VANILLUSTELPAN Á BLEIKA SKÝINU

............ lífið í Borgarnesi .................

29.6.06

Bloggleti

Voðalega er ég eitthvað löt að blogga þessa dagana. Þá er best að tilkynna bloggbann en þá er nokkuð öruggt að ég blogga stanslaust... já sama og með bjórbönnin mín frægu! Ég veit nú ekki hvort að ég nenni að fara að telja allt upp sem að á daga mína hefur drifið undanfarið en þeir hafa nú samt bara verið helv. fínir svo ekki sé annað sagt. Ég hef verið iðin við kolann þ.e. kaffihúsin, horft á HM og meira að segja farið í keilu! Já kallið mig góða.. enda komst ég að því að keilan er hvorki skartgripavæn né styrkjandi fyrir neglurnar.
Það er samt ekki annað hægt að segja en að á mig herji ein allsherjar leti og það með stórum staf! Ég er ekki að nýta þetta frí mitt sem skyldi.. nei sei sei.. hangi bara á netinu og horfi á regnið leka niður rúðurnar og dotta yfir fótboltaleikjum... engin afköst hérna megin.
Jæja ég bæti úr því í morgunsárið þar sem að ég á stefnumót á hlaupabrettinu niðrí Laugum!
10 dagar í Stokkhólm... vonandi að veður"blíðan" fylgi mér ekki þangað.

Efnisorð:

|

28.6.06

og fleiri sumarmyndir eru hér

Efnisorð:

|

27.6.06

Myndir

Hér eru myndir úr útskriftarveislunni á laugardaginn :)

Efnisorð:

|

26.6.06



Stuð stuð stuð með famelíunni í útskriftinni hennar Sessu á laugardagskvöldið :)

Efnisorð:

|

23.6.06

Töfranótt

Á morgun er Jónsmessa sem þýðir að í nótt er Jónsmessunótt. Jónsmessunótt er ein þessara töfranótta samkvæmt íslenskri þjóðtrú (hinar eru jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt). Á þessum nóttum getur maður því búist við að sjá álfa og aðrar kynlegar verur. Ætli ég sjái samt ekki bara ölvað fólk í miðbæ Reykjavíkur. Svo á döggin þessa nótt að vera allra meina bót svo kannski að maður sjái bera rassa í Hljómskálagarðinum? Takið einnig vel eftir því hvað ykkur dreymir í nótt, það mun rætast og svo eigiði einnig að geta átt gott spjall við gæludýrin ykkar!
Burt séð frá öll áðurnefndu þá ætla ég að óska mér í nótt og finnst Jónsmessunótt hræðilega rómantísk.

Stepford wifes og HM

Stepford wifes eru með hitting í kvöld á ofanverðum Laugaveginum. Þar munum við sitja penar og ræða barnauppeldi og þrif innan um heimalagaða rétti. Áður mun ég hins vegar fara út að borða (hvað annað)??
Á morgun er svo Svía-leikurinn og mikið rosalega varð ég himinlifandi að Ítalir skyldu vinna sinn riðil og lenda á móti Áströlum í stað Braselíu. Spennó :) Núna finnst mér sumarið vera komið... ekki satt? Einhvern veginn bjartara yfir öllu, útskriftir og HM!

Efnisorð:

|

Grillmatur er góður fylgifiskur sumarsins. Ég fékk góðan grillmat áðan a la Bjarki og Erna. Ég er ennþá södd og eftirrétturinn var hálfpartinn smyglgóss frá USA, maður biður ekki um meira :) Takk fyrir mig!

Efnisorð:

|

22.6.06

Undur og stórmerki

... ég sat niðrá Austurvelli frá 13-19 í gær! Sötraði hvítvín og sólaði mig... gæti ekki haft það betra :) þessu hefur maður beðið eftir. Nú svo fór ég út á borða á Hornið um kvöldið og í desert á Thorvaldsen. Íslenskt sumar er náttla æðislegt!

