VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

24.11.08

Bakstur og meððí ....

Ég hef bakað tvær sortir og þær eru báðar búnar! Nú sé ég fram á það að geta ekki misst mig í bakstrinum þar sem að ritgerðin tekur allan minn tíma. Ætla að baka einu sinni enn og svo sníkja Sörur hjá tengdó. Soldið fúlt að missa af svona miklu í kringum undirbúning jólanna en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því. Ritgerðin gengur fyrir.

Ég er byrjuð að pakka inn jólagjöfum og huga að jólakortunum. Nenni ómögulega að eiga þetta allt eftir á síðustu stundu. Svo finnst mér ég líka njóta þess betur að pakka inn og stússast ef að ég geri þetta í litlu stressu og með góðum fyrirvara. Ég er líka byrjuð að skreyta aðeins. Ég hef alltaf verið fyrir gamaldags jólaskraut og er pínu "dottin í það" núna. Ætla að hafa meira rautt hjá mér en oft áður.

Ég hef heyrt að fólki finnist erfiðara að njóta aðventu og jólanna núna en áður. Ég held hins vegar að ég eigi eftir að njóta þeirra betur. Ég elska þennan tíma og finn það ennþá frekar núna hvað maður er heppin að eiga góðan mann og dásamlegt barn. Ég tala nú ekki um alla vinina og stórfamelíuna. Ég er samt ekki að segja að krepputalið hafi ekki áhrif á mig og það hefur þegar haft áhrif á fjárhag okkar Einars. Hins vegar þá tek ég bara einn dag í einu. Nýt þess að horfa á Herdísi Maríu skottast um stofugólfið, þá gleymir maður genginu og öðru krepputali um sinn. Ég verð líka stundum reið. Mér finnst það eðlilegt og heilbrigt. Þetta er náttúrulega óeðlilegt ástand. Ég reyni að fá útrás fyrir reiðina með því að kjafta við fólk um kreppuna... það virðist virka. Þá lekur allt loft úr mér eins og stórri blöðru. Svo er líka mikilvægt að vera ekkert alltaf að tala um þetta. Svo vona ég líka svo innilega að kreppan verði ekki eins djúp og spár gera ráð fyrir og þetta bjargist fyrir horn hjá flestum.

Þetta átti nú ekkert að verða svona kreppupistill, var búin að lofa mér að skrifa sem minnst um það hér á þetta blogg. Svona gerist bara stundum þegar að maður veit ekki nákvæmlega hvað maður ætlar að segja haha :) Ég hlakka allaveganna voðalega til jólanna. Þá fáum við fjölskyldan í Arnarkletti 27 jólapakka. Mjúkan og knúsulegan jólapakka.... með typpi eða pullu... það veit enginn!

Efnisorð:

|

21.11.08

Gling gló...

klukkan sló. Já ég gleymdi að segja ykkur hvað ég átti yndislegan afmælisdag. Famelían kom upp í Borgarnes færandi hendi og ég bakaði oní liðið. Takk fyrir mig. Mér finnst samt soldið leiðinlegt hvað facebook hefur stolið öllum vinum mínum. Ég fékk trilljón afmæliskveðjur þar og færri hér í kommentakerfið en oft áður. Þakka ykkur kærlega sem að kommentuðu hér, svo gaman :) og ok ok.. þið sem kommentuðuð á facebook takk líka ;) haha! (Fyrst tóku sms símtölin yfir, svo bloggið sms-in yfir og nú facebook bloggið yfir!)

Talandi um facebook, tímaþjófur aldarinnar!!! Ég á náttúrulega að vera að skrifa allan daginn en stelst stundum til að kíkja á facebook. Þar gleymi ég mér í tíma og ótíma.... assgotans vitleysa! Ég fer í facebook straff hér með! Nú er dagmamman í smá fríi og Hildur svilkona var svo elskuleg að koma til mín og passa Herdísi Maríu meðan að ég skrifa. Já, það er gott að eiga góða að.

