líða gagnrýnum augum og ég verð að segja að ég kveð árið 2005 með söknuði. Mér fannst 2005 eitt skemmtilegasta ár sem að ég hef upplifað. Sl. sumar var þó erfitt fyrir fjölskylduna þar sem að afi minn lést eftir erfiða en stutta banalegu. Við söknum hans sárt. Hins vegar var árið mér einstaklega gjöfult.
Ég gerði mér grein, fyrir nokkrum árum, fyrir ákveðnum eiginleikum í mínu fari sem að mig langaði til að þroska og bæta. Þessir eiginleikar héldu, að mínu mati, aftur af mér á vissan hátt en mér finnst ég hafa, á árinu 2005, náð miklum framförum og sjálfsgagnrýnin virkilega að virka.
Árið sem er að líða var yfirfullt af krafti, ein sannkölluð áramótasprengja og ég öðlaðist mikla reynslu og víkkaði sjóndeildarhringinn. Takmarkinu náð! Já það er ekki oft sem að ég get sagt svona um áramót.
Nú áramótaspáin mín fyrir komandi ár segir mér að árið 2006 verði enn betra en 2005 og ég get því hreinlega ekki beðið eftir að takast á við það. Á þessu ári mun ég útskrifast með Bs í viðskiptalögfræði og þannig mun frábærum kafla í mínu lífi ljúka. En ég er stolt af mér og ánægð með að hafa kynnst svona frábæru fólki sem Bifrestingar eru. Ég er stolt af því að vera Bifrestingur!
Ég ferðaðist gífurlega mikið á árinu sem er að líða. Og ég treysti vináttubönd. Ég kynntist ógrynni af fólki frá öllum heimshornum og framtíðarmynd mín mótaðist betur. Ég varð sjálfstæðari og þroskaðari og er virkilega sátt með lífið og tilveruna.
Ég hef nú lagt það í vana minn að gera topp 10 lista og geri ég hann núna líka þótt það sé erfiðara en oft áður þar sem að svo mikið hefur gerst.
10. Októberfest í Munchen-lengi langað að prófa að fara á "alvöru" Októberfest
9. Mílanó, Hamburg, Amsterdam, Kaupmannahöfn, Lundur og Árósar- get ekki gert upp á milli
8. London-sá London með nýjum augum
7. Brúðkaup Marínar og Eiríks-rómantík
6. Berlín-hafði sterk áhrif á mig
5. Amsterdam með saumó-berir rassar og skemmtilegheit
4. Misserisverkefnið sl. vor- sjaldan verið eins stolt
3. Róm-hreint ótrúleg borg og frábær félagsskapur
2. Lueneburg-Þýskaland og allir þeir frábæru vinir sem að ég kynntist þar
1. Eiríkur Tumi-yndislegur sólargeisli

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com