Efnisorð:

|

20.6.06

Hér sjáiði dyggasta stuðningsmann ítalska landsliðsins í knattspyrnu :)

Efnisorð:

|

19.6.06

Bíó og út að borða

Hef farið 2svar sinnum með stuttu millibili á Thorvaldsen og fengið mér að snæða. Í fyrra skiptið fékk ég mér líka kokteil þ.e. mojito sem að var ágætlega blandaður, kannski ekki alveg nógu sterkur ;). Hvað matinn varðar pantaði ég mér 2 forrétti þ.e. kjúklingaspjót og reyktan lax. Kjúklingaspjótin voru borin fram með mildri hnetusósu sem að var meiriháttar góð. Reykti laxinn var serveraður í krukku sem að minnti á kjúklingasallatið á B5.... svakalega smart.
Í seinna skiptið fékk ég mér sjávarréttarsúpuna. Hún var mjög matarmikil og saðsöm, mæli með henni ef að þið eruð fyrir skelfisk.
Þjónustan var góð í bæði skiptin svo ég gef staðnum *** = 3 störnur.

Fór líka ekki alls fyrir löngu á Apótekið. Ég hef nú verið misánægð í gegnum tíðina með þann stað en þar sem að daman ég vildi taka dömukvöld dró ég T&T með mér út að borða sushi og við enduðum á Apótekinu. Þetta var á fimmtudagskvöldi svo það var ekkert svakalega mikið að gera og þjónustan var því ágæt. Mojitoinn var ekki eins góður á Thorvaldsen en velásættanlegur. Við pöntuðum okkur svo sushi sem að var ljúffengt og við sporðrenndum því niður með milliþurru hvítvíni. Kvöldið endaði allsvakalega en ég get því miður ekki tjáð mig meira um það hér þar sem að við stöllurnar skrifuðum allar undir þagnareið hvað varðar endalok þessa kvölds! hehe...
Niðurstaða: **1/2 stjarna

Ég hef líka séð tvær myndir í bíó.


The Omen 666: Ég hef mjög gaman af draugamyndum og hlakkaði til að sjá endurgerðina á Omen. Hún var ágæt. Mér brá svaðalega í tvígang sem og öllum salnum og tónlistin í henni var mögnuð. Hljóðvinnslan var eiginlega alveg frábær en Julia Stiles fer nett í pirrurnar á mér og skemmdi smá fyrir mér. Þessi eftirgerð var ekki nærri því eins góð og frumgerðin en það voru nokkur mjög flott atriði í henni. Niðurstaða**1/2 stjarna

Poisedon:
Þetta er svona týpísk stórslysamynd með hraðri atburðarás og tæknibrellum. Alveg ágætis afþreying en persónurnar frekar hallærislegar og sum atriðin gengu hreinlega ekki upp.
Niðurstaða: ** stjörnur

Efnisorð:

|

17.6.06

HM

Jæja er ekki komið að smá HM-pistli??
Undanfarna daga hef ég setið stjörf fyrir framan imbann og glápt á flestalla leikina í HM. Í raun og veru er HM að bjarga geðheilsu minni í þessari grenjandi rigningu. Ég hef ekki svo mikið sem komist hálfa leið niðrá Austurvöll að sóla mig og sötra hvítvín.
Well, þeir leikir sem að standa upp úr að mínu viti er að sjálfsögðu Argentína-Serbía. Argentínumenn sýndu snilldartakta í þessum leik, sannkallaða heimsmeistaratakta. En það er víst ekki nóg að spila vel í riðlakeppninni og það er staðreynd að S-Ameríkuliðin hafa aðeins unnið heimsmeistaratitilinn einu sinni þegar að HM hefur verið haldið í Evrópu. (Það var þegar að Brassarnir tóku þetta með Pele í farabroddi í Svíþjóð þarna um árið). Ég bíð samt spennt eftir að sjá Argentínumenn í næsta leik. Aðra sögu hef ég að segja um Brassana. Leikur þeirra á móti Króatíu olli mér vonbrigðum en leikurinn var samt skemmtilegur í heild sinni. Satt best að segja hefði mér þótt sanngjarnt ef að Króatar hefðu náð að jafna. Ég reyndar missti af Ítalíuleiknum en heyrði að þeir hefðu spilað vel, hlakka til að sjá þá á eftir. (Fer í bolinn minn og alles). Nú markaveislan hjá Spáni var flott en sá leikur sem að tók mest á taugarnar var Svíþjóð-Paragvæ. Ég prísa mig sæla að Svíarnir náðu að skora þarna í endann og var komin með snert af magasári af kvíða. Dómgæslan var samt ekki sú besta í þeim leik og Svíarnir til að mynda ranglega dæmdir rangstæðir í tvígang. Verð samt að segja að leikur Svíanna hefur valdið mér vonbrigðum sem og leikur Englendinga og Hollendinga. Vonandi að þessi lið fari að sína sínar réttu hliðar.
En nú er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Ég sit heima og horfi á HM og frekar þakklát fyrir að geta sleppt því að fara niðrí bæ.
Lambalærislykt læðist um húsið.
Kvöldið verður gott.