Horfiði á Mistresses á RUV? Ég er alveg hooked á þessum þætti. Hann endaði ekkert smá spennandi áðan! Dísús! alveg merkilegt hvað Bretarnir geta gert góða þætti. Alveg elska ég breska þáttagerð. Og horfðuði á horror barnfóstruframhaldsmyndina?? Dísús!!

Er ekki lífið merkilegt þegar að maður bloggar um sjónvarpsdagskránna??? Djöfull er ég óspennandi.... Góða helgi!

Efnisorð: ,

|

19.11.08

Skjaldbaka

jæja ritgerðin mjakast. Ég er komin með tæplega 23.000 orð en á ennþá slatta eftir. Mér finnst fyrri helmingur ritgerðarinnar orðinn nokkuð góður en á eitthvað í land í þeim seinni. Finnst ég ekki alveg sjá í land. Ég er því svolítið stressuð þessa dagana þar sem að ég veit að líkaminn minn býður ekki upp á nein 12 klst skrif á dag. Ég get snapað mér klukkustund hér og klukkustund þar áður en að heimilið, barnið eða líkaminn æpir. Ég geng hér um gólf eins og skjaldbaka því einkenni grindargliðnunar láta á sér kræla þegar að ég hef ryksugað smá eða setið í meira en klst við skriftir. Næturnar eru líka stundum soldið strembnar, erfitt að finna þægilega stellingu og svona. Svo hef ég í fyrsta skipti fengið brjóstsviða! Fékk hann aldrei með Herdísi Maríu. Þetta kríli er líka svo hátt uppi, finnst það stundum vera komið velundir rifbeinin. En nóg af kvarti, best að fara á fund með leiðbeinandanum mínum. Ciao!

ps. takk fyrir dásamlegar kveðjur hér í kommentaboxinu fyrir neðan. Kiss, kiss og KRAM!

Efnisorð: ,

|

17.11.08

17. nóvember

... er 321 dagur ársins (44 dagar eftir af árinu og 38 dagar til jóla)
... er Shogi dagur en Shogi er japanskt spil (greinilega mikið spilað þennan dag ársins)

... Elísabet I. tók við konungdómi í Englandi og Írlandi (1558)
... Vikan kom út í 1. skipti (1938)
... Mikligarður, stærsta verslun landsins þá, var opnuð (1983)
... Linda Pé var kjörin ungfrú heimur (1988)

... er afmælisdagur Martins Scorsese (f. 1942)
... er afmælisdagur Jeff Buckley (f. 1966)
... er afmælisdagur Maj-Britt Hjördísar Briem (f.1974)

...er góður dagur

Efnisorð:

|

13.11.08

Svefnleysi og annað stress

Ohoo, ég svaf ekkert í nótt. Ástæðan: Tveir spriklandi krakkaormar upp í rúmi hjá mér. Nýjársbomban var í trylltum stríðsdansi hálfa nóttina og prinsessan var eitthvað óróleg. Allir vöknuðu samt þvílíkt sprækir nema ég. Ég leit í spegil og fékk áfall. Ekki alveg upp á mitt besta... vægast sagt. Nú er því gott að geta tekið smá lúr áður en að ég held áfram að skrifa.

Ykkur að segja þá eru súkkulaðibitakökurnar búnar og lakkrístopparnir hálfnaðir. Fékk góða hjálp í gær en Egill Orri kom með mömmu sinni í heimsókn. Held að honum hafi alveg fundist smákökurnar mínar góðar sko. Held að ég prófi vanilluhringi næst.

Ég verð nú að viðurkenna að ég er dálítið stressuð yfir efnahagsástandinu. Næ suma daga að ýta þessu frá mér en svo koma fréttir af því að enginn vilji lána okkur pening nema við borgum skrilljónir. Finnst tilhugsunin að skuldsetja okkur óhóflega til framtíðar ekkert sérstaklega sjarmerandi. Eru fleiri stressaðir yfir þessu en ég?? En... ýta þessum hugsunum frá.... jólin á næsta leyti og svona. Hlakka ekkert smá til að hengja upp jólaskraut og jafnvel skella mér á fyrsta jólaballið í laaaaaaaaaaaaaangan tíma. Herdís María er alveg að fíla Adam átti syni sjö og Göngum við í kringum. Fín svona lög þar sem að er látbragð.
Í kvöld hef ég skráð mig á konfekt-námskeið. Það verður vonandi gaman.