Efnisorð:

|

16.6.06

Roger Waters, umferðaröngþveiti og skítakuldi

Ég var svo heppin að vera boðið á tónleikana með Roger Waters. Íris vinkona hringdi í mig og bauð mér að vera deitið sitt og ég var ekki að lengi að játa því. Fyrst fórum við í forpartý þar sem að boðið var upp á frían bjór!!!! og snittur og veisluhaldarinn var ekki ófeiminn við að bera í okkur stallsystur áfenga drykki. Í partýinu voru víst margir flugmenn en ég tók ekkert eftir þeim þar sem að það eina sem að ég sá var bjórinn fyrir framan nefið á mér. Ég sá reyndar líka ógeðslega flott úr en það er allt önnur saga. Nú svo var liðinu skóflað upp í rútu sem sniglaðist áfram og tók nokkur pissustopp í Ártúnsbrekkunni. Ég var í þvílíkum spreng en daman í mér bannaði mér að fara út og láta allt flakka. Það er ekki oft sem að ég óska þess að vera karlkyns en í þessari rútuferð var ég farin að biðja Guð um alls konar vitleysu. Rútubílstjórinn var nörd af verstu gerð og var hálfgerð blanda af Woody Allen og Hómer Simpson. Honum var alls ekki skemmt þegar að fólk hleypti sér út til að skila bjórnum. Ég sagði honum að hann yrði að taka stjórnina og hætta að hleypa fólki út. Hann skalf á beinunum og barði í stýrið.. já já já... sneri sér við og hvíslaði skjálfandi röddu "ég ætla ekki að missa bílprófið út af ykkur" .....fólk hélt samt áfram að fara út og fá sér smók og því sem því fylgir. Bílstjórinn hálfpartinn grét, ég er ekki að ýkja og ég var næstum búin að knúsa hann þarna og hefði gert það ef pissublaðran mín hefði ekki verið farin að ýta á barkakýlið mitt. Daman í mér gafst upp þar sem að ég hljóp yfir bílastæðið fyrir framan Egilshöll og við nokkrar "dömur" földum okkur á bak við Musso-jeppa og léttum á okkur. Seinna skammaðist ég mín mikið fyrir að hafa ekki valið Landcruiser, hvað var ég að spá?!
Tónleikarnir voru flottir, verst hvað ég þekki lögin með Pink Floyd lítið. Það var samt magnað að sjá fólkið (aðallega miðaldra karlmenn) hálfslefandi yfir dýrðinni. Ég hefði getað komist á sjéns þarna án nokkurra vandræða, mennirnir voru eins og dáleiddir...
Umferðaröngþveitið að tónleikum loknum varð þess valdandi að ég bað aftur til Guðs en nú um að vera komin til Spánar. Vonandi urðu strákarnir ekki ófrjóir og við stelpurnar höfum ekki fengið blöðrubólgu þar sem að við gengum hundruðir kílómetra að rútunni í þvílíka skítakuldanum.
Heimferðin var án pissustoppa enda bjórinn löngu búinn.

Efnisorð:

|

15.6.06

Pössunarpía

Ég og Eiríkur Tumi eyddum eftirmiðdegi saman. Hann var nývaknaður þegar að ég mætti í Njörvasundið og leyfði mér að kíkja aðeins á netið meðan að hann sat á teppi og barði trommur og hristi hristur. Nú svo gerði hann örlitlar hundaleikfimiæfingar (lagðist á magann og velti sér) og svo fór hann á fjórar fætur eins og lítill hvolpur og ruggaði sér fram og til baka þar til að hann lenti á maganum. Leikfimin endaði á nokkrum skriðsundshreyfingum. Nú en svo fóru að heyrast einhver hljóð sem að ég túlkaði sem "jæja nú er nóg komið, hættu á netinu.. hér er ég" svo ég stóð upp og dansaði can can fyrir hann (sveiflaði pilsinu fram og til baka) en það fannst Tuma bráðfyndið og skellihló. Jæja, ég hafði fengið fyrirmæli um að gefa Tuma að borða á ákveðnum tíma. Við lölluðum okkur því inn í eldhús þar sem að ég fór að hræra í graut fyrir hann. Tumi æstist allur upp og fór að snúa höndunum í hringi og rugga sér fram og til baka í stólnum. Spenningurinn var hins vegar fljótur að hverfa eftir fyrstu skeiðina en ég náði að koma 5 skeiðum upp í hann áður en að hann lokaði alveg fyrir allt! Við ákváðum þá að fara inn í setustofu og setja eitthvað í dvd-spilarann. Ég leyfði Tuma að velja og hann valdi sér Baby Einstein dvd og við horfðum á hann saman, samanvafin í sófanum. Þegar að þátturinn var hálfnaður nennti Tumi ekki að horfa á hann lengur og tók fjarstýringuna. Fyrst skipti hann yfir á CNN. Við horfðu á fréttir í dágóða stund ( mikið gáfumenni augljóslega hér á ferð), næst skipti hann yfir á norska stöð en á henni var þáttur sem að fjallaði um kommúnisma í Finnlandi. Tumi nennti alls ekki að horfa á hann og skipti strax yfir á tónlistarstöð. Nú þarna sátum við og dilluðum okkur við Shakiru (Tumi var mjög hrifinn af henni) þegar að við hrukkum við og ég hélt að þjófavarnakerfi hefði farið í gang! Kobbi (hundurinn á heimilinu) rauk upp og við fórum öll þrjú fram á gang til að athuga hvaða læti væru eiginlega í gangi. Það er ekki orðum ofaukið að ég hafi fengið vægt taugaáfall þegar að við komum fram á gang. Á miðjum ganginum barðist skógarþröstur fyrir lífi sínu þar sem að Stjarna og Trotsky (kettirnir á heimilinu) léku sér að bráð sinni. Ég reyndi að skerast í leikinn, dauðhrædd með Tuma á handleggnum og Kobba í rassinum, og náði að reka kettina upp. Fuglinn hrökklaðist út í horn, titrandi og skjálfandi, þar sem að hann húkti og skeit! Ég grenjaði næstum af hræðslu (ég og dýr muniði) og hringdi í Marínu og Eirík. Marín sendi Daníel á svæðið en hann tók fuglinn og sem betur fer var hann ekki meiddur og flaug burtu. Úff......... Við Tumi höfðum það svo gott það sem eftir lifði dags... hann kúkaði, sprændi á mig og skellihló, át banana og sofnaði í fanginu mínu. Yndislegra barn er ekki hægt að hugsa sér en ég get ekki sagt það sama um kettina!!!!!!!