Efnisorð: ,

|

12.11.08

Heimildasnobbaður smáköku"étari".

Í þessum skrifuðu orðum er ég að fara yfir fótnótur og heimildaskráningu. Ekki það skemmtilegasta í heimi en nauðsynlegt verk. Það er líka ömurlegt að eiga það eftir í lokin. Ég er með fullkomnunaráráttu hvað varðar heimildir (heimildasnobbuð á hæsta stigi) og engar heimildir eru nógu góðar og skráningin verður að vera fullkomin. Þetta getur verið mjög þreytandi til lengdar og ég get orðið þvílíkt pirruð á sjálfri mér. Það góða við þetta allt saman er samt kökuilmurinn sem að umlykur eldhúsið. Ég er að baka sort nr. 2. Bakaði súkkulaðibitakökur í fyrradag og er búin með stóran hluta afrakstursins.... soldið pirruð á mér. Æ það er bara soldið pirrandi að vera ég stundum.

Efnisorð:

|

11.11.08


Kuldaskór

Dóttir mín hefur tekið ástfóstri við kuldaskóna sína. Þeir eru úr mjúku leðri, vatnsheldir, loðfóðraðir og falla alveg að fætinum svo hún á mjög auðvelt með að ganga á þeim. Svo eru þeir náttúrulega gasalega smart. Þegar að ég spyr hana hvort að við ættum að fara út þá kemur hún hlaupandi með kuldaskóna. Þegar að við komum heim þá neitar hún að fara úr þeim og í gær hljóp hún um á bleyjunni sinni og í kuldaskónum. Það lá við að ég gæti sleppt því að baka, hún var svo sæt. Mér þótti nú nóg komið þegar að hún vildi fara í bað í skónum og ekki var ég nú sérstaklega hrifin af því að fá þá upp í rúm! Í morgun fór hún í þeim til dagmömmunnar, labbaði alveg sjálf..... alveg gasalega montin. Ég þurfti að beita hana lagni til að ná henni úr skónum áður en að hún hljóp inn til dagmömmunnar. Mér sýnist þessi skókaup hafi verið sérstaklega góð kaup. :o) (Meðfylgjandi er mynd af þessum vinsælu skóm)

Efnisorð:

|

10.11.08


Minningakassi

Mig langar til þess að segja ykkur sögu. Kannski hafiði heyrt hana, kannski ekki. Ég heyrði hana sjálf í fyrsta skipti í Kastljósinu í sl. viku.

"Þetta var um 1900, fjölskylda bjó í litlu húsi við sjóinn og pabbinn dró að fisk í soðið. Börnin voru tíu. Langt fyrir aldur fram deyr pabbinn svo mamman stendur ein uppi með tíu börn. Hún gat engan veginn alið önn fyrir þessum stóra barnahópi svo hún varð að láta frá sér átta elstu börnin. Í þá daga voru engir sjóðir né sameiginlegar tryggingar til að leita í svo hún var upp á góðsemi nærsveitarmanna komin. Sorgin við föðurmissinn var sannarlega næg en börnin misstu líka móður sína og hvert annað. Þau tvístruðust milli bóndabæja. Móðirin þurfti því að finna ráð til að hjálpa börnunum að halda voninni og útbjó lítið skrín handa hverju þeirra. Í það setti hún hluti sem voru þeim kærir og efnisbút úr flík sem hún notaði mikið. Þegar hún kvaddi þau í túnfætinum sagði hún eitthvað á þessa leið: Í hvert skipti sem ykkur líður illa og saknið okkar skulið þið fara út undir fjósvegg eða eitthvert sem þið getið verið ein og ótrufluð. Þar takið þið hlutina upp úr skríninu til að minna ykkur á góðu stundirnar sem við höfum átt þegar við vorum öll saman. Skrínið á að einnig að minna ykkur á að ég mun koma aftur og sækja ykkur. Það liðu mörg ár áður en fjölskyldan sameinaðist á ný, en það tókst."