Efnisorð:

|

14.6.06











Svo er fólk (aðallega bróðir minn) að furða sig á því að ég haldi með Ítalíu á HM!!

|

13.6.06


Flugdrekahlauparinn

Þar sem að ég lá við Miðjarðarhafið las ég bók. Bókin hafði mikil áhrif á mig og er með betri bókum sem að ég hef lesið. Sögusvið bókarinnar er Afganistan og samfélag afganskra innflytjenda í Bandaríkjunum og segir hún af vináttu tveggja drengja sem skuggi fellur á með afdrifaríkum hætti. Bókin er eftir Khaled Hosseini. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið að hann teldi að bókin næði til fólks vegna þess að tilfinningarnar í henni væru sammannlegar. "Það gildir einu hvort fólk kemur frá Evrópu, Afríku, Ísrael eða annars staðar frá," segir hann. "Fólk bregst við með svipuðum hætti. En það hefur komið mér á óvart að svona margt fólk skuli ná sambandi við bókina."
Eins og ég sagði hafði bókin gífurleg áhrif á mig og ég mæli mikið með henni. Það er mjög gaman að kynnast Afganistan á annan hátt en úr fjölmiðlum. Ég hafði í raun ekki hugmynd um hvers konar land Afganistan er áður en ég las bókina. Þegar að ég heyrði um Afganistan datt mér aðeins í hug eyðilegging og einhver auðn, talibanar og kúgun. En landið býr yfir gífurlegri sögu og mér finnst lýsingin á Kabúl á valdatímum Mohammads Zahir Shah, sem var steypt af stóli 1973, sérstaklega áhrifamikil og sterk.
Ég var alveg heilluð... og get ekki hætt að hugsa um þessa bók.

Efnisorð:

|

12.6.06

...... opna lítið kaffihús í .......

.....Sitges....

Sitges er lítill bær í 30 mín fjarlægð frá Barcelona. Ég eyddi síðastliðinni viku á þessum tveimur stöðum og ólíkir eru þeir. Rosalega þægilegt að vera í litlum rólegum bæ með hreinni strönd og geta svo skroppið inn í stórborgina og fjörið á aðeins hálftíma. Ferðin var yndisleg. Við Tinna lágum á ströndinni, sátum á litlum kaffihúsum og sötruðum hvítvín eða bjór, röltum um þröngar götur, horfðum á sæta stráka, átum á flottum veitingastöðum, kíktum í búðir, djömmuðum á hommastöðum, tókum ljósmyndasessjón á ströndinni um miðja nótt, drukkum vodga í Red Bull, keyptum drasl af götusölum, drukkum mojito í gríð og erg, tókum video sem að enginn fær að sjá, prúttuðum, vorum þunnar, vorum ferskar, fengum athygli, horfðum á video, söknuðum kúts og snúðs, gleymdum okkur í indverskum búðum, lásum bækur, sáum Gaudi, sofnuðum í lest, misstum af stoppstöð, hittum höstl daginn eftir, slefuðum yfir Ástrala, létum okkur dreyma um kærasta, nutum þess að vera á lausu, kynntumst sætum Þjóðverja, kysstum ennþá sætari Spánverja, sátum á bekk og horfðum á mannlífið, sáum útilistamenn sýna listir sínar, urðum skotnar í páfagauk, vorum bólgnar, átum ís og tapas, sólbrunnum, hlógum endalaust og skemmtum okkur konunglega!

Jens frændi býr í Sitges og það var yndislegt að hitta hann og hanga með honum. Hann er mjög heppinn með vinnu og húsnæði og sumarið verður án efa frábært hjá honum. Við fórum út að borða á veitingastaðinn þar sem að hann þjónar og fengum geggjaða máltíð. Jens tók sig mjög vel út sem þjónn, obbosslega fínn! Takk fyrir okkur sæti og Tinna mín takk kærlega fyrir frábæra ferð... verst að brúnkan mun leka af mér hérna í rigningunni sniff sniff...

Um leið og ég kom heim knúsaði ég kútinn...

Efnisorð:

|

2.6.06

úúúúúú sól og sumar... föstudagskvöld... afmælisdömur með sólgleraugu á leiðinni í hvítvínssötur á Thorvaldsen... íslenskt sumar já takk!!

....spænskt sumar á morgun já takk...

Efnisorð:

|

Uppáhalds stjórnmálamaðurinn

Þetta finnst mér magnað !!

Efnisorð:

|

1.6.06

Deit

Ég hef verið nokkuð dugleg að skella mér á deit á þessu ári. Yfirleitt hef ég leitað leiða til að komast hjá því að fara á deit en á þessu ári hefur verið óvenju mikið um boð (af óútskýranlegum ástæðum sem að ég þekki ekki??) svo ég ákvað að láta slag standa og láta á þessa “deitmenningu” reyna. Nú oftast hafa deitin verið hin besta skemmtun en stundum hafa frekar neyðarleg tilvik komið upp. Hér er topp 5 og endilega dæmið hvert þeirra sé það neyðarlegasta. (Athugið að þau eru bæði neyðarleg fyrir mig og fyrir hinn aðilann.)


Atvik nr. 1

Mér var boðið á deit og gaurinn sýndi því mikinn áhuga. Hann t.d. sendi mér sms um hversu mikið hann hlakkaði til og hann hefði tilfinningu fyrir því að þetta gæti orðið gaman hjá okkur. Nú við fórum á kaffihús og áttum þar gott spjall (svo ekki sé minna sagt) því við blöðruðum í 3 klst. og virtumst geta talað um allt milli himins og jarðar. Nú, þegar að deitinu lauk, þá tjáði hann mér hins vegar að hann hefði kynnst stúlku kvöldið áður sem að hann hefði mjög mikinn áhuga á..... ég stóð þarna með kjána dauðans enda átti ég frekar von á dauða mínum en þessu = NEYÐARLEGT!


Atvik nr. 2
Ég var búin að fara á nokkur deit með ákveðnum strák og allt virtist í gúddí fíling. Eitt föstudagskvöldið tjáði hann mér þó að hann þyrfti að þrífa (hefði átt að kveikja þar) og vera með barnið sitt. Ekkert mál, ég fann mér eitthvað til dundurs... nema hvað ég sá hann á djamminu um kvöldið!!! = NEYÐARLEGT!

Atvik nr. 3
Ég hafði hitt strák í 2 skipti og við ákváðum að þriðja “deitið” yrði á djamminu. Ég hitti vinkonur mínar fyrr um kvöldið og ákvað svo að hitta hann á Ölstofunni síðar um nóttina. Nú þegar að við hittumst á Ölstofunni og ég í svaka stuði þá spyr hann mig: “Ertu í dópi?” Ég átti ekki orð!!! og þurfti í framhaldi að sannfæra hann um að ég væri aðeins undir áhrifum áfengis! Þarf varla að taka það fram að ég vildi ekki hitta hann aftur (þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans og afsökunarbeiðnir), fannst þessi spurning svo mikið út úr kú og hann ekki það áhugaverður að ég gæti ýtt henni frá mér = NEYÐARLEGT!

Atvik nr. 4

Ég var að deita strák og hann var nýfluttur í nýtt húsnæði. Nú eitt skipti langaði mig svo að rúlla fram hjá og sjá hvort að eitthvað væri komið í gluggana hjá honum og kannski gardínur en það vildi ekki betur til en að hann stóð á miðri götunni þegar að ég ók fram hjá..... ég þurfti að stoppa og útskýra hvað ég væri eiginlega að gera þarna = NEYÐARLEGT!

Atvik nr. 5
Ég fór á deit með strák sem að ég þekkti lítið. Vissi ekki hvort að mér líkaði við hann en ákvað að láta slag standa og tékka á stöðunni. Ég bað systur mína hins vegar að hringja í mig þegar að hálftími væri liðinn af stefnumótinu til að ég gæti sloppið burt. Um leið og símtalinu lauk spurði hann: “Varstu að láta tékka á þér?” ég roðnaði eins og karfi = NEYÐARLEGT!

Efnisorð:

|
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com