Yfir þessari sögu skældi ég og reyndar líka Jóhanna sjónvarpskona. Einari fannst það, held ég, soldið sætt en hann hristi samt hausinn glottandi og spurði hvað væri eiginlega málið með okkur?? ;) Nú hef ég búið mér til minn eigin kassa. Í honum eru m.a. ástarbréf frá Einari, mynd af Herdísi Maríu sem að mér er einkar kær, dagbók frá því að ég var 10 ára, mynd af okkur systkinunum, hárlokkur ofl. Mér verður bara hlýtt í hjartanu við að hugsa um dótið í kassanum. Ég hef þegar ákveðið að börnin mín fái svona kassa, ég ætla að setja nokkra hluti í þá fyrir þau en svo er það alfarið þeirra að setja hluti í þá.... hluti sem að lætur þeim líða vel.
Ég mæli með geðræktarkassanum.

Efnisorð:

|

7.11.08


Uppselt!!

Hakkavélar og frystikistur uppseldar!!! og ég sem að ætlaði að gefa Einari hakkavél í jólagjöf, bömmer! Hvað get ég þá gefið honum.... strokk ?? og IKEA hækkar vörur um 25%!! Standast þá verðin í jólabæklingnum sem að ég fékk í gær ekki?? Mötuneytið í IKEA er samt ennþá frekar ódýrt. Hægt að fá sér hangikjet og með því á 845 kr.

Ég ætla allaveganna að baka eina sort af smákökum í dag þ.e. ef að ég get gengið út í búð sökum samdráttarverkja. Þetta er ferlegt ástand... ég er stirð eins og nírætt gamalmenni.

Efnisorð: ,

|

6.11.08

Systkinakærleikur

Ég pæli voðalega oft í því hvernig Herdís María bregðist við þegar að nýjársbomban mætir á svæðið. Herdís María er nefninlega algjör kelirófa og er dugleg að strjúka og kjussa t.d. foreldra sína, ömmur og afa, dagmömmuna, dúkkurnar sínar, myndir í bókum og ljósmyndir af okkur foreldrunum. Það verður því mjög forvitnilegt að sjá hvort að hún á eftir að kjussa litla krílið eins mikið eða hvort að henni lítist ekkert á þennan aðskotahlut. Hún á það nefninlega til að hrópa upp yfir sig þegar að við Einar erum að knúsast. Þá kemur hún askvaðandi og vill ekki vera skilin útundan. Held að ég megi alls ekki kjussa litla barnið nema að smella einum á Herdísi líka. Svo hafa þeir sem að eiga fleiri en eitt barn sagt mér hversu gefandi það er að sjá systkini knúsast og vera góð við hvort annað. Ég hlakka því mjög til :o)

Efnisorð:

|

5.11.08

Nýr dagur , nýir tímar

Þegar að ég vaknaði í morgun vonaði ég svo innilega að Obama hefði unnið kosningarnar í USA. Ég entist ekki nema til kl 1:00 í nótt en þá höfðu fáar útgönguspár verið birtar og allt óráðið. Allt var svo í lausu lofti fram eftir nóttu og þegar að Einsi skreið upp í rúm um kl 4:00 var ekki alveg öruggt að Obama hefði unnið. En í morgun var nýr dagur, nýtt upphaf..... Obama vann. Fyrsti blökkumaðurinn til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. Obama er tákn breytinga, vonar og nýrra tíma í heiminum. Ég veit að mikið er lagt á manninn en hann er sem ferskur vindur..... hann fyllir mann von um að heimurinn verði betri staður á næstu árum. Eins ólétt og ég er og þar af leiðandi xtra væmin þá grét ég yfir því broti sem að ég sá úr vinningsræðu Obama. Þetta er söguleg stund, til hamingju heimur :)

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com